LTG European Awards 2018: Outdoor activity destination of the year: South Iceland
Vestfirðir Vesturland Norðurland Austurland Suðurland Reykjanes Höfuðborgarsvæðið
Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Kynningarferðir um Suðurland vor 2018

Markaðsstofa Suðurlands bauð starfsfólki ferðaskrifstofa, bókunarskrifstofa og upplýsingamiðstöðva í kynningarferðir um Suðurland í lok maí og byrjun júní.  Um undirbúning og framkvæmd ferðanna sá einnig faghópur um ferðamál á Suðurlandi sem skipa fulltrúum sveitarfélaga og klasa á svæðinu. Tilgangur ferðanna var að kynna nýjungar í ferðaþjónustu á Suðurlandi.

Byrjað var á að heimsækja Sveitarfélagið Hornafjörð. Flogið var á Höfn með Flugfélaginu Erni og þaðan keyrt um Hornafjörðin og fjölbreytt ferðaþjónustufyrirtæki heimsótt, en Glacier Journey sáu um aksturinn. Byrjað var á að heimsækja fyrirtæki á Höfn; Hótel Höfn sem kynnti breytingar og umbætur sem þau hafa verið að vinna í, Urta kynnti vörur sínar og svo tók Höfn Local Guide hópinn í stutta göngu þar sem m.a. veitingahúsin niður við höfn voru kynnt um leið og hópurinn fékk skemmtilega fræðslu um sögu staðarins. Þau veitingahús sem voru heimsótt eru;  Humarhöfnin, Nýhöfn, Íshúsið og endað á glæsilegum hádegisverði á Pakkhúsinu. Þá fengu gestir kynningu á starfsemi Vatnajökusþjóðgarðs í Gömlu búð.

Þá var haldið með hópinn út fyrir þéttbýlið og ferðaþjónustuaðilar heimsóttir þar. Þeirra á meðal var Brunnhóll þar sem ný álma er í byggingu sem og nágrannar þeirra hjá Guesthouse Lilju. Þá var nýja fjósið í Flatey heimsótt þar sem ný og glæsileg aðstaða opnar á næstu dögum. Einnig fengu gestir kynningu á þeim ferðaþjónustuaðilum sem hafa aðstöðu við Flatey. Næst var haldið á Vagnsstaði þar sem hópurinn fékk að skoða nýja og glæsilega álmu á Vagnsstadir Hostel og fengu kynningu á ferðum Íss og ævintýra/Glacier jeeps. Að lokum skoðaði hópurinn nýja og glæsilega aðstöðu á Fjallsárlóni.

Næsta ferð var farin um Uppsveitir Suðurlands og Hveragerði. Lagt var af stað frá Reykjavík og ekið sem leið lá yfir Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði á Suðurlandið. Byrjað var á því að stoppa við Laugarvatnshella þar sem gestir voru leiddir í allan sannleikann um hellana, þaðan var farið á Laugarvatn og stoppað í nýja eldaskálanum í skóginum. Eftir stutt stopp var haldið á Geysi þar sem skoðaður var Litli Geysir og glæsileg aðstaða á nýja Hótel Geysi sem mun opna innan skamms. Næst var ekið að Einholti þar sem kynnt var lúxusgisting í Torfhúsunum sem opna síðla sumars. Eftir það lá leiðin á Flúðir þar sem hópurinn fékk hádegismat á Farmers Bistro og kynningu á starfsemi Flúðasveppa. Þá var haldið niður Skeið og stoppað í Brautarholti, þar var kynnt fjölbreytt starfsemi South Central sem býður upp á gistingu á gistihúsinu á Blesastöðum og á Moteli og tjaldsvæðinu í Brautarholti. Dagurinn endaði síðan á heimsókn í Hveragerði þar sem skoðuð var ný og endurbætt aðstaða á Hótel Örk.

Í síðustu ferðinni lá leiðin til Vestmannaeyja en haldið var af stað frá Reykjavík snemma morguns og keyrt sem leið lá í Landeyjarhöfn þar sem farið var um borð í Herjólf. Fyrsti viðkomustaður var Þekkingarsetur Vestmannaeyja þar sem tekið var á móti hópnum og sagt frá uppbyggingu í eyjum og væntanlegum nýjungum í ferðaþjónustu. Eyjatours fór síðan með hópinn í stutta útsýnisferð um eyjuna þar sem sagt var frá því helsta. Farið var inn í Herjólfsdal þar sem fyrirtækið Glamping and camping býður upp á gistingu fyrir þá sem vilja vera í útilega en ekki gista í tjaldi. Sagnheimar voru næst heimsóttir þar sem gestir fengu stutta kynningu á safninu. Hádegismatur var síðan snæddur á Einsa Kalda. Eftir dásamlegan mat skoðaði hópurinn Hótel Vestmannaeyjar. Næst var haldið í Eldheima og Sæheima með Viking Tours og endað á veitingastaðnum Gott þar sem boðið var upp á ljúfenga köku og kaffi. Að lokum var gengið sem leið lá niður á Höfn og stoppað hjá Rib Safari þar sem hópurinn fékk stutta kynningu á starfseminni. Eftir það var gengið um borð í Herjólf og haldið af stað heim á leið.

Ferðirnar voru vel heppnaðar í alla staði, fólk var almennt mjög ánægt og hvarvetna var tekið vel á móti hópunum.

Myndir úr ferðinni má skoða hér


Suðurland

Þéttbýliskjarnar

Á Suðurlandi eru allmargir þéttbýlisstaðir, hver með sínu sniði og sjarma og allir bjóða upp á einhverskonar afþreyingu. Selfoss er þeirra stærstur og þar má finna ýmsar verslanir, þjónustu og marga veitinga- og skyndibitastaði. Flestir bæir eru í alfaraleið og því bæði hentugt og skemmtilegt að eiga þar viðdvöl.

Skoða meira

Map Höfn Kirkjubæjarklaustur Vík Vestmannaeyjar Hvolsvöllur Flúðir Laugarvatn Reykholt Laugarás Borg Brautarholt Hveragerði Árnes Selfoss Hella Stokkseyri Eyrarbakki Þykkvibær Þórlákshöfn