Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Suðurland - Orka, Kraftur, Hreinleiki

blank-470-x-300-2.png
Suðurland - Orka, Kraftur, Hreinleiki

Suðurland er stórt svæði með mikla fjölbreytni í náttúru, afþreyingu, gistingu og þjónustu. Líta má á Suðurland sem þrjú svæði, Gullna hrings svæðið, Katla jarðvangur & Vestmannaeyjar og Ríki Vatnajökuls. Gullna hrings svæðið samanstendur af sveitarfélögunum innan Árnessýslu, Ásahreppi og Rangárþingi ytra. Katla jarðvangur & Vestmannaeyjar eru Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Vestmannaeyjar. Ríki Vatnajökuls er yfirheiti yfir Sveitarfélagið Hornafjörð. Svæðin þrjú eru ólík en eiga jafnframt margt sameiginlegt. Náttúran er fjölbreytt og tilkomumikil á öllum svæðum og margir stórir seglar sem vekja áhuga ferðamanna. Samspil íss, elds og jökla ásamt svörtum ströndum má segja að einkenni Suðurland. Jarðvarmi og vatnsafl er einkennandi á Gullna hrings svæðinu, landslagið síbreytilegt vegna virkra náttúruafla í Kötlu jarðvangi og Vestmannaeyjum og jöklasýnin í Ríki Vatnajökuls er tilkomumikil.

Gullna hrings svæðið
Gullnahringssvæðið nær frá Selvogi vestur af Þorlákshöfn og austur að Hellu, með ströndinni og inná hálendi. Svæðið býður uppá mikinn fjölbreytileika áfangastaða eins og Þingvelli, Gullfoss og Geysir, sem mynda Gullna hringinn. Einnig má finna Kerið, Hjálparfoss, Gjánna, Urriðafoss og Ægissíðufoss við Hellu. Auk þess má finna falleg svæði inn á hálendi, s.s. Kerlingarfjöll, Kjöl, Sprengisand, Landmannalaugar, Langjökul, Heklu og nærliggjandi svæði, til að nefna einhver. Umvafinn allri þessari fallegu náttúru má njóta ýmis konar afþreyingar, s.s. ýmissa baðstaða, gönguferða, hestaferða, hjólaferða, bátsferða og fjórhjólaferða svo eitthvað sé nefnt. Þá er fjölbreytt menningartengd starfsemi á svæðinu og ýmsir staðir sem bjóða reglulega upp á spennandi viðburði.
Svæðið er sannkölluð matarkista og á sér langa sögu í framleiðslu á mjólkurvörum, kjöti og grænmeti. Á svæðinu má finna mikinn jarðvarma og er hann uppspretta alls kyns framleiðslu og þróunar á svæðinu. Jarðvarminn er t.d. notaður á sundstöðum svæðisins og í orku- og matarframleiðslu.
Katla jarðvangur og Vestmannaeyjar

Katla jarðvangur (Katla UNESCO Global Geopark) einkennist af sérstæðu náttúrufari, eldvirkni í bland við jöklaumhverfi, fossa, fjölbreyttar bergmyndanir og jarðminjar með mikilvægi á heimsvísu. Þrjú sveitarfélög mynda jarðvanginn, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur. Vilja þau líta á svæðið sem eina heild þannig að gestir fái að upplifa menningu, sögu, jarðfræði og samfélagið á svæðinu í heild sinni.

Vestmannaeyjar samanstanda af 15 eyjum auk 30 dranga og einkennast einnig af eldvirkni, stórbrotinni sögu um eldgos í byggð og fjölskrúðugu fuglalífi.  Ferðaþjónustan hefur aukist mikið undanfarin ár sem hefur skilað sé í aukinni gistingu, betri, fleiri og fjölbreyttari veitingastöðum sem bjóða upp á mat úr héraði.

Einnig er hægt að skoða vefsvæði Kötlu jarðvangs og Vestmannaeyja fyrir frekari upplýsingar.

Ríki Vatnajökuls

Ríki Vatnajökuls nær frá hinum tignarlega Lómagnúp til vesturs að tilkomumiklu landslagi Hvalness til austurs. Á svæðinu geta ferðamenn heimsótt Vatnajökul, stærsta jökul Evrópu og aðliggjandi svæði sem hefur upp á margt að bjóða.  

Ríki Vatnajökuls er stórbrotið svæði sem hefur að geyma magnaða íshella, töfrandi lón fyllt fljótandi ísjökum og jökultungur, sumar hverjar sem auðvelt er að nálgast. Þá eru strendur fylltar svörtum sandi algeng sjón í ríki Vatnajökuls. Svarti sandurinn verður til þegar jökullinn mylur berggrunn sinn. Sandurinn er borinn að sjó af jökulám þar sem öldur, vindur og straumar móta sandinn í mögnuð listaverk af náttúrunnar hendi. Skeiðarársandur, sem er staðsettur í vestasta hluta ríki Vatnajökuls, er stærsta svæði svarts sands í heiminum.  

Svæðið býður upp á marga veitingastaði sem nýta margir hverjir hráefni frá svæðinu. Allir ættu að geta fundið sér afþreyingu við sitt hæfi í ríki Vatnajökuls þar sem eru margir valmöguleikar til ævintýraferða sem og annarra slakandi afþreyinga allan ársins hring. Gestir ríki Vatnajökuls hafa úrval ýmissa afþreyinga, fallegs landslags, sögulegra og áhugaverðra staða til þess að skoða. Þá er einnig um margskonar útivist að velja. Til dæmis golf, fuglaskoðun, veiði, hestaferðir, fjallgöngur, ísklifur, jökulgöngur, kajakferðir, bátsferðir, snjósleðaferðir og superjeep ferðir. Svæðið státar einnig af margvíslegum merktum gönguleiðum á ýmsum svæðum umlykjandi Vatnajökul.  

Hægt er að heimsækja Þórbergssetur eða listasafnið á Höfn, kíkja í sund í upphitaðri sundlaug á Höfn eða í afslöppun í jarðhitapottana í Hoffelli.  

Að ferðast um stórbrotna sveitina sem hvílir á milli jöklanna og strandlengju Atlantshafsins  á suðausturlandinu bregst ekki væntingum gesta. Sjávarþorpið Höfn, einnig þekkt sem „humar  höfuðborg“ Íslands, er staður sem vert er að heimsækja.

 

Suðurland

Þéttbýliskjarnar

Á Suðurlandi eru allmargir þéttbýlisstaðir, hver með sínu sniði og sjarma og allir bjóða upp á einhverskonar afþreyingu. Selfoss er þeirra stærstur og þar má finna ýmsar verslanir, þjónustu og marga veitinga- og skyndibitastaði. Flestir bæir eru í alfaraleið og því bæði hentugt og skemmtilegt að eiga þar viðdvöl.

Skoða meira

Map Höfn Kirkjubæjarklaustur Vík Vestmannaeyjar Hvolsvöllur Flúðir Laugarvatn Reykholt Laugarás Borg Brautarholt Hveragerði Árnes Selfoss Hella Stokkseyri Eyrarbakki Þykkvibær Þórlákshöfn