Herdísarvík
Herdísarvík var áður stórbýli í Selvogi en nú komið í eyði. Herdísarvík stendur við samnefnda breiða og opna vík. Fyrir ofan bæinn er Herdísarvíkurfjall (329 m). Herdísarvík var fyrrum kunn verstöð með fjölda sjóbúða og sér enn fyrir rústum margra þeirra. Sömuleiðis sér grjótgarða í hrauninu þar sem fiskurinn var þurrkaður. Þessar minjar voru allar friðlýstar árið 1973.
Þjóðsögur segja að Herdísarvík heiti eftir Herdísi nokkurri er bjó þar en systir hennar Krýs eða Krýsa bjó í Krýsuvík. Áttust þær illt við og lögðu hvor á aðra. Mælti Krýs svo um að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn en allur silungur verða að hornsílum. Herdís mæltu aftur svo um að allur silungur í Kleifarvatni yrði að loðsilungi. Einar Benediktsson skáld bjó í Herdísarvík síðustu æviár sín. Hann gaf Háskóla Íslands jörðina árið 1935. Herdísarvík var lýst friðland árið 1988.
Herdísarvík er ekki langt frá Vitaleiðinni sem tengir saman Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri og um leið segir frá sögu og menningu staðanna sem og alla upplifunarmöguleikana í afþreyingu og náttúru.