Flýtilyklar
Hrauneyjafossstöð
Hrauneyjafossstöð var tekin í notkun í desember 1982 en byrjað var að virkja Tungnaá við Hrauneyjafoss og hófst verkið 1978. Tungná var stífluð 1½ km fyrir ofan Hrauneyjafoss en við það þornaði sá foss upp. Myndaðist þá 8,8 km² stórt lón og fóru Hrauneyjar undir vatn. Dýpst er lónið 9 m. Vatnið er leitt um 1 km langan skurð í lægð í Fossöldu, norðaustur af fossinum, að steyptu inntaksvirki á norðurbrún öldunnar. Þaðan liggja þrjár stálpípur að stöðvarhúsi við brekkurætur. Fallhæð er 88 m. Stöðvarhúsið er með þremur aflvélum og er hver þeirra 70 MW og virkjunin alls 210 MW en gert ráð fyrir að bæta megi við einni aflvél síðar. Frá hverflum rennur vatnið í um 1,1 km löngum skurði í Flutningskvísl sem rennur í Tungnaá um 100 m ofan við Köldukvíslarármót.
Frá Hrauneyjafossvirkjun liggur háspennulína yfir hálendið að Brennimel í Hvalfirði og önnur til Sigöldu.
Mynd á framhlið stöðvarhúss Hrauneyjafossvirkjunar er eftir Hafstein Austmann listmálara. Hún var sett upp árið 1986.
Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1.0. Námsgagnastofnun 1995.
Hrauneyjafossstöð - ferðaupplýsingar
Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands