LTG European Awards 2018: Outdoor activity destination of the year: South Iceland
Vestfirðir Vesturland Norðurland Austurland Suðurland Reykjanes Höfuðborgarsvæðið
Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Nokkur heilræði um akstur

Hér hefur verið safnað saman ýmsum heilræðum sem vert er að hafa í huga þegar akstur er annars vegar. Sumum kann að finnast þetta sjálfsagðir hlutir sem óþarfi sé að tíunda en eins og allir vita þá er góð vísa aldrei of oft kveðin.

Framúrakstur eitt það hættulegasta í umferðinni

Framúrakstur krefst alltaf skýrrar hugsunar og er eitt af því hættulegasta sem menn gera í umferðinni. Brýnt er að menn reyni ekki framúrakstur nema aðstæður séu fyrir hendi. Í því sambandi er mikilvægt að aka ekki framúr þar sem óbrotnar (heilar) línur hafa verið málaðar á veg til þess að gefa ökumönnum til kynna að þar sé stórhættulegt að aka framúr.

Búpeningur við vegi

Víða er búpeningur meðfram vegum og því þarf ávallt að vera vakandi fyrir búpeningi í vegkanti. Sérstök hætta er á ferðum ef lömb og kind eru sitt hvoru megin við veg því algengt er að lömb hlaupi skyndilega yfir veg þegar bíll nálgast. Ef búpeningur birtist skyndilega á vegi þarf að varast að stofna eigin lífi og annarra í voða með óyfirveguðum viðbrögðum svo sem að aka hugsunarlaust út af vegi þar sem aðstæður leyfa það ekki. Þetta á að sjálfsögðu einnig við um fugla og önnur smádýr. Líta verður vel fram á veginn. 

Skil klæðningar og malarvegar

Alltaf þarf að aka með gætni milli skila á malarvegi og malbiks eða klæðningar. Oft myndast hættulegir kantar eða djúpar holur við skilin. Einnig geta hættulegir kantar myndast við vegaxlir, ræsi, skurði og ristarhlið. Á blindhæðum eða rétt neðan við þær má ekki stoppa.

Haldið jöfnum hraða

Öruggast er að halda jöfnum hraða og sem næst hámarkshraða. Gætið þæess þó að miða alltaf hraða við aðstæður hverju sinni. Of mikill hraði eða of lítill miðað við aðstæður skapar alltaf hættu. Bensíneyðsla er í lágmarki ef hraði er jafn og á um 80 - 90 km/klst.

Mannleg mistök

Algengasta orsök umferðaslysa eru mannleg mistök. Helst er um að ræða vanmat á hraða og fjarlægð (hraðablinda), mistúlkun aðstæðna, athyglisbrest eða rangt mat á fyrirætlunum annarra. Alltaf þarf að hafa fulla athygli og raunsæjar hugmyndir um hættur og aldrei taka óþarfa áhættu í umferðinni.

Mætingar

Dragið ávallt úr hraða við mætingar, sérstaklega á malarvegum. Steinar þyrlast upp en hafa lítinn eigin hraða. Hraði bílanna sjálfra ákvarðar hversu hratt steinar lenda á framrúðu.

Bil á milli bíla

Hafið hæfilegt bil á milli bíla og vera ávallt við því búinn að ökumenn fyrir framan okkur þurfi af einhverjum ástæðum að draga úr ferð, t.d. vegna óvæntra hindrana eða einfaldlega vegna þess að þeir ætla að beygja á vegamótum, eða inn á vegarslóða. Þegar slíkir vegarslóðar eru lítið áberandi eykst hættan og sá sem ætlar að beygja inn á þá verður að gefa þeim sem á eftir honum koma merki í tæka tíð með því að stíga nokkrum sinnum á hemlana og setja stefnuljósið á með löngum fyrirvara. Bil í næsta bíl á að vera lengra eftir því sem hraðinn er meiri á veginum.

Blindhæðir

Farið alltaf vel á hægri hluta vegar yfir blindhæðir og draga úr hraða. Blindhæðir eru ekki alltaf merktar sérstaklega á fáförnum vegum fjarri hringveginum. Á eða við blindhæðir, eða annarsstaðar þar sem vegsýn er skert, má ekki stoppa því það getur valdið mikilli hættu.

Farsíma við akstur

Forðast skal að tala í farsíma við akstur. Ef nauðsynlegt er að nota síma skal stöðva bílinn afsíðis og ljúka erindinu. Þótt handfrjáls búnaður sé notaður er ákveðin truflun af notkun símans, við að hringja eða svara auk þess sem mikilvægt eða krefjandi símtal getur truflað athygli ökumanns.

Einbreiðar brýr

Aka þarf sérstaklega  varlega að einbreiðum brúm og draga úr ökuhraða. Tryggja að enginn komi samtímis á móti. Sú almenna regla gildir að jafnaði að sá sem fyrstur kemur að brú fari fyrstur yfir. Sá sem bíður fer vel út á vegbrún og setur stöðuljósin á.

Gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk

Aka þarf varlega framhjá gangandi vegfarendum og hjólreiðafólki, sérstaklega þar sem hætta er á steinkasti og aurbleytu. Ef ekið er með tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi eða aðra eftirvagna sem ná útfyrir hliðar bifreiðar skal varast að aka of nálægt þeim.

Fylgjast vel með þar næsta bíl á undan

Þegar ekið er á vegum þar sem hraði er mikill og nokkur umferð verður að fylgjast vel með þar næsta bíl á undan. Auðvelt er að bregðast við einhverju óvæntu hjá bílstjóra í næsta bíl, en ef eitthvað fer úrskeiðis hjá ökumanni þarnæsta bíls er erfitt að bregðast við. Akið með framsýni og fyrirhyggju.

Bílalest

Þegar bílalest myndast ætti sá sem fremstur fer að víkja út á hægri kant og hleypa framúr. Ef hann gerir það ekki og framúrakstur er nauðsynlegur skal alltaf næsti bíll á eftir hægfara bílnum hefja framúraksturinn og svo koll af kolli. Í raun er það annar og þriðji bíll sem myndar bílalestina. Treysti ökumenn þeirra sér ekki framúr þeim fremsta, þurfa þeir að hafa það mikið bil að þeir sem á eftir koma geti komist inn á milli í eðlilegum framúrakstri. 

Bilaður bíll

Ef bíll bilar á vegi skal hættuljós (viðvörunarljós) sett á og reynt að koma bílnum vel út á vegöxl og koma viðvörunarþríhyrningi fyrir um 100 metrum aftan við bifreið til að vara aðra ökumenn við.

Þreyta og syfja

Þreyta og syfja ökumanna veldur mörgum slysum. Ef svefn sækir á er nauðsynlegt að gera viðeigandi ráðstafanir. Best er að stoppa á öruggum stað, fara út úr bílnum teygja úr sér og fá ferskt loft í lungun. Góð loftræsting inni í bílnum (niðurskrúfaðar rúður) skipta miklu máli. Sumir hafa súran eða beiskan brjóstsykur tiltækan, en hver og einn ökumaður þekkir hvað gagnast honum best við þessar aðstæður. 

Farþegi í framsæti ætti að forðast að sofna, því með því móti hefur hann verulega svæfandi áhrif á ökumann. Stórhættulegt er fyrir framsætisfarþega að halla sætisbaki aftur og sofna. Við þær aðstæður koma eiginleikar bílbeltisins alls ekki að tilætluðum notum.

Hugið um börnin

Ef börn eru með í för, reynið þá að finna áningastað þar sem leikvöllur er eða stað sem býður upp á leik t.d. þar sem fjara er. Þrjátíu til fimmtíu mínútna stopp á leiðinni í fríið getur gert gæfumunin fyrir góða ferðaskapið.

Hafið með ykkur nesti í lengri ferðir og finnið góðan áningastað til þess að borða það. Ef börn eru með fá þau mikla útrás fyrir orku sína að borða nesti úti í náttúrunni.

Heimild: Umferðarstofa o.fl.

Suðurland

Þéttbýliskjarnar

Á Suðurlandi eru allmargir þéttbýlisstaðir, hver með sínu sniði og sjarma og allir bjóða upp á einhverskonar afþreyingu. Selfoss er þeirra stærstur og þar má finna ýmsar verslanir, þjónustu og marga veitinga- og skyndibitastaði. Flestir bæir eru í alfaraleið og því bæði hentugt og skemmtilegt að eiga þar viðdvöl.

Skoða meira

Map Höfn Kirkjubæjarklaustur Vík Vestmannaeyjar Hvolsvöllur Flúðir Laugarvatn Reykholt Laugarás Borg Brautarholt Hveragerði Árnes Selfoss Hella Stokkseyri Eyrarbakki Þykkvibær Þórlákshöfn