Flýtilyklar
Hlöðufell
Fjall (1188 m y.s.) norður af Laugardal og Biskupstungum en suðvestur af Langjökli. Hlöðufell er móbergsstapi með grágrýtisþekju. Minjar eldstöðva sjást ekki en jökull hefur sorfið fellið að ofan og stefna jökulrákir til allra hliða út frá hákollinum. Norðan í því er sísnævi. Það er hvarvetna hömrum girt en þó kleift og er geysimikil útsýn af því.
Hlöðuvellir heitir grasfit suðvestan undir Hlöðufelli og þar er sæluhús Ferðafélags Íslands sem rúmar 15 manns. Beint upp af húsinu er hamragil mikið og vestan við það er greiðast að ganga á fellið.
Sunnan við Hlöðufell er Rótasandur. Þar á Brúará upptök sín. Í Lambahrauni, sem er hraunskjöldur austan við Hlöðufell, er hellirinn Jörundur. Hann var friðlýstur sem náttúruvætti 1985.
Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1.0. Námsgagnastofnun 1995.
Hlöðufell - ferðaupplýsingar
Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands