Flýtilyklar
Þórbergssetur
Þórbergssetur var opnað 1. júlí 2006. Þar er nú veitingasala, gestamóttaka, salerni, og tveir sýningasalir. Í eystri sýningarsal er ljósmyndasýning úr Suðursveit, gamlar ljósmyndir frá árunum 1930 - 1960 sem varpa ljósi á atvinnuhætti og mannlíf í Suðursveit á þeim tímum er beljandi jökulfljót hömluðu samgöngum og afkoma fólks byggði á sjálfsþurftabúskap og sjósókn frá hafnlausri strönd. Einnig eru þar einstaka munir í sýningarstöndum, flestir tengdir Þórbergi og verkum hans. Í vestri sýningarsal er fjölbreytt sýning er tengist ævi og verkum Þórbergs Þórðarsonar, en einnig sögu þjóðarinnar á hinum ýmsu æviskeiðum skáldsins. Sýningin er sambland af fræðsluspjöldum og safni og hægt er að ganga inn í leikmyndir þar sem reynt er að ná andblæ liðinna ára og njóta um leið stórbrotinna lýsinga meistarans sem leiðsögn um svæðið. Arkitekt að húsinu er Sveinn Ívarsson og hönnuður sýningar Jón Þórisson.
Opið alla daga allan ársins hring frá 8-21
Hali, Suðursveit
Þórbergssetur - ferðaupplýsingar
Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands