LTG European Awards 2018: Outdoor activity destination of the year: South Iceland
Vestfirðir Vesturland Norðurland Austurland Suðurland Reykjanes Höfuðborgarsvæðið
Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Uppbygging þéttbýlis á Suðurlandi

uppbygging-thettbylis.jpg
Uppbygging þéttbýlis á Suðurlandi

Höfuðstaðurinn Skálholt

Skálholt varð biskupsetur árið 1056 og varð uppfrá því höfuðstaður landsins, má segja að er frá leið hafi það deilt þeirri upphefð með Bessastöðum. Reykjavík hlaut kaupstaðarréttindi 1786, en grunnur að bæjarmyndun þar var lögð með innréttingunum kringum 1750. Þá tóku stjórnarstofnanir að safnast saman í Reykjavík. Eftir mikla jarðskjálfta á Suðurlandi árið 1784 voru biskupsstóll og latínuskóli í Skálholti lagðir niður og fluttir til Reykjavíkur nokkrum árum síðar.

Önnur þéttbýlismyndun

Á miðöldum, þegar Skálholt var höfuðstaður landsins, var Eyrarbakki aðalhöfn þess. En það varð bið á þéttbýlismyndun á Eyrarbakka, sem og annars staðar á Íslandi, þar til á 19. öld. Blómatími Eyrarbakka var frá miðri 19. öld og á fyrstu áratugum 20. aldar. Eyrarbakki var einn stærsti bær á Íslandi og var mun stærri en Reykjavík og leit um tíma út fyrir að Eyrarbakki yrði höfuðborgin.

Á svipuðum tíma byggðust upp þéttbýli á Stokkseyri og stuttu síðar í Vík í Mýrdal og Höfn á Hornafirði, með uppruna í Papósi og uppúr miðri öldinni svo í Þorlákshöfn. Árni Óla kallaði Þykkvabæ þúsund ára sveitaþorp og er það sennilega eitt elsta þéttbýli landsins. Vestmannaeyjar fengu kaupstaðarréttindi um leið og Reykjavík, 1786.

Þéttbýli

Á Suðurlandi eru allmargir þéttbýlisstaðir. Selfoss er þeirra stærstur og þar má finna ýmsar verslanir, þjónustu og marga veitinga- og skyndibitastaði. Aðrir þéttbýlisstaðir á Suðurlandi eru Hveragerði, sem oft hefur verið nefnt blómabærinn, vegna þeirrar ylræktar sem þar hefur verið stunduð um árabil. Í Hveragerði er garðyrkjudeild Landbúnaðarháskóla Íslands og í miðju bæjarins er jarðhitasvæðið Hveragarðurinn. Í Hveragerði er jafnframt að finna jarðskjálftasýningu með jarðskjálftahermi. Stokkseyri og Eyrarbakki eru lítil þorp við sjávarsíðuna skammt frá Selfossi. Eyrarbakki var mikill verslunarstaður á árum áður og þar eru mörg gömul og falleg hús sem setja skemmtilegan svip á bæinn. Á Stokkeyri eru bæði álfa- og tröllasafn og draugasafn, þar sem hægt er að láta hræða úr sér líftóruna. Þorlákshöfn er vaxandi hafnarbær. Þar er nýleg sundlaug með sérlega góðri aðstöðu fyrir yngstu kynslóðina. Flúðir, Reykholt, Laugarvatn eru þéttbýliskjarnar sem tilheyra uppsveitum Suðurlands. Á Flúðum og í Reykholti er mikið um ylrækt og á Flúðum er stærsta svepparæktun landsins. Á Laugarvatni er Laugarvatn Fontana, sem er heilsulind með náttúrulegum gufuböðum. Þjóðvegur eitt liggur gegnum bæina Hellu og Hvolsvöll þar er ýmis þjónusta í boði og margt áhugavert að sjá. Frá Hvolsvelli er meðal annars boðið upp á ferðir um Njáluslóðir, en Njála er ein allra vinsælasta Íslendingasagan. Á Skógum er örsmár þéttbýliskjarni, en þar er afar glæsilegt minjasafn sem er vel þess virði að heimsækja, að ógleymdum Skógafossi. Vík í Mýrdal er sérlega fallegt bæjarstæði, með svartar sandstrendur og hina þekktu Reynisdranga, sem setja mikinn svip á strandlengjuna og bæinn. Þar er einnig upplýsingamiðstöð ferðamála og rannsókna- og fræðamiðstöðin Kötlusetur. Kirkjubæjarklaustur er sögufrægur staður og í nágrenninu eru fjölmargar náttúruperlur. Á Höfn í Hornafirði, sem stundum er nefnd humarbærinn, er margvísleg þjónusta og allmargir veitingastaðir.

Suðurland

Þéttbýliskjarnar

Á Suðurlandi eru allmargir þéttbýlisstaðir, hver með sínu sniði og sjarma og allir bjóða upp á einhverskonar afþreyingu. Selfoss er þeirra stærstur og þar má finna ýmsar verslanir, þjónustu og marga veitinga- og skyndibitastaði. Flestir bæir eru í alfaraleið og því bæði hentugt og skemmtilegt að eiga þar viðdvöl.

Skoða meira

Map Höfn Kirkjubæjarklaustur Vík Vestmannaeyjar Hvolsvöllur Flúðir Laugarvatn Reykholt Laugarás Borg Brautarholt Hveragerði Árnes Selfoss Hella Stokkseyri Eyrarbakki Þykkvibær Þórlákshöfn