Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Hálendi Íslands er stórbrotið og má með sanni segja að fátt jafnist á við að sækja það heim.

Langisjór, Fögrufjöll, Grænifjallgarður
Stöðuvatn innan Vatnajökulsþjóðgarðs suðvestan undir Vatnajökli, rúmlega 20 km langt og 2 km á breidd þar sem breiðast er. Hæð yfir sjó er 670 m, mesta dýpi 73,5 m og flatarmál 25,7 km². Langisjór liggur frá norðaustri til suðvesturs, aðkrepptur af háum fjöllum, Tungnaárfjöllum að norðvestan en Fögrufjöllum að suðaustan. Ganga fjöllin víða með þverhníptum klettahöfðum fram í vatnið sem er allvogskorið. Norðaustan að Langasjó er Vatnajökull en Sveinstindur fyrir suðvesturenda vatnsins. Svo má kalla að allt í kringum Langasjó séu gróðurlaus öræfi og var hann því öllum ókunnur fram á seinni hluta 19. aldar. Þorvaldur Thoroddsen lýsti fyrstur manna Langasjó til hlítar en hann kom þangað fyrst 1889 og aftur 1893 og gaf honum nafnið sem við hann hefur fest. Þá gekk skriðjökull niður í efri enda vatnsins en nú er drjúgur spölur frá jökulröndinni að vatnsendanum. Í Langasjó eru margar eyjar. Landslag er þar allt stórbrotið og fagurt í formum. Afrennsli Langasjávar er um Útfall, rúma 3 km frá innri vatnsenda og fellur það úr vatninu í fossi og síðan fram í Skaftá. Hvergi sér til Langasjávar fyrr en komið er að honum. Útfallið er einnig torfundið. Fannst það fyrst árið 1894 er Fögrufjöll voru smöluð fyrsta sinni. Fært er fjallabílum að Langasjó á sumrin og er þá farið af Fjallabaksvegi nyrðri við Herðubreið. Fagurt útsýni gefst yfir Langasjó frá Sveinstindi.
Hrafntinnusker
Hrafntinnusker við Torfajökul Fjall (1128 m y.s.) við Austur-Reykjadali, austan við Heklu. Þangað má komast langleiðina á bílum og er þá sveigt af Landmannaleið við Sátubarn. Einnig má aka þangað af Fjallabaksvegi syðri við Laufafell. Útsýn er víð og mikil af Hrafntinnuskeri.  Umhverfis fjallið, einkum að vestan, er mikið hverasvæði. Þar eru gufuhverir, marglitir leirhverir og vatnshverir sem sumir eru sígjósandi og sums staðar undir jökli. Myndast þar íshellar stórir og smáir. Litafegurð á þessu svæði er fjölbreytileg.  Austan við Hrafntinnusker er sæluhús Ferðafélags Íslands, á “Laugavegi”, gönguleiðinni milli Landmannalauga og Þórsmerkur, reist 1977. Það rúmar um 20 manns.  HrafntinnuhraunLíparíthraun norðvestan undir Hrafntinnuskeri. Þar eru í rauninni fleiri en eitt hraun, misgömul. Talið er líklegt að yngsta Hrafntinnuhraunið hafi runnið eftir að land byggðist. Í því er stór, hringlaga gígur með lágum börmum en í miðju hans hefur bergkvikan hrúgast saman yfir upprásinni og er það vísir að hraungúl. Í Hrafntinnuhrauni hefur stundum verið tekin hrafntinna til skreytingar húsa, þar á meðal Þjóðleikhússins. Hrafntinnan þarna er mjög margbreytileg. Meðal annars finnst þar holótt og götótt hrafntinna sem líkist svampi í útliti.  Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1995.
Veiði á Landmannaafrétti
Fyrir utan Veiðivötn er að finna fjölmörg önnur stöðuvötn sunnan Tungnaár, en í 12 þeirra eru leigð veiðileyfi sem hægt er að kaupa hjá skálavörðum í Landmannahelli. Um er að ræða vötnin: Blautuver, Dómadalsvatn, Eskihlíðarvatn, Frostastaðavatn, Herbjarnarfellsvatn, Hnausapollur (Bláhylur), Hrafnabjargavatn, Kílingavötn, Lifrafjallavatn, Ljótipollur, Löðmundarvatn og Sauðleysuvatn. Af þessum vötnum eru Ljótipollur og Hnausapollur yngst, það fyrrnefnda frá 1477 og það síðarnefnda frá 871. Flest vatnanna eru afrennslislaus, en þó rennur Helliskvísl úr Löðmundarvatni og Blautuver og Kílingavötn hafa samgang við Tungnaá. Urriði veiðist alfarið í Ljótapolli, Herbjarnarfellsvatni, Lifrarfjallavatni og Dómadalsvatni. Urriði og bleikja veiðast í Blautuverum, Frostastaðavatni og Kílingavötnum en einungis bleikja í öðrum vötnum.
Fimmvörðuháls
Fimmvörðuháls nefnist svæðið milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Leiðin yfir hálsinn frá Skógum yfir í Þórsmörk er ein allra vinsælasta gönguleið landsins, en hún er um 22km löng og hækkun um 1000m. Á hálsinum er skáli ferðafélagsins Útivistar sem er glæsilegur og vandaður. Rétt sunnan við hálsinn er Baldvinsskáli, en hann er í mun verra ásigkomulagi en mikið notaður af göngufólki sem áningarstaður. Leiðin er sérstaklega fögur ef gengið er frá suðri til norðurs enda óvanalega mikið af vatnsföllum í Skógá og útsýn falleg niður í Þórsmörk þegar komið er yfir hálsinn. Jöklarnir ná saman á hálsinum svo gengið er að nokkru leyti í snjó. Ásamt kjarrlendi Þórsmerkur og grösugum heiðunum sunnan til gerir það að verkum að leiðin er mjög fjölbreytt, en getur þó einnig verið varasöm því skjótt skipast veður í lofti í nálægð við jökla. Eldgosið á Fimmvörðuhálsi hófst aðfaranótt 21. mars 2010 og stóð til 12. apríl 2010. Þá bárust fregnir af upphafi eldgoss með tilheyrandi öskufalli í eða við Eyjafjallajökul og komu upplýsingarnar frá Lögreglunni á Hvolsvelli. Gosið var norðarlega í Fimmvörðuhálsi, rétt austan við Eyjafjallajökul. Gos þetta flokkast sem hraungos. Hraunrennslið úr gossprungunni myndaði hæsta hraunfoss í heimi sem rennur niður í gil í grennd við gossprunguna. Hraunfossinn var um 200 metra hár.
Hjálparfoss
Hjálparfoss er tvöfaldur foss neðst í Fossá í Þjórsárdal, rétt áður en hún sameinast Þjórsá. Svæðið umhverfis hann heitir Hjálp og er tiltölulega gróið. Það ber þó merki um stöðugar ásóknir Heklu gömlu í gegnum aldirnar. Blágrýtismyndarnirnar umhverfis fossinn eru fallegur rammi um hvítfyssandi vatnið. Nafnið Hjálp varð til í munni þeirra, sem komu úr erfiðum ferðum yfir Sprengisand og fundu þar snapir fyrir hestana. Landsvirkjun hefur látið græða mikið land í Þjórsárdalnum og ekki sízt vestan Sámstaðamúla.
Þjófafoss
Þjófafoss er í Þjórsá, austan við Merkurhraun. Fossinn dregur nafn sitt af því að þar hafi þjófum áður verið drekkt. Fossinn er einn af aðalfossum Þjórsár, en áin skilur að Rangárvallasýslu og Árnessýslu og er lengsta á landsins. Þjófafoss er sunnan við Búrfell, skammt frá Búrfellsvirkjun og nokkru neðan við Tröllkonuhlaup í Þjórsá. Rennsli Þjófafoss er fremur lítið yfir vetrartímann en nokkru meira yfir sumartímann og stafar það af virkjunum í ánni, en vatninu er að mestu veitt framhjá fossinum. Áin er stífluð við Sultartanga með Sultartangalóni og vatninu fyrst veitt í gegnum Sultartangavirkjun og síðan inn í Bjarnarlón og í gegnum Búrfellsvirkjun. Það er því fyrst og fremst þegar Sultartangalón er orðið fullt síðsumars sem umframvatn er látið renna um Þjófafoss. Með tilkomu Búrfellsvirkjunar 2 hefu vatnsrennsli um Þjófafoss minnka enn frekar, hvort sem er sumar eða vetur.
Veiðivötn
Vatnaklasi á Landmannaafrétti, norðan Tungnaár. Veiðivötn liggja í lægð með norðaustur-suðvesturstefnu milli Snjóöldufjallgarðs að suðaustan og Vatnaöldugígaraðarinnar að norðvestan. Vatnasvæðið er um 5 km breitt og 20 km langt frá norðaustri til suðvesturs. Svæðið er mjög eldbrunnið, þakið gjósku, gígum eða hrauni. Mikið eldgos um 1480 myndaði gígaröð um Veiðivötn og suður að Landmannalaugum. Mörg vatnanna eru gígvötn í gígum sem ná niður í jarðvatnsborðið. Fullyrða má að í þessu gosi hafi Veiðivötn fengið sína núverandi mynd og e.t.v. að um leið hafi hinn forni Stórisjór horfið. Stærstu gígarnir eru myndaðir úr gjósku, þ.e. við gos þar sem vatn hefur haft áhrif á kvikuna. Smærri gígarnir eru úr hraunkleprum og sumir þeirra eru fallegar eldborgir. Þeir eru oft í botni stóru gjóskugíganna og smáhraunbleðill umhverfis.  Segja má að Veiðivötn liggi í tveimur röðum. Helstu vötnin í austari röðinni eru Snjóölduvatn, Ónýtavatn, Grænavatn (13 m djúpt) og Litlisjór. Í vestari röðinni liggja vötnin í gígaröðinni frá 1480. Þau eru fleiri og yfirleitt smærri. Helst þeirra eru Nýjavatn, Breiðavatn, Eskivatn sem er dýpsta vatnið (36 m), Langavatn, Skálavatn, Tjaldvatn og Litla- og Stóra-Fossvatn (18 og 15 m djúp). Fossvatnakvísl fellur úr Litla-Fossvatni. Hún fellur í Vatnakvísl sem er stór lindá er rennur suðvestur með Vatnaöldum til Tungnaár. Mörg vötnin hafa neðanjarðarafrennsli enda er berggrunnurinn mjög sprunginn og lekur. Nyrst og austast eru svo Hraunvötn sem einnig eru gígvötn. Alls eru vötn og pollar á þessu svæði um 50 talsins.  Gróðurvinjar eru við sum vötnin, til dæmis við Litla- og Stóra-Fossvatn, en stærstu gróðurlendin eru þó Kvíslar milli Grænavatns og Ónýtavatns og Breiðaver við Breiðavatn. Gróðurlendi við Veiðivötn er sérlega viðkvæmt og verður að gæta ýtrustu varkárni í allri umgengni þar.  Eins og nafnið bendir til er mikil veiði í Veiðivötnum. Svo var einnig frá fornu fari og nefndust vötnin fyrrum Fiskivötn. Áður veiddist eingöngu urriði en eftir að bleikju var sleppt í vötn annars staðar á vatnasviði Tungnaár hefur hennar orðið vart þar. Veiðivötn teljast til Landmannaafréttar. Nú á dögum er veiðiréttur í höndum Veiðifélagsins á afréttinum og eru almenningi seld veiðileyfi (stöng) yfir sumartímann en handhafar veiðiréttarins stunda þar netaveiðar á haustin. Árið 1880 var gerð tilraun til búskapar við Veiðivötn er Arnbjörn Guðbrandsson af Landi flutti þangað með konu sinni og gerði sér þar bústað en búskapurinn varð skammvinnur (sjá Tjaldvatn).  Fyrrum fóru fáir til Veiðivatna aðrir en “Vatnakarlar” en nú eru þau fjölsótt af ferðamönnum á sumrin. Veiðifélagið á allmörg hús við Tjaldvatn og nágrenni. Gamall veiðimannakofi er þar. Hann er nú friðlýstur.  Fyrstir til að rannsaka Veiðivatnasvæðið og skrifa um það voru Sveinn Pálsson 1793 og Þorvaldur Thoroddsen 1889. Nýlegar rannsóknir sýna meðal annars að þar gaus síðast um 1480. Mikið gjóskulag myndaðist í gosinu og lagði mökkinn aðallega til norðurs og norðausturs. Eru sandauðnir Tungnaáröræfa aðallega klæddar gjósku úr Veiðivatnagosinu, en einnig Vatnaöldugosinu. Hringsjá er á Miðmorgunsöldu norðaustur frá Tjaldvatni.  Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1995.
Langjökull
Langjökull er næststærsti jökull landsins. Aðgengi að jöklinum er með því besta sem gerist, en þó ætti enginn að reyna að aka upp á jökul á eigin vegum. Ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á ferðir þar sem ekið er upp á jökulinn á sérútbúnum bílum og reyndir jöklaleiðsögumenn eru alltaf með í för. Í boði eru ökuferðir, gönguferðir og snjósleðaferðir. 
Þórsmörk
Þórsmörk er einstök náttúruperla norðan Eyjafjallajökuls og vestan Mýrdalsjökuls. Þórsmörk afmarkast af Mýrdalsjökli í austri, Krossá í suðri og Markarfljóti og Þröngá í norðri. Þórsmerkursvæðið er mjög giljótt, kjarri vaxið upp í brekkur og er gróðurfar og landslag mjög fjölbreytilegt. Áður fyrr ráku bændur úr Fljótshlíð og undan Eyjafjöllum fé sitt í Þórsmörk til beitar bæði sumar og vetur og stunduðu þeir einnig skógarhögg á svæðinu.  Í kjölfar Kötlugossins 1918 var Þórsmörk beitarfriðuð og falin Skógrækt ríkisins til umsjónar. Ótalmargir áhugaverðir staðir eru á þessu svæði s.s. Snorraríki, Sóttarhellir, Álfakirkja, Stakkholtsgjá og steinbogi í Stóra-Enda. Ekki er fært í Þórsmörk nema á stórum jeppum eða rútum og hafa skal í huga að litlar sakleysislegar ár, geta breyst í stórfljót á nokkrum klukkutímum. 
Dynkur
Dynkur er foss, um 38 m hár, í Þjórsá, suðaustan undir Kóngsási á Gnúpverjaafrétt. Áin fellur þar fram af mörgum stöllum í smáfossum sem til samans mynda eitt fossakerfi. Eru þar fögur form en mestu skiptir þó að furðulega fagrir og margbreytilegir regnbogar verða til í fossum þessum svo að mest líkist litagosi yfir fossinum þegar sól skín á hann. Holtamenn kalla hann Búðarhálsfoss en Gnúpverjar kalla hann Dynk. Best er að skoða fossin frá eystri bakka Þjórsár og aka þá inn Búðarháls frá brúnni á Tungnaá við Hald.
Lónsöræfi
Upp frá Lóni, austan Vatnajökuls gengur fjallahringur, dalir og öræfi er nefnast Stafafellsfjöll, Lónsöræfi eru nýrra heiti á sama svæði og nær yfir svæðið sem liggur á milli Snæfells og Stafafellsfjalla. Svæðið er þekkt fyrir falleg og litrík fjöll ásamt fjölbreyttum gönguleiðum. Víða eru grónir balar og ekki ólíklegt að menn rekist á hreindýr á ferð sinni um öræfin. Stafafellslandið er stórkostlegt gönguland fyrir þá sem unna fögrum jarðmyndunum.
Mýrdalsjökull og Katla
Jökulhvel (1493 m y.s.) norður af austasta hluta Rangárvallasýslu og vestasta hluta Vestur-Skaftafellssýslu. Mýrdalsjökull er um 595 km². Frá honum teygjast ýmsir skriðjöklar og sá sem gengur lengst niður og liggur syðst er Sólheimajökull en til austurs er Kötlujökull mestur. (Oft ranglega nefndur Höfðabrekkujökull). Undan Mýrdalsjökli falla ýmis meiri háttar jökulvötn, þar á meðal ýmsar þverár Markarfljóts, ennfremur Jökulsá á Sólheimasandi, Múlakvísl og Hólmsá (Leirá). Í Mýrdalsjökli suðaustanverðum eru eldstöðvar Kötlu. Nýjustu rannsóknir þykja benda til að undir jöklinum hafi verið eldkeila sem fallið hefur í sjálfa sig og þá myndast geysimikið ketilsig, um 10 km í þvermál, líkt og Askja í Dyngjufjöllum. Talið er að Katla sé ekki ein gosstöð heldur séu fleiri gosstöðvar, jafnvel sprungur í sigkatlinum og að Kötlugjá sé dýpsta skarðið út úr katlinum.
Hekla
Eldfjallið Hekla er eitt frægasta eldfjall Íslands og það sem gosið hefur einna oftast í seinni tíð. Hekla er 1.491 m.y.s. og sést víðast hvar af á Suðurlandi. Hekla hefur um langt árabil haft viðurnefnið Drottning íslenskra eldfjalla og er fjallið þekkt víða um heim. Mikil hjátrú hefur tengst Heklu og sú frægasta líklega sú að þar væri fordyri helvítis að finna og jafnvel helvíti sjálft. Fyrsta vitneskja af fjallgöngu á Heklu er frá 1750 þegar náttúrufræðingarnir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gengu á fjallið. Nokkuð vinsælt er að ganga á Heklu en mikilvægt er að göngumenn viti af þeirri hættu sem getur myndast ef til eldgoss kemur. Yfirleitt er gengið frá Skjólkvíum. Hekla stendur á jarðskorpu þar sem Suðurlandsbrotabeltið og Suðurlandsgosbeltið mætast og skýrir það að miklu leiti tíð eldgos í fjallinu. En frá því að land byggðist hefur Hekla gosið árin; 1104, 1158, 1206, 1222, 1300, 1341, 1389, 1501, 1597, 1636, 1693, 1766, 1845, 1947, 1970, 1980, 1981, 1991 og 2000. Jarðfræðingar hafa marg ítrekað á undanförnum árum að Hekla sé tilbúin til að gjósa og geti gosið hvenær sem er, en fjallið gefur að jafnaði um klukkutíma fyrirvara á eldgosum.
Landmannalaugar
Landmannalaugar draga nafn sitt af heitri laug sem kemur undan Laugahrauninu. Landmannalaugar hafa verið áningastaður fólks um aldir og þar hafa fjallmenn á Landmannaafrétti hafst við í leitum svo lengi sem heimildir eru til um slíkar ferðir. Frá Landmannalaugum má sjá mörg falleg fjöll; Barm, Bláhnúk, Brennisteinsöldu, Suðurnám og Norðurnám. Mikið er um líparít, hrafntinnu og líparíthraun á svæðinu og eru Landmannalaugar rómaðar fyrir litafegurð og einstaka náttúru. Upphaf einnar vinsælustu gönguleiðar landsins, Laugavegarins, eru í Landmannalaugum og liggur leiðin þaðan um Hrafntinnusker, Álftavatn, Hvanngil, Emstrur og loks í Þórsmörk. Í Landmannalaugum er aðstaða fyrir ferðamenn, sturtur og gisting rekin af Ferðafélagi Íslands, en auk þess er á svæðinu rekin hestaleiga á sumrin og lítið kaffihús. Gjöld:Umhverfisstofnun mun taka upp bókunarkerfi fyrir bílastæði í Landmannalaugum fyrir sumarið 2024. Þá verður nauðsynlegt að bóka bílastæði fyrir komu á svæðið og greiða fyrir það þjónustugjald.  Fyrirkomulagið verður í gildi frá 20. júní til 15. september, alla daga vikunnar. Nánar upplýsingar hér. 
Ljótipollur
Sprengigígur á Landmannaafrétti norðaustur frá Frostastaðavatni. Er gígurinn á eldsprungu þeirri sem mótaði Veiðivötn og hefur orðið til á sögulegum tíma svo sem sprungan öll. Allmikil hæð hefur hlaðist upp kringum gígskálina sem að innan er skreytt rauðum, grænum og dökkum litum en kalt, grænleitt vatn er í botni hennar. Það er 0,43 km² og dýpst 14 m. Greiðfær bílaslóð liggur að Ljótapolli og upp á gígbarminn. Í vatninu er nokkur veiði enda þótt það hafi ætíð verið að- og afrennslislaust. Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1995.
Ófærufoss - Nyrðri Ófæra
Ófærufoss er einstaklega fallegur foss í ánni Nyrðri-Ófæru og fellur í tveimur fossum ofan í Eldgjá. Yfir neðri fossinum var steinbogi til ársins 1993 en hann hrundi þá í ána í vorleysingum en áin fellur um gjána. Af Fjallabaksleið nyrðri er hægt að aka nokkurn spöl inn í Eldgjá og ganga þaðan að Ófærufossi en vegurinn liggur upp á austurbarm Eldgjár. Til að komast þangað þarf að aka Nyrðri-Ófæru á vaði, sem getur verið varasamt. Óhætt er að mæla með göngu upp á Gjátind, þaðan sem útsýni er frábært yfir Eldgjá, til fjalla við Langasjó og Síðuafrétt með Lakagígum. Ófærufoss fellur ofan í Eldgjá á Skaftártunguafrétti. Eldgjá er u.þ.b. 40 km löng gossprunga, breidd hennar er víða um 600 m og dýptin nær allt að 200 m. Þegar hún myndaðist hefur líklega gosið í henni endilangri, sennilega í kringum árið 934.Talið er að gossprungan nái undir Mýrdalsjökul. Úr Eldgjá hafa runnið mikil hraun niður um Landbrot og Meðalland og til sjávar við Alviðruhamra í Álftaveri. Hraunin, sem runnu frá henni, eru talin þekja 700 km² sem er mesta flatarmál hrauns á sögulegum tíma á jörðinni, þ.e. eftir síðustu ísöld. Eldgjá er talin tilheyra sama eldstöðvarkerfi og Katla. Eldgjá er einstakt náttúrufyrirbæri og er á náttúrminjaskrá. Fyrirhugað er að Eldgjá og nærliggjandi svæði verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Nú hafa komið fram kenningar um að afleiðingar þessa goss hafi ekki síður gætt í Evrópu en gossins í Lakagígum. Samkvæmt nýfundnum heimildum urðu á tíma gossins uppskerubrestir, pestir og hörmungar bæði í Evrópu og Miðausturlöndum. Þá eru líkur leiddar að því að þetta gos hafi valdið meira tjóni en Lakagígagosið.
Álftavatn á Rangárvallaafrétti
Í Álftavatni er skálasvæði og þar er bleikjuveiði í vatninu. Stutt er frá Álftavatni í náttúruperlur á borð við Grashaga, Torfafit, Ljósártungur, Jökultungur, Ófæruhöfða, Útigönguhöfða, Hvanngilshnausa, Torfatind, Sátu, Brattháls og Hvanngil.  Álftavatnsskálasvæðið er á Laugaveginum, einni vinsælustu gönguleið landsins frá Landmannalaugum í Þórsmörk.
Vatnajökull
Vatnajökull er stærsti jökull Íslands, sem og stærsti jökull í rúmmáli í allri Evrópu. Vatnajökull þekur tæp 8 prósent Íslands en hann nær yfir 7700 ferkílómetra (2021) og er meðalþykkt hans 400 metrar. Hæsti punktur jökulsins, Hvannadalshnúkur mælist 2,110 metra (6,921 ft). Frá jöklahettu Vatnajökuls liggja um 30 jökultungur sem allar bera heiti; allir jöklar og jökultungur á Íslandi bera heiti sem endar á „jökull“. Vatnajökull er í umsjá Vatnajökulsþjóðgarðs sem einnig nær yfir stórt svæði umhverfis jökulinn. Þjóðgarðurinn hefur upp á margvíslega áhugaverða staði að bjóða og er garðurinn skyldu stopp fyrir hvern þann sem hefur áhuga á jarðfræði og fögru landslagi.  
Landmannahellir
Landmannahellir er áfangastaður á Landmannaafrétti. Þar hefur verið áfangastaður ferðamanna um svæðið til langs tíma og dregur staðurinn nafn sitt af helli sem þar er og var nýttur um aldir fyrir bæði menn og hross. Í dag er þar vinsælt skálasvæði þar sem gönguhópar og hestahópar gista gjarnan á sumrin í ferðum sínum en á staðnum er einnig tjaldstæði. Rekstur svæðisins er í höndum Hellismanna ehf. og á félagið mörg hús á svæðinu, en Veiðifélag Landmannaafréttar á einnig fjallaskála þar sem og einkaaðilar. Þekkt gönguleið, Hellismannaleið, liggur um svæðið og hefur nú verið stikuð frá Rjúpnavöllum um Áfangagil í Landmannahelli og þaðan í Landmannalaugar. Til að komast í Landmannahelli þarf að fara um Dómadalsleið (F225) og eru um 80 km frá Landvegamótum í Landmannahelli.
Friðland að Fjallabaki
Friðland að Fjallabaki var friðlýst árið 1979. Megin einkenni svæðisins eru fjölbreytt landslag og landslagsheildir, mikill breytileiki jarðminja og jarðhitafyrirbæra, sérstakt en viðkvæmt lífríki, víðerni, kyrrð og litadýrð. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda þessar sérstæðu jarðminjar, landslag, lífríki og ósnortin víðerni svæðisins. Friðlandið er 446,24 km2 að stærð og innan þess eru Landmannalaugar þar sem er upphaf margra vinsæla gönguleiða, þar á meðal Laugavegurinn.  Nánari upplýsingar um svæðið má finna á vef Umhverfisstofnunar . 
Gjáin í Þjórsárdal
Austasti dalur Árnessýslu. Liggur hann norðan Gaukshöfða, milli Hagafjalls og Búrfells. Fyrir innan Hagafjall eru Skriðufell og Dímon og innar Heljarkinn og Fossalda fyrir botni dalsins. Inn af Búrfelli er lágur fjallarani og eru á honum Sámsstaðamúli og Skeljafell og Stangarfjall innst. Þjórsárdalur var að mestu leyti samfelld sandauðn. Skógur er við Ásólfsstaði og Skriðufell (Vatnsás, Selhöfðar) og í Búrfellshálsi. Skógrækt ríkisins friðaði land Skriðufells árið 1938 og hefur verið gróðursettur þar víðlendur nýskógur. Í dalnum eru tveir bæir, Ásólfsstaðir og Skriðufell.Í dalnum er hraun og á það upptök sín á Tungnaáröræfum. Sérkennandi fyrir hraunið eru hólarnir (gervigígarnir) í dalbotninum innanverðum. Hefur hraunið komið þar niður farveg Rauðár og runnið yfir mýrlendi eða grunnt vatn.Fjórar ár falla um Þjórsárdal, Fossá, Rauðá, Sandá og Grjótá, en Þjórsá fellur fyrir dalsmynnið, fyrir framan Búrfell og upp að Hagafjalli. Í dalnum eru fossarnir Háifoss (122 m) og Hjálparfoss í Fossá og Gjárfoss í Rauðá.Blómleg byggð var í Þjórsárdal á þjóðveldisöld og var dalurinn þá algróinn. Árið 1939 grófu norrænir fornleifafræðingar upp nokkra af bæjunum í dalnum, þar á meðal á Stöng. Gjóskurannsóknir dr. Sigurðar Þórarinssonar leiddu í ljós að byggðin hafði eyðst í Heklugosinu árið 1104.Á síðari árum hefur dalurinn tekið miklum stakkaskiptum. Árið 1970 tók Búrfellsvirkjun til starfa. Stöðvarhúsið stendur í dalnum suðaustanverðum, undir Sámsstaðamúla. Milli Hjálparfoss og Sámsstaðamúla hefur risið dálítið þorp í tengslum við virkjunina og Landsvirkjun hefur byggt sundlaug við heitar uppsprettur hjá Reykholti. Einnig hefur Landsvirkjun látið sá grasfræi í nágrenni virkjunarinnar til að hefta sandfok og hefur dalurinn breytt mjög um svip af þeim sökum.Þjórsárdalur þykir fagur og sérstæður og er hann fjölsóttur af ferðamönnum. Tjaldstæði eru við Sandá niður undan Ásólfsstöðum.Forn megineldstöð (nálægt tveggja milljón ára gömul) er í innanverðum Þjórsárdal. Finnst súrt berg þar á nokkrum stöðum og mjög mikið ummyndað, grænt móberg, skorið af hallandi berggöngum, er við Fossá, nokkru neðan við Háafoss.Gjáin í ÞjórsárdalSérkennilegt gljúfur í Þjórsárdal innanverðum, skammt frá Stöng, og fellur Rauðá í snotrum fossi niður í það. Heitir hann Gjárfoss. Þjórsá hefur sennilega myndað Gjána í öndverðu, á löngum tíma. Síðar hljóp hún þar oft fram í vatnavöxtum, en til að varna því var gerður stíflugarður úr Sandafelli og suður til Skeljafells. Kvísl úr einu af hinum yngri Tungnaárhraunum hefur fallið fram úr Gjánni og skil
Sólheimajökull
Sólheimajökull er skriðjökull sem skríður frá norðvestanverðum Mýrdalsjökli. Jökullin er mjög næmur fyrir veðurfarsbreytingum og breytist jökulsporðurinn fljótt í kjölfar veðurbreytinga. Frá jöklinum rennur Jökulsá á Sólheimasandi, sem var ein mannskæðasta á landsins á fyrr öldum. Jökullinn er vinsæll viðkomustaður ferðamanna til að skoða fallegt umhverfi hans eða prófa jöklagöngu og ísklifur.  Miklar og örar breytingar hafa orðið á skriðjöklinum síðustu ár og eitt skýrt dæmi um það er hin aukna vegalengd sem stíga þarf til að nálgast jökulsporðinn.  Sólheimajökull hefur lengi verið rannóknarefni jöklafræðinga en jöklarannsóknir geta sagt okkur mikið um loftslag og loftslagsbreytingar í gegnum aldirnar, en jökulsaga Sólheimajökuls er um margt óvanaleg þegar borið er saman við aðra íslenska jökla.  Fyrir rúmum hundrað árum lá jökulsporður Sólheimajökuls töluvert framan við núverandi bílastæðin  
Bláhnúkur í Landmannalaugum
Líparítfjall (943 m y.s.) við Landmannalaugar. Bláhnúkur er litfagur, venjulega með fannarblesu. Talið er að hann hafi orðið til við gos undir jökli. Í honum ber mikið á svörtum, stuðluðum biksteinseitlum og grænum og gráum glersalla. Nafnið gaf Pálmi Hannesson.
Frostastaðavatn
Stöðuvatn á Landmannaafrétti, við Landmannaleið. Að Frostastaðavatni liggja hraun, Dómadalshraun að vestan, Námshraun, líparíthraun með miklum hraunfossi, að sunnan og Frostastaðahraun að norðan. Austan að því liggur Frostastaðaháls.  Gróðurlítið er við vatnið nema helst að norðan. Í því er lítill, mosagróinnn hólmi. Sögn hermir að bær hafi verið hér fyrrum og heitið Frostastaðir. Sagt er að fólkið þar hafi dáið af öfuguggaáti. Lagðist byggðin niður og veiði hvarf úr vatninu. Önnur sögn hermir að veiði hafi horfið úr Frostastaðavatni vegna þess að stúlka nokkur, sem þjónaði veiðimönnum, náði í loðsilung og gaf hann að eta einum mannanna, sem hún lagði hug á en sem ekki vildi þýðast hana.
Háifoss og Granni
Háifoss í Fossá í Þjórsárdal er staðsettur nálægt eldfjallinu Heklu. Hann er 122 m hár og er þriðji hæsti foss landsins. Lengi vel var fossinn nafnlaus, en árið 1912 tók Dr. Helgi Pétursson jarðfræðingur sig til og nefndi hann.  Rétt austan Háafoss er annar foss, litlu lægri, Granni. Léttasta leiðin að fossinum er frá línuveginum milli Tungufells og Sandafells. Þaðan þarf aðeins að ganga stuttan spöl niður í mót, en fara verður gætilega á brúnum gilsins. Einnig er hægt að ganga inn Fossárdalinn, þar er merkt gönguleið frá Stöng og upp að Háafossi, með fram Fossá. Gönguleiðin er vinsæl bæði sem gönguleið og hjólaleið og hægt að gera hring með því að fara svo frá Háafossi og um Gjánna líka. Frá Stöng og að Háafossi eru um 6 km. ganga.
Fagrifoss
Fagrifoss í Geirlandsá er tilkomumikill foss og ber hann nafn með rentu. Hann er á leiðinni í Laka, en aka þarf yfir vöð á leiðinni sem geta verið erfið litlum bílum og árnar geta auk þess orðið skyndilega ófærar í vatnavöxtum.  Útsýni að fossinum er best austan megin við fossinn en ganga þarf lítinn spöl til að fá stórkostlega sýn að fossinum.   
Eldgjá
Eldgjá er u.þ.b. 70 km löng gossprunga, breidd hennar er víða um 600 m og dýptin allt að 200 m. Síðast gaus á henni skömmu eftir landnám, í kringum árið 934. Talið að gossprungan nái innundir Mýrdalsjökul og austur á móts við Lambavatn skammt vestan við Laka. Úr Eldgjá hafa runnið mikil hraun niður um Landbrot og Meðalland og til sjávar við Alviðruhamra í Álftaveri. Hraunin eru talin þekja 800 km² og er það mesta flatarmál hrauns á sögulegum tíma á jörðinni, þ.e. eftir síðustu ísöld.  Ófærufoss er einstaklega fallegur foss í ánni Nyrðri-Ófæru og fellur í tveimur fossum ofan í Eldgjá. Yfir neðri fossinum var steinbogi til ársins 1993 en hann hrundi þá í ána í vorleysingum en áin fellur um gjána. Eldgjá er innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Yfir sumarið bjóða landverðir upp á fræðslugöngur á svæðinu. Upplýsingar um göngurnar má finna á vefsíðu þjóðgarðsins, á samfélagsmiðlum og í gestastofum. Vegir að Eldgjá eru fjallvegir sem aðeins eru færir fjórhjóladrifnum bílum og sumir aðeins breyttum jeppum. Víða er lausamöl og grýttir eða holóttir kaflar og sums staðar þarf að fara yfir dragár eða jafnvel jökulár sem geta vaxið fyrirvaralítið og orðið varhugaverðar eða ófærar. Svæðið er opið ferðamönnum allan ársins hring en það ræðst af snjóalögum og veðurfari hversu lengi vegir eru opnir. Venjulega eru þeir opnir upp úr miðjum júní og eitthvað fram eftir hausti. Aðeins má aka þá vegi sem merktir eru á kortum þjóðgarðsins, aðrir vegir og slóðar á svæðinu eru lokaðir fyrir almennum akstri. Hér sem annars staðar er stranglega bannað að aka utan vega.
Kerlingarfjöll
Stórbrotinn og svipfagur fjallaklasi, um 150 km², suðvestan undir Hofsjökli. Draga þau nafn af drang einum miklum og dökkum, úr móbergi, um 25 m háum, sem Kerling heitir og stendur upp úr ljósri líparítskriðu sunnan í Tindi (Kerlingartindi) í vestanverðum fjöllunum. Björn Gunnlaugsson kallar Kerlingarfjöll Illviðrahnjúka en það nafn er nú gleymt, hafi það nokkurn tíma orðið fast við þau. Tindar Kerlingarfjalla eru um 800-1500 m y.s. og rísa furðubrattir upp af 600-700 m hásléttu. Fjöllin eru mjög mótuð af sprungum og meginstefna þeirra er frá norðaustri til suðvesturs en í þeim norðanverðum er þó þver sprungustefna, frá suðaustri til norðvesturs. Kalla má að Kerlingarfjöllum sé deilt í tvennt af Hveradölum sem ganga inn í fjöllin frá vestri. Norðaustan við Hveradali heita Austurfjöll. Þau eru hæsti og hrikalegasti hluti Kerlingarfjalla og þar eru hæstu tindar þeirra, Snækollur (1482 m y.s.) og Loðmundur (1429 m y.s.). Kerlingarfjöll eru að langmestu leyti úr líparíti, ljósbrúnu að lit, en randfjöll þeirra úr móbergi. Víða er hrafntinna. Talið er að þau hafi orðið til á síðari hluta ísaldar. Jarðhiti er geysimikill í Kerlingarfjöllum, mestur í Hveradölum en einnig er jarðhiti í austanverðum Botnafjöllum og í Hverabotni suðaustan undir Mæni. Jöklar eru allmargir í skörðum og slökkum í um 1150-1300 m hæð en skriðjöklar ganga niður undir 800 m hæð. Fara jöklar þessir minnkandi sem annars staðar. Alls eru jöklarnir um 8 km². Samfelldur gróður er sáralítill í Kerlingarfjöllum nema smáblettir í Innra- og Fremra-Árskarði og Kisubotnum. Meira að segja eru jarðhitasvæðin gróðurlaus að heita má en þó er lítils háttar gróður, sefbrúða og dúnurtir, í dýjavolgrum. Þorvaldur Thoroddsen kannaði Kerlingarfjöll fyrstur manna og gaf þar ýmis nöfn, til dæmis nafnið Ögmund eftir Ögmundi Sigurðssyni, fylgdarmanni sínum. Frá árinu 1961 var skíðaskóli starfræktur í Árskarði í Kerlingarfjöllum, en nú ferðaþjónusta.
Lakagígar og Laki
Gígaröð á Síðumannaafrétti, um 25 km á lengd. Liggur hún frá móbergsfjallinu Hnútu til norðausturs og endar uppi í Vatnajökli. Gígaröðin dregur nafn af móbergsfjallinu Laka sem slítur hana sundur nálægt miðju. Svæðið er innan Vatnajökulsþjóðgarðs og opið ferðamönnum allan ársins hring en það ræðst af snjóalögum og veðurfari hversu lengi vegir eru opnir. Venjulega eru þeir opnir upp úr miðjum júní og eitthvað fram eftir hausti. Aðeins má aka þá vegi sem merktir eru á kortum þjóðgarðsins, aðrir vegir og slóðar á svæðinu eru lokaðir fyrir almennum akstri. Hér sem annars staðar er stranglega bannað að aka utan vega. Yfir sumarið bjóða landverðir upp á fræðslugöngur á svæðinu. Upplýsingar um göngurnar má finna á vefsíðu þjóðgarðsins, á samfélagsmiðlum og í gestastofum. Lakagígar gusu árið 1783 hinu mesta hraungosi er sögur fara af á jörðinni. Kallaðist það Síðueldur eða Skaftáreldar. Gosið hófst hinn 8. júní. Gaus fyrst úr suðurhluta sprungunnar, sunnan Laka, þar sem hét Varmárdalur. Var hann þá algróinn. Varmárdalur er nú fullur af hrauni. Hraunflóðið féll niður gljúfur Skaftár og fyllti það en rann síðan austur með Síðuheiðum og breiddist svo út á láglendinu. Annar hraunstraumur féll austur í farveg Hverfisfljóts og rann niður í Fljótshverfi. Gígaröðin við Hnútu er í um 500 m hæð y.s. en um 650 m hæð y.s. nyrst. Alls eru gígaopin talin vera um 100. Gígarnir eru af margvíslegri gerð og lögun. Sumir eru þeir kringlóttir, aðrir aflangir, stundum meira eða minna brotnir. Í barmi flestra þeirra er skarð sem hraunið hefur runnið út úr. Víða standa gígarnir svo þétt að hver grípur í annan en annars staðar verður alllangur spölur milli þeirra. Lakagígar eru það sem kallað er gjallgígaröð. Efni gíganna er svart og rautt gjall eða þeir eru úr hraunkleprum eða jafnvel eldborgir úr samfelldri hraunsteypu. Stærð þeirra er einnig misjöfn. Hinir hæstu eru um 100 m háir en langflestir milli 20 og 50 m en nokkrir þó enn lægri. Nú eru flestir þeirra að meira eða minna leyti þaktir þykkri breiðu af grámosa og hinir fegurstu tilsýndar. Ganga ber um þá með gætni því að mosinn er afar viðkvæmur. Lakagígar eru, hvernig sem á þá er litið, ein stórfelldasta furðusmíð í náttúru landsins. Þeir voru friðlýstir árið 1971. Margir vísindamenn hafa kannað Lakagíga. Fyrstur á þessar slóðir varð Magnús Stephensen konferensráð, árið 1784. Samdi hann hina fyrstu ritgerð um gosið og ferð sína til eldstöðvanna. Næstur var Sveinn Pálsson læknir árið 1794 og gerði hann fyrstu nákvæmu lýsinguna af hluta eldstöðvanna og umhverfi þeirra. LakiKollóttur móbergshnjúkur (818 m y.s.) á Síðumannaafrétti. Laki liggur í gígaröðinni miklu sem við hann er kennd. Eldsprungan gengur gegnum fjallið og sér hennar greinileg merki. Auk aðalsprungunnar eru þar smásprungur er lítils háttar hraunspýjur hafa fallið frá. Af Laka er gott að glöggva sig á allri gígaröðinni bæði norður og suður svo og á landslagi afréttarins. 
Höfðabrekkuheiði, Þakgil
Höfðabrekka er austasti bær vestan Mýrdalssands. Höfðabrekka er gamalt höfðuból, kirkjustaður og stórbýli til forna. Í Kötluhlaupi árið 1660 tók bæinn af og var hann þá fluttur upp á heiðina og var hann ekki fluttur niður aftur fyrr en 1964. Vegfarendur sem eru á ferð um Mýrdalshrepp ættu ekki að láta það fara framhjá sér að aka inn Höfðabrekkuheiðar. Þetta var þjóðleiðin austur að Mýrdalssandi í um það bil 20 ár, þangað til Jónsmessuhlaupið í Múlakvísl árið 1955 rauf hana.  
Hungurfit á Rangárvallaafrétti
Í Hungurfiti hefur verið skálaaðstaða frá árinu 1963 þegar þar var byggður fjallskáli sem var veruleg bót fyrir fjallmenn sem áður höfðu gist í tjöldum. Það hús tekur um 20 manns í gistingu. Árið 2013 var nýtt skálahús tekið í notkun á Hungurfitjum og það hús tekur 50 manns og er einn af nútímalegustu fjallaskálum á Íslandi, með rennandi vatni, vatnssalerni og rafmagni. Á Hungurfitjum er einstök náttúrufegurð og hentar svæðið jafnt fyrir göngufólk, jeppafólk og hestamenn, en þaðan eru góðar reiðleiðir hvort sem er inn Rangárbotna, áfram inn á Sultarfit, inn með Faxa og yfir í Hvanngil eða niður á Fljótshlíðarafrétt. Þá er góð dagleið á hrossum frá Hungurfit niður að Fossi á Rangárvöllum. Upptök Hvítmögu eru á Hungurfitjum og er hvorttveggja í senn afar fallegt að ríða niður með Hvítmögu eða fara þar gangandi. Ofan við fjallaskálana eru Skyggnishlíðar og liggja þar inn að fjallinu Skyggni. Vinsælt er að ganga þar upp og inn Skyggnishlíðar, en þaðan er einstakt útsýni á góðum degi. Þá er ekki síður fallegt að ganga eða ríða inn á Sultarfit, inn í Gimbragil og Hrútagil eða inn í Jökulskarð.
Dyrhólaey
Dyrhólaey er friðland. Á friðlýstum svæðum þarf að gæta að verndun samhliða því að tryggja almannarétt. Sum svæði eru lokuð hluta úr ári til verndunar dýralífi, önnur eru lokuð allt árið vegna viðkvæmra náttúruminja, umferð um sum svæði er takmörkuð þannig að fólk þarf að tilkynna sig inn á svæði og enn önnur opin allt árið um kring. Ítarlegri upplýsingar um DyrhólaeyHöfði (um 110 m y.s.) með þverhníptu standbergi í sjó fram, en aflíðandi brekka er landmegin. Suður úr Dyrhólaey gengur mjór klettatangi, Tóin. Gegnum hana er gat og geta bátar siglt gegnum það þegar sjór er ládauður. Lítilli flugvél hefur verið flogið í gegnum gatið.  Af Dyrhólaey er mikil útsýn. Vesturhluti hennar, Háey, er úr móbergi en austurhlutinn úr grágrýti. Talið er að Dyrhólaey hafi myndast á hlýskeiði seint á ísöld við gos í sjó og hafi gosið hagað sér líkt og Surtseyjargosið. Viti var reistur á höfðanum 1910 en endurbyggður 1927. Dyrhólaey var friðlýst 1978.  Útræði var áður frá Dyrhólaey en er löngu aflagt. Komið hefur til orða að gera höfn við Dyrhólaey og hafa verið gerðar þar frumrannsóknir. Norðan og austan við eyna er allstórt lón, Dyrhólaós, útfall gegnum Eiði er austan við eyjarhornið. Þegar útfallið teppist, sem stundum verður í stórbrimum, flæðir vatn yfir engjar og þarf þá stundum að moka ósinn út.  Í sjónum úti fyrir Dyrhólaey eru nokkrir klettadrangar, Dyrhóladrangar. Bæði þar og í Dyrhólaeyjarbjargi er mikið af fugli og mikið varp. Hæstur þessara dranga er Háidrangur (56 m y.s.). Hjalti Jónsson kleif hann árið 1893 og þótti sýna við það mikla dirfsku og fræknleik. Dyrhólaey er gjarnan nefnd Portland af sjómönnum og breskir togarasjómenn nefndu hana Blow Hole. Byggðin norðvestur af Dyrhólaey nefnist Dyrhólahverfi.
Eyjafjallajökull
Eyjafjallajökull er í röð hærri jökla landsins (1651 m y.s.). Eyjafjallajökull er eldkeila, gerð úr hraun- og gosmalarlögum á víxl og liggur norður af Eyjafjöllum. Fjalllendið eða eldkeilan, sem Eyjafjallajökull hvílir á, hefur verið að hlaðast upp frá miðri ísöld og fram á nútíma. Í toppi keilunnar er sigketill, 3-4 km í þvermál. Raðast hæstu tindar fjallsins á barma ketilsins sem opinn er til norðurs og þar flæðir Gígjökull fram úr katlinum allt niður á láglendi í dal Markarfljóts. Hæsti tindurinn er nefndur Hámundur. Goðasteinn heitir klettur á skálarbarminum sunnanverðum. Eyjafjallajökull er um 100 km² og því sjötti stærsti jökull hér á landi. Tveir skriðjöklar falla úr Eyjafjallajökli að norðanverðu, niður á jafnsléttu. Er hinn fremri (vestari) Gígjökull eða Falljökull en hinn innri nefnist Steinsholtsjökull. Lón eru við jökulsporðana og heitir Jökullón við Gígjökul en Steinsholtslón við Steinsholtsjökul. Eyjafjallajökull gaus 1821-1823. Þá braust flóð fram undan skriðjökli úr norðanverðum jöklinum. Það stóð aðeins yfir í þrjár klukkustundir en var ægilegt meðan á því stóð. Flæddi það yfir allt láglendi hlíða á milli þannig að hvergi örlaði á steini milli Eyjafjalla og Fljótshlíðar. Um miðjan janúar 1967 hrundi samfelld bergspilda úr austurhlið Innstahauss í Steinsholti niður á Steinsholtsjökul. Bergspildan var um 15 milljónir m³ og mesta hæð brotstálsi.Megineldstöðin Eyjafjallajökull hefur verið tiltölulega virk á nútíma eða síðustu 8000 ár. Síðast gaus í eldstöðinni árið 2010 en þá mynduðust u.þ.b. 0,27 km3 af gjósku og 0,023 km3 af hrauni. Eyjafjallajökull er 1651 m hár og er hann á Austurgosbeltinu og telst megineldstöðin vera sjálfstætt eldstöðvakerfi. Efst í fjallinu er 2,5 km breið, ísfyllt askja. Efri hluti megineldstöðvarinnar er að mestu hulin jökli sem er allt að 200 m þykkur.  Gosmökkurinn í gosinu 2010 var úr svo fíngerðri ösku, að hann gat haft slæm áhrif á þotuhreyfla og var flugleiðum og flugvöllum um stóran hluta Evrópu lokað í um vikutíma uppúr miðjum apríl. Þó var flogið frá Keflavík til Ameríku á þessum tíma. Þetta voru mestu takmarkanir á flugi í heiminum frá seinna stríði.