LTG European Awards 2018: Outdoor activity destination of the year: South Iceland
Vestfirðir Vesturland Norðurland Austurland Suðurland Reykjanes Höfuðborgarsvæðið
Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Saga og menning

culture-and-people_litil.jpg
Saga og menning

Það er ekki hægt að segja annað en að á Suðurlandi ríki gróskumikið menningarlíf. Ýmis konar listsýningar eru settar upp árið um kring og þá er gríðarlega mikið um tónleika af öllum stærðum og gerðum sem óma um allar sveitir. Áhugaleikfélög eru í flestum þéttbýliskjörnum sem eru iðin við að setja upp sýningar. Kórastarf er afar vinsælt á Íslandi og ótrúlega hátt hlutfall landsmanna annaðhvort í kór eða hefur að minnsta kosti verið það. Þá eru einnig starfrækt þjóðdansafélög, spilaklúbbar, hópar fólks sem kemur saman og kveður rímur og ljóð að ógleymdu starfi bókasafnanna, sem eru iðin við að sinna hverskonar menningarstarfi.

Söfn

Á Íslandi eru allskonar söfn. Flest þeirra eru nokkuð hefðbundin og má þar nefna bóka- lista- og minjasöfn, önnur eru óhefðbundnari og eru tileinkuð draugum og ýmsu öðru forvitnilegu.

Sýningar

Það er enginn skortur á hverskonar sýningum vítt og breitt um landið og þær eru tileinkaðar öllu frá leikföngum  upp í jarðskjálfta og eldgos. Listsýningar eru líka fjölbreytilegar og þær má finna á ýmsum vettvangi.

Setur og menningarhús

Víða um land eru menningarmiðstöðvar, þar sem ýmsir listviðburðir og fræðsla fyrir alla aldurshópa, fara fram.

Gestastofur

Við flestar stærri og vinsælli náttúruperlur Íslands eru gestastofur, þar sem hægt er að nálgast upplýsingar og versla minjagripi. Gestastofur eru einnig við ýmis söfn og menningarsetur. 

Handverk og hönnun

Heilmikil gróska er í hverskonar handverki og hönnun um allt land. Úrvalið er afar margbreytilegt og óhætt að segja að sköpunargleði landsmanna sé óþrjótandi. Einstakt handverk og hönnunarvöru má nálgast með ýmsum hætti, meðal annars gegnum handverksmarkaði, sérverslanir eða gegnum vefsíður listamanna.

Menningarkort Suðurlands

Landshlutinn hefur margt að bjóða hvað varðar menningu, sögu og listir. Á hinum fjölmörgu söfnum á svæðinu er að finna fróðleik um eldfjöll, jökla og náttúru, bókmenntir og skáld, sjósókn og lífríkið í sjónum, veiði, skák, steina, mosa að viðbættri fjölbreyttri sögu ýmissa þorpa og bæja á Suðurlandi. Kynntu þér virkjun og nýtingu varma og hvernig er að búa á hverasvæði. Skoðaðu myndlist, trélist og íslenska byggingalist eða kíktu inn hjá síðustu hellisbúunum á Suðurlandi.  

Á Menningarkorti Suðurlands má sjá yfirlitsmynd af Suðurlandi og gagnlegar upplýsingar um ýmis söfn, setur og sýningar á svæðinu.

 

Íslenski hesturinn

Margir eru hrifnir af íslenska hestinum og ekki er óþekkt að fólk hafi komið til landsins í þeim megintilgangi að kynnast honum betur. Sumt fólk á aldrei afturkvæmt, slíkt er aðdráttarafl íslenska hestins, en hann fluttist hingað með landnámsmönnunum. Síðan þá hefur engum hrossum verið hleypt inn í landið og íslenski hesturinn því með því íslenskara sem fyrirfinnst. Það sem íslenski hesturinn er einna þekktastur fyrir, er fjölhæfni í gangtegundum, en hann hefur fimm mismundi gangtegundir. Hann þykir einnig geðgóður og harðgerður. Á árum áður tók hesturinn virkan þátt í bústörfum landans og var í raun ómissandi. Í dag er hann frekar áhugamál, en mörgum þykir hann enn ómissandi. 

Íslendingasögur á Suðurlandi

Íslendingasögur sem gerast á Suðurlandi

Njáls saga

Það gerast ekki margar íslendingasögur á Suðurlandi, en ein frægasta sagan, ef ekki sú frægasta, og örugglega sú lengsta, er sunnlensk og eru fjölmargir staðir á Suðurlandi öllu nefndir til sögunnar í henni. Þetta er að sjálfsögðu Njála eða Brennu-Njáls saga, kennd við höfðingjann Njál Þorgeirsson á Bergþórshvoli í Landeyjum. Sagan gerist á árunum 950-1020 og segir frá ástum, örlögum, baráttu og hefndum. Sögupersónur Njálu eru fjölmargar og mannlýsingar þykja sérlega glöggar.

Sögusetur

Á Hvolsvelli er Sögusetrið sem að mestum hluta er tileinkað Brennu-Njálssögu og er það við hæfi, þar sem sögusvið þessarar þekktu Íslendingasögu er að mestu leyti í Rangárþingi. Í Sögusetrinu getur þú skoðað sýningu um Njálu, Gallerý Orm, Kaupfélagssafn, og svo nýjasta hluta setursins sem er Refilstofan. Þar er til sýnis 90 m langur refill, Njálurefill, eins konar saumuð myndasaga, byggð á söguefni Njálu. 

Aðrar sögur

Flóamannasaga hefst í Noregi nærri landnámi og heldur síðan áfram með persónum og landnámsmönnum í Flóanum og sérstaklega á Stokkseyri og í Gaulverjabæ. Hún er þekkt fyrir ítarlega lýsingu á ferð aðalpersónunnar, Þorsteins Örrabeinsstjúps til Grænlands. Gunnars saga Keldugnúpsfífls er kennd við Keldunúp á Síðu og gerist hluti hennar á Síðunni. Harðar saga og Hólmverja gerist að einhverju leyti í Grafningi.  Grettis saga teygir anga sína til Suðurlands, þó hún gerist að mestu norðanlands og vestan. Grettir fór huldu höfði í Þórisdal milli Þórisjökuls og Langjökuls í einhver ár.

Íslenski torfbærinn

Íslenski torfbærinn

Langhús

Elsta gerð híbýla hér á landi er svokallað langhús, sem hafði einar eða tvennar dyr nærri gafli á framhlið. Á 11. öld stækkuðu húsin og urðu aðalhúsin þá þrjú; skáli eða eldhús, stofa og búr og var aðeins gengt úr skálanum í önnur hús. Árið 1939 fundust leifar um þennan stíl á Stöng í Þjórsárdal. Bærinn lagðist í eyði í Heklugosi árið 1104. Þar bjó kappinn Gaukur Trandilsson. Í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar, sem haldið var uppá árið 1974, var reistur þjóðveldisbær í Þjórsárdal, með Stöng sem fyrirmynd.

Hinn hefðbundni torfbær

Hinn íslenski torfbær eða gangnabær þróaðist út frá langhúsunum á 14. öld. Eins og nafnið gefur til kynna þá er torf meginefni bygginganna. Timbur var notað í grindina og klæðningu innanhúss en torf var notað til að mynda veggi og þak. Stundum voru steinar notaðir ásamt torfinu í veggi og steinskífur voru stundum nýttar undir þakið. Á síðari hluta 18. aldar varð til nýr stíll torfbæja, burstabærinn, sem hafði það einkenni að gaflar bæjarhúsanna sneru fram að hlaði.

Byggingarefni

Hinn íslenski torfbær þróaðist út frá langhúsunum, Norður-Evrópskri byggingarhefð, sem fylgdi landnemunum er þeir námu hér land. Moldin var í raun aðalbyggingarefnið, hvort heldur um var að ræða torf- eða steinveggi. Moldinni var troðið þétt milli steins og torfs og gegndi því bæði hlutverki sem burðarás og einangrunarefni. Þessi húsgerð var ekki endingargóð og þurfti oft að endurbyggja bæina.

Torfbæir á Suðurlandi

Nokkrir vel varðveittir torfbæir og tvær torfkirkjur eru þekkt af Suðurlandi. Austur-Meðalholt í Flóa er eitt þeirra. Keldur á Rangárvöllum og torfbær á Skógasafni eru um miðbik landshlutans. Selið í Skaftafelli og guðshúsin tvö, Bænahúsið á Núpsstað og kirkjan á Hofi í Öræfum, eru öll í Skaftafellssýslum. Flest þessara húsa eru í umsjá Þjóðminjasafnsins eða annarra safna. Víða standa útihús í misgóðu ástandi, gerð úr torfi og grjóti, sum enn í notkun. Svonefnd tilgátuhús hafa verið byggð bæði í Skálholti og Herjólfsdal í Vestmannaeyjum.

Sjósókn á Suðurlandi

Sjósókn á sandi

Suðurströndin er svo gott sem hafnlaus; lélegar hafnir eru á Eyrarbakka og Stokkseyri og síðan er hafnleysi austur að Höfn í Hornafirði. Ekki má samt gleyma Vestmannaeyjum, þar er góð höfn í Heimaey og hafa Eyjar um aldir verið helsti útgerðarstaðurinn á Suðurlandi. Útræði hefur og lengi verið frá Þorlákshöfn.

Á umliðnum öldum hefur þessi hafnlausa strönd orðið hinsti hvílustaður margra skipa, bæði útlendra og innlendra. Ferjuhöfn til að sinna Eyjasiglingum var vígð á Landeyjasandi árið 2010. Vegna staðsetningar hennar koma reglulega upp vandamál vegna sandburðar inn í höfnina. Í byrjun mátti rekja stóran hluta sandburðarins til aukins framburðar úr Markarfljóti vegna Eyjafjallajökulsgossins sama ár og höfnin var vígð.

Á opnum árabátum við brimasama strönd

Áður fyrr var mikið útræði á Suðurströndinni á opnum árabátum, sennilega mest úr Mýrdal og undan Eyjafjöllum. Útræðið var snar þáttur í atvinnulífi sveitanna og þeirra aðalbjargræði í hörðum árum. Sjósókn er þar nú löngu aflögð, enda var hún lífshættuleg og fórust margir bátar og sjómenn drukknuðu í brimgarðinum, þegar verið var að lenda eða leggja af stað frá hafnlausri sandströndinni.

Verstöðin Þorlákshöfn

Þorlákshöfn var dæmigerð verstöð, þangað komu bændur og vinnumenn úr öðrum landshlutum á vertíð, oftast vetrarvertíð, sem stóð frá 2. febrúar til 11. maí.  Í Þorlákshöfn er góð náttúruleg höfn og skammt í fengsæl fiskimið. Meðan gert var út á áraskipum var ekki óalgengt að róið væri á 30-40 skipum frá Þorlákshöfn og hafa því íbúarnir verið um 3-400 yfir vertíðina og bjuggu þeir í verbúðum, byrgjum sem hlaðin voru úr grjóti og torfi. Menn höfðu með sér skrínukost að heiman. Þetta úthald reyndi bæði á sál og líkama vermanna, en þeir styttu sér stundir í landlegum við leiki, kveðskap og söguðu sögur.

Uppbygging þéttbýlis á Suðurlandi

Höfuðstaðurinn Skálholt

Skálholt varð biskupsetur árið 1056 og varð uppfrá því höfuðstaður landsins, má segja að er frá leið hafi það deilt þeirri upphefð með Bessastöðum. Reykjavík hlaut kaupstaðarréttindi 1786, en grunnur að bæjarmyndun þar var lögð með innréttingunum kringum 1750. Þá tóku stjórnarstofnanir að safnast saman í Reykjavík. Eftir mikla jarðskjálfta á Suðurlandi árið 1784 voru biskupsstóll og latínuskóli í Skálholti lagðir niður og fluttir til Reykjavíkur nokkrum árum síðar.

Önnur þéttbýlismyndun

Á miðöldum, þegar Skálholt var höfuðstaður landsins, var Eyrarbakki aðalhöfn þess. En það varð bið á þéttbýlismyndun á Eyrarbakka, sem og annars staðar á Íslandi, þar til á 19. öld. Blómatími Eyrarbakka var frá miðri 19. öld og á fyrstu áratugum 20. aldar. Eyrarbakki var einn stærsti bær á Íslandi og var mun stærri en Reykjavík og leit um tíma út fyrir að Eyrarbakki yrði höfuðborgin.

Á svipuðum tíma byggðust upp þéttbýli á Stokkseyri og stuttu síðar í Vík í Mýrdal og Höfn á Hornafirði, með uppruna í Papósi og uppúr miðri öldinni svo í Þorlákshöfn. Árni Óla kallaði Þykkvabæ þúsund ára sveitaþorp og er það sennilega eitt elsta þéttbýli landsins. Vestmannaeyjar fengu kaupstaðarréttindi um leið og Reykjavík, 1786.

Listamenn frá Suðurlandi

Listamenn frá Suðurlandi

Margir þjóðþekktir listamenn eiga uppruna sinn á Suðurlandi. Meðal þeirra þekktustu má nefna Jóhannes S. Kjarval listmálara, hann fæddist á Efri-Ey í Meðallandi, Þórbergur Þórðarson rithöfundur, fæddist á Hala í Suðursveit, Páll Ísólfsson tónskáld og dómorganisti, fæddist í Símonarhúsum á Stokkseyri, Ásgrímur Jónsson listmálari fæddist á Rútsstöðum í Flóa, Sigurjón Ólafsson myndhöggvari, fæddist á Eyrarbakka, Nína Sæmundsson myndhöggvari, fæddist í Fljótshlíð, Einar Jónsson myndhöggvari, fæddist á Galtafelli í Hrunamannahreppi og Júlíana Sveinsdóttir listmálari, fæddist í Vestmannaeyjum. Myndlistarmaðurinn Erró, Guðmundur Guðmundsson, ólst upp á Kirkjubæjarklaustri.

Listamannabærinn Hveragerði

Þegar Hveragerðisbær var í uppbyggingu, var hann vinsæll meðal rithöfunda, tónskálda, listmálara og annarra listamanna. Þar bjuggu meðal annarra rithöfundarnir Gunnar Benediktsson, Helgi Sveinsson, Jóhannes úr Kötlum, Kristján frá Djúpalæk, Kristmann Guðmundsson og Valdís Halldórsdóttir, myndlistarmennirnir Gunnlaugur Scheving, Ríkarður Jónsson, Höskuldur Björnsson og Kristinn Pétursson og tónskáldið Ingunn Bjarnadóttir.

Listamennirnir settust flestir að við þrjár götur vestarlega í þorpinu eins og það var á þeim tíma: við Laufskóga sem var gata tónskáldanna, Frumskóga þar sem skáldin bjuggu og Bláskóga þar sem myndlistarmenn fundu sér samastað. Finna má fræðslu um þessa listamenn á þeim slóðum þar sem þeir bjuggu, sem og í Lystigarði bæjarins.

Suðurland

Þéttbýliskjarnar

Á Suðurlandi eru allmargir þéttbýlisstaðir, hver með sínu sniði og sjarma og allir bjóða upp á einhverskonar afþreyingu. Selfoss er þeirra stærstur og þar má finna ýmsar verslanir, þjónustu og marga veitinga- og skyndibitastaði. Flestir bæir eru í alfaraleið og því bæði hentugt og skemmtilegt að eiga þar viðdvöl.

Skoða meira

Map Höfn Kirkjubæjarklaustur Vík Vestmannaeyjar Hvolsvöllur Flúðir Laugarvatn Reykholt Laugarás Borg Brautarholt Hveragerði Árnes Selfoss Hella Stokkseyri Eyrarbakki Þykkvibær Þórlákshöfn