Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Stofnun áfangastaðastofu á Suðurlandi

Eins og margir hafa orðið varir við þá hefur verið í fréttum umræða um stofnun Áfangastaðastofu á Suðurlandi.

Hér er verið að formgera betur hinn góða samstarfsvettvang sem hefur verið með ríki, sveitarfélögum og ferðaþjónustunni um að gera Suðurland að frábærum áfangastað fyrir ferðamenn. Markaðsstofa Suðurlands hefur verið þessi samstarfsvettvangur og eru áform um að svo verði áfram. Markaðsstofan hefur lengi sinnt mörgum af hlutverkum Áfangastaðastofu, en mun að auki fá einhver ný hlutverk.

Áfangastaðastofur eru stofnaðar á grundvelli alþjóðlegra viðmiða sem á ensku kallast „Destination management and marketing organistation“ (DMMO). Stjórnvöld (ríki og sveitarfélög) hafa skilgreint hugtakið áfangastaðastofa með eftirfarandi hætti:

Áfangastaðastofa er svæðisbundin þjónustueining á vegum opinberra aðila og einkaaðila sem hefur það meginhlutverk að styðja við ferðaþjónustu í viðkomandi landshluta og tryggja að hún þróist í takt við vilja heimamanna þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi.

Markmiðið er að efla stoðkerfi ferðaþjónustunnar og stuðla að jákvæðum framgangi greinarinnar á starfssvæði hennar. Stofnun áfangastaðastofa um land allt er veigamikill þáttur í því og til að sinna því hlutverki sem þeim er ætlað er nauðsynlegt að byggja upp öflugar einingar sem búa yfir sérhæfðum mannauði, þekkingu og reynslu. Ákveðið hefur verið að Markaðsstofa Suðurlands muni gegna þessu nú formgerða hlutverki á Suðurlandi, enda hefur starfsemi hennar þróast meira og meira í þá átt síðustu ár samhliða vinnu við markaðssetningu sem og eflingu samræmdar ímyndar og ásýndar áfangastaðarins.

Eitt af meginverkefnum áfangastaðastofu er að leggja fram áfangastaðaáætlun fyrir viðkomandi landsvæði og tryggja að sú áætlun sé í samræmi við m.a. aðra lögbundna áætlanagerð. Áfangastaðastofa starfar í umboði sveitarfélaga viðkomandi landsvæðis og er samstarfsvettvangur viðkomandi sveitarfélaga, ríkis og atvinnugreinarinnar á því svæði.

Á meðal hlutverka áfangastaðastofu eru eftirfarandi verkefni sem áfangastofan kemur til með að sinna í samstarfi og samráði við aðra aðila sem um sömu málaflokka hafa að gera:

  • Sinna svæðisbundinni markaðssetningu í samstarfi við sveitarfélög og ferðaþjónustuaðila sem dregur fram sérstöðu landshlutans og styður við markaðssetningu Íslands í heild
  • Vera grunneining í stoðkerfi ferðamála í landshlutunum. Áfangastaðastofur liðsinna sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum innan svæðis vegna ferðaþjónustu samkvæmt samstarfssamningum
  • Gerð og framkvæmd áfangastaðaáætlana ásamt tengingu við aðrar opinberar stefnur og áætlanir
  • Aðkoma að gerð stefnumótunar og áætlana á landsvísu sem snertir ferðaþjónustu
  • Aðkoma að þarfagreiningu rannsókna og mælinga á landsvísu sem og að koma með tillögur inn í rannsóknarþörf landshlutans
  • Stuðla að vöruþróun og nýsköpun auk þess að vinna að þróunarverkefnum
  • Leggja mat á fræðsluþörf, hafa aðkomu að þróunarverkefnum er varða hæfni og gæði í ferðaþjónustu, veita ráðgjöf varðandi fræðslu og miðla upplýsingum um hvað er í boði

Nánar verður farið yfir þessar fyrirætlanir á aðalfundi Markaðsstofunnar þann 12. maí næstkomandi.