Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Fjölskylduferð í Ríki Vatnajökuls

heykerra-sem-adalmynd.jpg
Fjölskylduferð í Ríki Vatnajökuls

Sveitarfélagið Hornafjörður býður upp á fjölbreytta afþreyingu, gistingu og mat við allra hæfi! Hornafjörðurinn tekur vel á móti allri fjölskyldunni og hér eru nokkrar tillögur að frábærum dögum í ríki Vatnajökuls!

Gisting: Ríki Vatnajökuls býður upp á fjölbreytta gistimöguleika fyrir fjölskylduna, allt frá tjaldsvæðum og smáhýsum upp í fjölskylduvæna hótelgistingu.

Afþreying:

  • Skellið ykkur í fjallgöngu og heitu pottana á meðan börnin spreyta sig í ratleik í góðra vina hópi
  • Frisbí golf, fjöruferð og annað fjölskyldufjör í Hornafirðinum
  • Golfvöllurinn á Höfn. Frábær fjölskyldudagur og börnin spila frítt!
  • Hefurðu farið með börnin á stærsta jökul Evrópu og skellt þér í ferðalag um vetrarbrautina? Upplifðu ævintýrin í Ríki Vatnajökuls!
  • Kayak, klifur og annað jöklafjör....upplifðu bakgarðinn í Ríki Vatnajökuls!
  • Söfn, setur og sumarsmiðjur fyrir börn.

Matur: Fjölbreytt flóra veitingastaða sem bjóða upp á girnilega barnamatseðla, heimagerðar pizzur, samlokur og heimagerðan ís

Gisting:  Tjaldsvæði, gistiheimili, hótel með fjölskylduherbergjum, sumarbústaðir o.fl.  

Endilega kynntu þér Hornafjörðinn enn betur og njóttu dvalarinnar með fjölskyldunni:

Hornafjörður 

Vatnajökulsþjóðgarður

Vatnajökulsþjóðgarður, stofnaður 7. júní 2008, nær yfir um 14 prósent af flatarmáli landsins (14.701 ferkílómetrar) og er þar með næst stærsti þjóðgarður Evrópu. Landssvæði þjóðgarðsins er einstakt á heimsvísu. Þar er að finna síkvikt samspil jökla og eldvirkni, jökulhlaupa, eldgosa og jarðhita. Jarðfræðileg fjölbreytni er óvenjulega mikil og innan væntanlegra þjóðgarðsmarka er að finna afar sjaldgæfar landslagsheildir, m.a ósnortin víðerni. Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs munu Íslendingar ráðast í stærsta náttúruverndarverkefni þjóðarinnar frá upphafi. Stofnun þjóðgarðsins er einnig eitt stærsta atvinnusköpunar- og byggðaþróunarverkefni sem stjórnvöld hafa tekist á hendur í þessum hluta landsins.

Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu. Flatarmál hans er um 7.800 km2 og ísinn víðast 400-600 m þykkur en mest um 950 m. Undir jökulísnum leynast fjöll, dalir og hásléttur. Þar eru líka virkar megineldstöðvar. Bárðarbunga er stærst þeirra en Grímsvötn sú virkasta. Hæst nær jökulhettan rúma 2.000 m yfir sjó en jökulbotninn fer lægst 300 m niður fyrir sjávarmál. Að frátöldum Mýrdalsjökli er úrkoma hvergi meiri á Íslandi en á sunnanverðum Vatnajökli né afrennsli meira til sjávar. Svo mikill vatnsforði er bundinn í Vatnajökli að það tæki vatnsmestu á Íslands, Ölfusá, rúm 200 ár að bera hann fram.

Landslag umhverfis Vatnajökul er fjölbreytilegt. Norðan hans er háslétta afmörkuð af vatnsmiklum jökulám. Yfir henni gnæfa eldstöðvarnar Askja, Kverkfjöll og Snæfell og móbergsstapinn Herðubreið, drottning íslenskra fjalla. Í fyrndinni skáru mikil hamfarahlaup Jökulsárgljúfur í norðanverða hásléttuna. Efst í gljúfrunum dunar nú hinn kraftmikli Dettifoss en utar má finna formfagra Hljóðakletta og hamraskeifuna Ásbyrgi. Víðfeðm heiðalönd og votlendi einkenna svæðið við Snæfell næst jöklinum austanverðum. Þar eru mikilvæg búsvæði hreindýra og heiðagæsa.

Sunnan Vatnajökuls eru háir og tignarlegir fjallgarðar einkennandi og milli þeirra fellur fjöldi skriðjökla niður á láglendið. Syðst trónir megineldstöðin Öræfajökull og hæsti tindur landsins, Hvannadalshnjúkur. Í skjóli jökulsins er gróðurvinin Skaftafell og þar vestur af svartur Skeiðarársandur, sem tíð eldgos og jökulhlaup úr Grímsvötnum hafa skapað. Vestan Vatnajökuls einkennist landslag líka af mikilli eldvirkni. Þar urðu tvö af stærstu sprungu- og hraungosum jarðar á sögulegum tíma, Eldgjárgosið 934 og Skaftáreldar í Lakagígum 1783-1784. Norðvestan jökuls liggur Vonarskarð, litríkt háhitasvæði og vatnaskil Norður- og Suðurlands.

Suðurland

Þéttbýliskjarnar

Á Suðurlandi eru allmargir þéttbýlisstaðir, hver með sínu sniði og sjarma og allir bjóða upp á einhverskonar afþreyingu. Selfoss er þeirra stærstur og þar má finna ýmsar verslanir, þjónustu og marga veitinga- og skyndibitastaði. Flestir bæir eru í alfaraleið og því bæði hentugt og skemmtilegt að eiga þar viðdvöl.

Skoða meira

Map Höfn Kirkjubæjarklaustur Vík Vestmannaeyjar Hvolsvöllur Flúðir Laugarvatn Reykholt Laugarás Borg Brautarholt Hveragerði Árnes Selfoss Hella Stokkseyri Eyrarbakki Þykkvibær Þórlákshöfn