Flýtilyklar
Listamenn frá Suðurlandi

Listamenn frá Suðurlandi
Margir þjóðþekktir listamenn eiga uppruna sinn á Suðurlandi. Meðal þeirra þekktustu má nefna Jóhannes S. Kjarval listmálara, hann fæddist á Efri-Ey í Meðallandi, Þórbergur Þórðarson rithöfundur, fæddist á Hala í Suðursveit, Páll Ísólfsson tónskáld og dómorganisti, fæddist í Símonarhúsum á Stokkseyri, Ásgrímur Jónsson listmálari fæddist á Rútsstöðum í Flóa, Sigurjón Ólafsson myndhöggvari, fæddist á Eyrarbakka, Einar Jónsson myndhöggvari, fæddist á Galtafelli í Hrunamannahreppi og Júlíana Sveinsdóttir listmálari, fæddist í Vestmannaeyjum. Myndlistarmaðurinn Erró, Guðmundur Guðmundsson, ólst upp á Kirkjubæjarklaustri.
Listamannabærinn Hveragerði
Þegar Hveragerðisbær var í uppbyggingu, var hann vinsæll meðal rithöfunda, tónskálda, listmálara og annarra listamanna. Þar bjuggu meðal annarra rithöfundarnir Gunnar Benediktsson, Helgi Sveinsson, Jóhannes úr Kötlum, Kristján frá Djúpalæk, Kristmann Guðmundsson og Valdís Halldórsdóttir, myndlistarmennirnir Gunnlaugur Scheving, Ríkarður Jónsson, Höskuldur Björnsson og Kristinn Pétursson og tónskáldið Ingunn Bjarnadóttir.
Listamennirnir settust flestir að við þrjár götur vestarlega í þorpinu eins og það var á þeim tíma: við Laufskóga sem var gata tónskáldanna, Frumskóga þar sem skáldin bjuggu og Bláskóga þar sem myndlistarmenn fundu sér samastað. Finna má fræðslu um þessa listamenn á þeim slóðum þar sem þeir bjuggu, sem og í Lystigarði bæjarins.