Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Kynningarferðir um Suðurland vor 2018

Markaðsstofa Suðurlands bauð starfsfólki ferðaskrifstofa, bókunarskrifstofa og upplýsingamiðstöðva í kynningarferðir um Suðurland í lok maí og byrjun júní.

Markaðsstofa Suðurlands bauð starfsfólki ferðaskrifstofa, bókunarskrifstofa og upplýsingamiðstöðva í kynningarferðir um Suðurland í lok maí og byrjun júní.  Um undirbúning og framkvæmd ferðanna sá einnig faghópur um ferðamál á Suðurlandi sem skipa fulltrúum sveitarfélaga og klasa á svæðinu. Tilgangur ferðanna var að kynna nýjungar í ferðaþjónustu á Suðurlandi.

Byrjað var á að heimsækja Sveitarfélagið Hornafjörð. Flogið var á Höfn með Flugfélaginu Erni og þaðan keyrt um Hornafjörðin og fjölbreytt ferðaþjónustufyrirtæki heimsótt, en Glacier Journey sáu um aksturinn. Byrjað var á að heimsækja fyrirtæki á Höfn; Hótel Höfn sem kynnti breytingar og umbætur sem þau hafa verið að vinna í, Urta kynnti vörur sínar og svo tók Höfn Local Guide hópinn í stutta göngu þar sem m.a. veitingahúsin niður við höfn voru kynnt um leið og hópurinn fékk skemmtilega fræðslu um sögu staðarins. Þau veitingahús sem voru heimsótt eru;  Humarhöfnin, Nýhöfn, Íshúsið og endað á glæsilegum hádegisverði á Pakkhúsinu. Þá fengu gestir kynningu á starfsemi Vatnajökusþjóðgarðs í Gömlu búð.

Þá var haldið með hópinn út fyrir þéttbýlið og ferðaþjónustuaðilar heimsóttir þar. Þeirra á meðal var Brunnhóll þar sem ný álma er í byggingu sem og nágrannar þeirra hjá Guesthouse Lilju. Þá var nýja fjósið í Flatey heimsótt þar sem ný og glæsileg aðstaða opnar á næstu dögum. Einnig fengu gestir kynningu á þeim ferðaþjónustuaðilum sem hafa aðstöðu við Flatey. Næst var haldið á Vagnsstaði þar sem hópurinn fékk að skoða nýja og glæsilega álmu á Vagnsstadir Hostel og fengu kynningu á ferðum Íss og ævintýra/Glacier jeeps. Að lokum skoðaði hópurinn nýja og glæsilega aðstöðu á Fjallsárlóni.

Næsta ferð var farin um Uppsveitir Suðurlands og Hveragerði. Lagt var af stað frá Reykjavík og ekið sem leið lá yfir Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði á Suðurlandið. Byrjað var á því að stoppa við Laugarvatnshella þar sem gestir voru leiddir í allan sannleikann um hellana, þaðan var farið á Laugarvatn og stoppað í nýja eldaskálanum í skóginum. Eftir stutt stopp var haldið á Geysi þar sem skoðaður var Litli Geysir og glæsileg aðstaða á nýja Hótel Geysi sem mun opna innan skamms. Næst var ekið að Einholti þar sem kynnt var lúxusgisting í Torfhúsunum sem opna síðla sumars. Eftir það lá leiðin á Flúðir þar sem hópurinn fékk hádegismat á Farmers Bistro og kynningu á starfsemi Flúðasveppa. Þá var haldið niður Skeið og stoppað í Brautarholti, þar var kynnt fjölbreytt starfsemi South Central sem býður upp á gistingu á gistihúsinu á Blesastöðum og á Moteli og tjaldsvæðinu í Brautarholti. Dagurinn endaði síðan á heimsókn í Hveragerði þar sem skoðuð var ný og endurbætt aðstaða á Hótel Örk.

Í síðustu ferðinni lá leiðin til Vestmannaeyja en haldið var af stað frá Reykjavík snemma morguns og keyrt sem leið lá í Landeyjarhöfn þar sem farið var um borð í Herjólf. Fyrsti viðkomustaður var Þekkingarsetur Vestmannaeyja þar sem tekið var á móti hópnum og sagt frá uppbyggingu í eyjum og væntanlegum nýjungum í ferðaþjónustu. Eyjatours fór síðan með hópinn í stutta útsýnisferð um eyjuna þar sem sagt var frá því helsta. Farið var inn í Herjólfsdal þar sem fyrirtækið Glamping and camping býður upp á gistingu fyrir þá sem vilja vera í útilega en ekki gista í tjaldi. Sagnheimar voru næst heimsóttir þar sem gestir fengu stutta kynningu á safninu. Hádegismatur var síðan snæddur á Einsa Kalda. Eftir dásamlegan mat skoðaði hópurinn Hótel Vestmannaeyjar. Næst var haldið í Eldheima og Sæheima með Viking Tours og endað á veitingastaðnum Gott þar sem boðið var upp á ljúfenga köku og kaffi. Að lokum var gengið sem leið lá niður á Höfn og stoppað hjá Rib Safari þar sem hópurinn fékk stutta kynningu á starfseminni. Eftir það var gengið um borð í Herjólf og haldið af stað heim á leið.

Ferðirnar voru vel heppnaðar í alla staði, fólk var almennt mjög ánægt og hvarvetna var tekið vel á móti hópunum.

Myndir úr ferðinni má skoða hér