LTG European Awards 2018: Outdoor activity destination of the year: South Iceland
Vestfirðir Vesturland Norðurland Austurland Suðurland Reykjanes Höfuðborgarsvæðið
Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Jöklar og jöklaafþreying

glacier-activity_litil.jpg
Jöklar og jöklaafþreying

Jöklar

Jökulís þekur um 10% af flatarmáli Íslands og rúma jöklar landsins vatn sem jafngildir um það bil 20 ára úrkomu á landið allt. Eitt megineinkenni jökla er að þeir hreyfast. Við skrið jökla, springur yfirborð þeirra ef ísrennslið er hratt. Þetta gerist vegna þess að efstu 20-30 metrar íssins brotna auðveldlega, en hann er þjálli á miklu dýpi. Þess vegna einkenna mikil sprungusvæði marga skriðjökla, en sprungurnar geta orðið allt að 30 metra djúpar. Breytilegt loftslag hefur áhrif á útbreiðslu og hreyfingu jöklanna. Í jöklunum eru margar virkar eldstöðvar, en eldgos og jarðhiti bræða ís og geta valdið jökulhlaupi. Um þriðjungur þess vatns sem fellur til sjávar af Íslandi, er jökulvatn. Aðgengi að íslenskum jöklum er nokkuð mismunandi, en þó er mögulegt að heimsækja flesta þá stærri.

Stærstu jöklarnir eru á Suðurlandi

Jöklar þekja um 10% af flatarmáli Íslands. Stærstir eru jöklarnir á mið- og sunnanverðu landinu og er Vatnajökull þeirra mestur, um 7.900 km2 að flatarmáli og 3.000 km3 að rúmmáli. Hann er jafnframt stærstur jökla í Evrópu að rúmmáli en annar stærsti að flatarmáli. Aðrir stórir jöklar eru Langjökull (900 km2), Hofsjökull (890 km2) og Mýrdalsjökull (560 km2). Fimmti stærsti jökull landsins er Drangajökull (142 km2) á austanverðum Vestfjörðum.

Skriðjöklar

Skriðjökull er hluti af jökli sem rennur út úr meginjöklinum. Skriðjöklar einkennast af framrennsli íssins og sprungnu yfirborði. Flestir skriðjöklar renna aðeins nokkur hundruð metra á ári. Dæmi eru þó um að óstöðugri skriðjöklar renni nokkra kílómetra og kallast það framhlaup.

Íshellar

Flestir íshellar eru inn af útfalli vatnsfarvega á jökulbotni og myndast vegna rennslis vatns á leysingartíma. Á nokkrum stöðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs eru til íshellar sem myndaðir eru vegna jarðhita. Íshellar geta verið mjög fallegir og upplifun þeirra sem þangað fara afar sérstök. Það er því eðlilegt að ferðamenn sæki í hellana. Íshellar af báðum gerðum eru í eðli sínu fremur óstöðugir og síbreytilegir og geta verið varasamir óvönum. Þá ætti aldrei að heimsækja án leiðsagnar staðkunnugra og án nauðsynlegs útbúnaðar, eins og mannbrodda, hjálma og höfuðlukta.

Jökullón

Jökullón myndast við sporða skriðjökla. Skriðjökultungur ýta oft upp lausum ruðningi eða hann skolast burt með jökulvatni sem brýst fram undan jökulsporði. Á þennan hátt verða oft til vatnastæði er jökullinn hopar. Við hopun jökla á síðustu áratugum hafa víða myndast jökullón við skriðjökla á Suðurlandi. Það myndast er við sporð jökuls, og er vatnið í lóninu komið frá bráðnun hans. Í slíkum lónum finnst oft jökulís á vatninu. Þegar jökullinn kelfir, þá brotna jakar frá jökulröndinni og þeir fljóta um á lóninu.

Við skriðjökla Vatnajökuls eru elstu og þekktust lónin Jökulsárlón og Fjallsárlón, en á síðustu árum hafa myndast lón við sporða Skeiðarárjökuls, Skaftafellsjökuls, Svínafellsjökuls, Kvíarjökuls, Fláajökuls, Heinabergsjökuls og Hoffellssjökuls þegar þeir hafa hopað og minnkað. Lón við sporð Gígjökuls, skriðjökuls úr Eyjafjallajökli, hvarf í gosinu 2010. Við sporð Sólheimajökuls, skriðjökuls úr Mýrdalsjökli, hefur myndast myndarlegt lón á síðustu árum.

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi

Jökulsá er vatnsmikil en mjög stutt jökulá á Breiðamerkursandi (meðalrennsli 250-300 m³/s, lengd aðeins um 500m) í Austur-Skaftafellssýslu. Hún rennur úr Jökulsárlóni við jaðar Vatnajökuls, sem er langþekktasta og stærsta jökullón á Íslandi. Áin er á miðjum Breiðamerkursandi, á milli Öræfasveitar og Suðursveitar.

Jökulsá rann áður beint undan jöklinum, 1-1,5 km til sjávar, en um 1935 fór lónið að myndast við jökulröndina og upp úr 1950 fór það að stækka ört samfara því sem jökullinn hopaði vegna bráðnunar. Um leið hefur áin styst vegna brimrofs við ströndina og ef sú þróun heldur áfram má búast við að áin hverfi innan tíðar og lónið fyllist af sjó, raunar gætir þegar sjávarfalla í því. Mun þá myndast þar fjörður inn að jökulröndinni. Reynt hefur verið að vinna gegn þessu með því að reyna að hindra landbrot og hækka vatnsstöðu lónsins.

Áin var brúuð á árunum 1966-1967 og er brúin 108 metra löng. Ferja var á ánni frá 1932 en áður var hún mjög erfið yfirferðar, bæði vegna straumhörku og jakaburðar, og oft ófær með öllu og drukknuðu margir þegar þeir reyndu að komast yfir hana. Ef ekki var hægt að ríða yfir ána, til dæmis þegar hún féll í einum straumhörðum ál fram í sjó en ekki í mörgum kvíslum, var oft gripið til þess að fara yfir jökulinn fyrir ofan upptök hennar en það var hættuspil þar sem hann var oft mjög sprunginn. Farið var að merkja leið yfir jökulinn um 1870.

Stóru jökulárnar vestast á Suðurlandi

Tvær stórar jökulár afmarka Þjórsárhraunið og Flóann, vestast á Suðurlandsundirlendinu og önnur þeirra skilur að Árnes- og Rangárvallasýslur. Það er Þjórsá, lengsta á landsins, 230 km löng. Hún á upptök sín í Þjórsárverum undir Hofsjökli. Þjórsá hefur verið virkjuð á hálendinu.  Í henni eru nokkrir tilkomumiklir fossar, eins og Dynkur, Tröllkonuhlaup og Urriðafoss. Hin áin er Hvítá, með upptök í Langjökli. Sogið rennur í hana austan við Ingólfsfjall og heitir sameinuð á eftir það Ölfusá. Hún er vatnsmesta á landsins, með meðalrennsli uppá 423 m³/sek. Ölfusá rennur í gegnum Selfoss og myndar stóran ós, áður en hún sameinast Atlantshafinu skammt vestan við Eyrarbakka.

Jöklaafþreying

Ferð upp á jökul getur verið ógleymanlegt ævintýri, en þó ber að hafa í huga að þeir geta verið stórhættulegir og því nauðsynlegt að vera í fylgd reyndra jöklaleiðsögumanna. Nokkur fyrirtæki sjá um skipulagðar jöklaferðir á Suðurlandi, en hægt er að nálgast upplýsingar um þær á netinu, í upplýsingamiðstöðvum ferðamála eða hjá starfsmönnum hótela. Helstu tegundir afþreyingar sem er í boði á Suðurlandi eru: jöklaganga, ísklifur, snjósleðaferðir, íshellaferðir, jeppaferðir auk siglinga á jökullónum.  

Ísklifur og jöklaganga

Það er ólíklegt að fólk gleymi fyrsta skiptinu sem það prófaði ísklifur. Ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á ísklifursferðir vítt og breitt um landið.

Jeppa- og jöklaferðir

Ýmsir ferðaþjónustuaðilar sérhæfa sig í jeppaferðum af ýmsu tagi. Jeppaferð upp á jökul með stórfenglegu útsýni er ógleymanleg lífsreynsla.

Vélsleða- og snjóbílaferðir

Margir ferðaþjónustuaðilar bjóða upp á snjósleðaferðir og ferðir á fjórhjólum. Þær henta fólki sem kann að meta fjör og vill hafa fríið svolítið ævintýralegt.

Hellaskoðun

Ísland státar af fjölda hella, stórum, smáum, djúpum og grunnum. Mörg ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á hellaskoðunarferðir en suma hella er hægt að skoða upp á eigin spýtur.

Bátaferðir

Það er enginn skortur á hverskonar bátsferðum á Íslandi, hvort sem ætlunin er að slaka á eða fá adrenalínið til að flæða.

Kajakferðir / Róðrarbretti

Það er skemmtileg upplifun að sigla um á kajak, en margir aðilar um allt land bjóða upp á slíkar siglingar, bæði á sjó og vötnum.

Jöklaaðgengi

Jöklar landsins eru hluti af hinni kraftmiklu Móður náttúru og þeir geta verið hættulegir. Viðeigandi búnaður og fatnaður skal ávallt hafa forgang í skipulagningu ferða á jökla landsins. Við mælum eindregið með að ferðamenn hafa samband við ferðaskipuleggjendur og leiðsögumenn á svæðunum áður en lagt er af stað upp á jökul. 

Jökulís þekur um 10% af flatarmáli Íslands og rúma jöklar landsins vatn sem jafngildir um það bil 20 ára úrkomu á landið allt. Eitt megineinkenni jökla er að þeir hreyfast. Við skrið jökla, springur yfirborð þeirra ef ísrennslið er hratt. Þetta gerist vegna þess að efstu 20-30 metrar íssins brotna auðveldlega, en hann er þjálli á miklu dýpi. Þess vegna einkenna mikil sprungusvæði marga skriðjökla, en sprungurnar geta orðið allt að 30 metra djúpar. Breytilegt loftslag hefur áhrif á útbreiðslu og hreyfingu jöklanna. Í jöklunum eru margar virkar eldstöðvar, en eldgos og jarðhiti bræða ís og geta valdið jökulhlaupi. Um þriðjungur þess vatns sem fellur til sjávar af Íslandi, er jökulvatn. Aðgengi að íslenskum jöklum er nokkuð mismunandi, en þó er mögulegt að heimsækja flesta þeirra.

Langjökull er næststærsti jökull landsins. Aðgengi að jöklinum er með því besta sem gerist, en þó ætti enginn að reyna að aka upp á jökul á eigin vegum. Ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á ferðir þar sem ekið er upp á jökulinn á sérútbúnum bílum og reyndir jöklaleiðsögumenn eru alltaf með í för. Í boði eru ökuferðir, gönguferðir og snjósleðaferðir. Gígjökull er skriðjökull sem gengur norður úr Eyjafjallajökli. Eftir gosið 2010 er lítið eftir af jöklinum og engar skipulagðar ferðir þangað. Þó er hægt að virða jökulinn fyrir sér úr fjarlægð á leiðinni inn í Þórsmörk. Sólheimajökull tilheyrir Mýrdalsjökli. Hann er mjög aðgengilegur og mögulegt að aka venjulegum fólksbílum alla leið að honum, en þar er bílastæði. Boðið er upp á gönguferðir allt árið um kring. Jökullinn er tiltölulega auðveldur yfirferðar og ættu ferðirnar að henta flestum frá 10 ára aldri, með viðeigandi búnað meðferðis. Svínafellsjökull tilheyrir þjóðgarðinum í Skaftafelli, en þaðan er farið upp á jökulinn, ferðir eru í boði allan ársins hring og henta fólki frá 8 ára aldri.  Fjallsárjökull er hluti af Vatnajökli. Í boði eru ferðir þar sem ekið frá Skaftafelli og upp að Fjallsárlóni og þaðan er gengið á jökulinn. Jökulsárlón er rétt við þjóðveg 1 og þar er þjónustumiðstöð sem er opin allt árið. Boðið er upp á siglingar um lónið frá mars og fram í nóvember. Fláajökull er einn skriðjöklanna sem ganga suður úr Vatnajökli. Hægt er að ganga inn að Fláajökli frá þjóðvegi 1. Gönguleiðin hefst við Brunnhólsá og er um 6 km. Einnig er hægt að aka inn að Sandatúnum og stytta þannig leiðina. Heinabergsjökull er hluti af Vatnajökli. Heinabergssvæðið sem staðsett er milli Hafnar og Skaftafells, er vel aðgengilegt fólksbílum, en það er bílastæði við jökulinn. Hoffellsjökull er enn einn jökull sem tilheyrir Vatnajökli og hann fer ört hopandi. Í dældinni sem jökullinn hefur skilið eftir sig hefur myndast lón, sem mun með tímanum breytast í stöðuvatn. Hoffellsjökull er skammt frá Höfn í Hornafirði og það er hægt að aka að rótum hans á fjórhjóladrifnum jeppum.

Ferð upp á jökul getur verið ógleymanlegt ævintýri, en þó ber að hafa í huga að þeir geta verið stórhættulegir og því nauðsynlegt að vera í fylgd reyndra jöklaleiðsögumanna. Nokkur fyrirtæki sjá um skipulagðar jöklaferðir á Suðurlandi, en hægt er að nálgast upplýsingar um þær á netinu, í upplýsingamiðstöðvum ferðamála eða hjá starfsmönnum hótela. 

Eyjafjallajökull

Eyjafjallajökull er í röð hærri jökla landsins (1651 m y.s.). Eyjafjallajökull er eldkeila, gerð úr hraun- og gosmalarlögum á víxl og liggur norður af Eyjafjöllum. Fjalllendið eða eldkeilan, sem Eyjafjallajökull hvílir á, hefur verið að hlaðast upp frá miðri ísöld og fram á nútíma. Í toppi keilunnar er sigketill, 3-4 km í þvermál. Raðast hæstu tindar fjallsins á barma ketilsins sem opinn er til norðurs og þar flæðir Gígjökull fram úr katlinum allt niður á láglendi í dal Markarfljóts. Hæsti tindurinn er nefndur Hámundur. Goðasteinn heitir klettur á skálarbarminum sunnanverðum. Eyjafjallajökull er um 100 km² og því sjötti stærsti jökull hér á landi. Tveir skriðjöklar falla úr Eyjafjallajökli að norðanverðu, niður á jafnsléttu. Er hinn fremri (vestari) Gígjökull eða Falljökull en hinn innri nefnist Steinsholtsjökull. Lón eru við jökulsporðana og heitir Jökullón við Gígjökul en Steinsholtslón við Steinsholtsjökul. Eyjafjallajökull gaus 1821-1823. Þá braust flóð fram undan skriðjökli úr norðanverðum jöklinum. Það stóð aðeins yfir í þrjár klukkustundir en var ægilegt meðan á því stóð. Flæddi það yfir allt láglendi hlíða á milli þannig að hvergi örlaði á steini milli Eyjafjalla og Fljótshlíðar. Um miðjan janúar 1967 hrundi samfelld bergspilda úr austurhlið Innstahauss í Steinsholti niður á Steinsholtsjökul. Bergspildan var um 15 milljónir m³ og mesta hæð brotstálsi.

Megineldstöðin Eyjafjallajökull hefur verið tiltölulega virk á nútíma eða síðustu 8000 ár. Síðast gaus í eldstöðinni árið 2010 en þá mynduðust u.þ.b. 0,27 km3 af gjósku og 0,023 km3 af hrauni. Eyjafjallajökull er 1651 m hár og er hann á Austurgosbeltinu og telst megineldstöðin vera sjálfstætt eldstöðvakerfi. Efst í fjallinu er 2,5 km breið, ísfyllt askja. Efri hluti megineldstöðvarinnar er að mestu hulin jökli sem er allt að 200 m þykkur.

Gosmökkurinn í gosinu 2010 var úr svo fíngerðri ösku, að hann gat haft slæm áhrif á þotuhreyfla og var flugleiðum og flugvöllum um stóran hluta Evrópu lokað í um vikutíma uppúr miðjum apríl. Þó var flogið frá Keflavík til Ameríku á þessum tíma. Þetta voru mestu takmarkanir á flugi í heiminum frá seinna stríði.

Mýrdalsjökull og Katla

Jökulhvel (1493 m y.s.) norður af austasta hluta Rangárvallasýslu og vestasta hluta Vestur-Skaftafellssýslu. Mýrdalsjökull er um 595 km². Frá honum teygjast ýmsir skriðjöklar og sá sem gengur lengst niður og liggur syðst er Sólheimajökull en til austurs er Kötlujökull mestur. (Oft ranglega nefndur Höfðabrekkujökull). Undan Mýrdalsjökli falla ýmis meiri háttar jökulvötn, þar á meðal ýmsar þverár Markarfljóts, ennfremur Jökulsá á Sólheimasandi, Múlakvísl og Hólmsá (Leirá).
Í Mýrdalsjökli suðaustanverðum eru eldstöðvar Kötlu. Nýjustu rannsóknir þykja benda til að undir jöklinum hafi verið eldkeila sem fallið hefur í sjálfa sig og þá myndast geysimikið ketilsig, um 10 km í þvermál, líkt og Askja í Dyngjufjöllum. Talið er að Katla sé ekki ein gosstöð heldur séu fleiri gosstöðvar, jafnvel sprungur í sigkatlinum og að Kötlugjá sé dýpsta skarðið út úr katlinum.

Vatnajökull

Vatnajökull er stærsti jökull Íslands, sem og stærsti jökull í rúmmáli í allri Evrópu. Vatnajökull þekur 8 prósent Íslands en hann nær yfir 7800 ferkílómetra og er meðalþykkt hans 400 metrar. Hæsti punktur jökulsins, Hvannadalshnúkur mælist
2,110 metra (6,921 ft). Frá jöklahettu Vatnajökuls liggja um 30 jökultungur sem allar bera heiti; allir jöklar og jökultungur á Íslandi bera heiti sem endar á "jökull".
Vatnajökull er í umsjá Vatnajökulsþjóðgarðs sem þekur stórt svæði umlykjandi jökulinn. Þjóðgarðurinn hefur upp á margvíslega áhugaverða staði að bjóða og er garðurinn skyldu stopp fyrir hvern þann sem hefur áhuga á jarðfræði og fögru landslagi.

Öræfajökull

Hæsta fjall landsins (2110 m y.s.), suður úr Vatnajökli miðjum, eldkeila. Fyrir ofan 1000 m hæð er fjallið jökli hulið nema nokkrir klettaveggir í tindum, neðar bungar það út í meira og minna sjálfstæð randfjöll og verður því mikið um sig. Er það og annað stærsta virkt eldfjall í Evrópu, næst Etnu á Sikiley, þvermál við rætur yfir 20 km og grunnflötur nær 400 km² en rúmtak nálægt 370 km³.
Öræfi og Öræfajökull eru nöfn sem urðu til eftir eyðingu byggðar af völdum goss í fjallinu 1362 er áður hét Knappafell. Fer það nafn því vel, dregið af tindum þeim sem sitja á barmi öskjunnar í kolli þess og mest ber á frá suðri en tveir þeirra heita Knappar og þar af leiðir bæjarnafnið Hnappavellir. Hvannadalshnúkur á vesturbrún öskjunnar er hæstur allra tindanna og rís um 300 m yfir marflata hjarnsléttu öskjunnar. Hann er úr líparíti.
Mikill gígur eða ketilsig er í kolli fjallsins, sporöskjulaga, nær 5 km á lengri veginn og um 12 km² að flatarmáli. Að sjálfsögðu er hún full svo að flóir út af enda bætist á jökulinn allt að 10 m af snjó árlega sem samsvarar yfir 4000 mm ársúrkomu og er hún hvergi meiri hér á landi. Um dýpstu skörðin í börmum öskjunnar skríður jökullinn án afláts og myndar skriðjökla, sem falla úr 1800 m hæð alla leið niður á láglendið. Í bröttum hlíðum verða réttnefndir jökulfossar og heitir Falljökull einn hinn mesti þeirra. Aðrir stórjöklar utan í fjallinu eru Kvíárjökull og Fjallsjökull til suðausturs og hinn mikli Svínafellsjökull sem fellur til vesturs frá Hvannadalshnúki.
Öræfajökull hefur gosið tvisvar eftir landnám, árin 1362 og 1727. Fyrra gosið er mesta vikurgos sem orðið hefur hér á landi síðan um 800 f.Kr., gjóska áætluð um 10 km³. Gosinu fylgdi ógurlegt vatnsflóð með jakaburði og tók af marga bæi en byggð lagðist í auðn um sinn.
Seinna gosið stóð nærfellt í ár, ákafast fyrstu 3 dagana með öskufalli og myrkri svo að vart sá skil dags og nætur. Drengur fórst og konur tvær sem voru í seli frá Sandfelli, einnig fórst margt búfjár en ekki tók af bæi. Mikið hlaup lagðist þó í fyrstu heim að Sandfelli og austur með Hofi og er þar enn ummerki að sjá, til dæmis báðum megin Kotár, Háöldu að vestan, með stóru, friðlýstu jakafari, og Svartajökul og Grasjökul að austan.
Engin sögn er um ferð á Öræfajökul fyrr en 11. ágúst 1794 er Sveinn Pálsson gekk á jökulinn frá Kvískerjum. Í þeirri ferð mun hann einna fyrstur manna í heiminum hafa gert sér grein fyrir að skriðjöklar hreyfast eins og seigfljótandi efni sem hnígur undan eigin þunga. Þarna hafði hann góða yfirsýn, meðal annars yfir Fjallsjökul, veitti athygli "árhringum" skriðjökulsins, svigðum eða skárum, og dró réttar ályktanir af því sem hann sá.
Fyrstur til að ganga á Hvannadalshnúk varð norskur landmælingamaður, Hans Frisak, ásamt Jóni Árnasyni, hreppstjóra á Fagurhólsmýri, sem hann fékk til fylgdar 19. júlí 1813. Svo leið fram undir aldamót að enginn lék þetta eftir þar til F.W. Howell gekk á Hvannadalshnúk 1891 ásamt tveim fylgdarmönnum frá Svínafelli. Úr því fór ferðum að fjölga og þykir það nú ekki lengur tíðindum sæta, hvort heldur gengið er eða ekið um Öræfajökul.

Fjallsárlón

Fjallsárlón er undurfagurt jökullón staðsett um 10 km vestur af Jökulsárlóni, á syðri brún Vatnajökuls. Fjallsjökull, brött jökultunga sem kemur niður frá Vatnajökli niður í lónið er friðsæll staður sem tilvalinn er til þess að njóta ósnortnar náttúru og til myndatöku. Á Fjallsárlóni er hægt að fara í bátaferðir og fá sér hressingu í matsölustaðnum í nágreninnu. 

Jökulsárlón

Fyrir 1950 rann Jökulsá á Breiðamerkursandi beint undan jökli u.þ.b. 1½ km leið til sjávar. Síðan hefur jökullinn hörfað og sístækkandi lón myndast. Meðalrennsli árinnar er 250-300 m³/sek. og stórir ísjakar brotna af jökuljaðrinum og eru þeir á floti á vatninu. Lónið er feikidjúpt, a.m.k. 190 m. Áin styttist stöðugt vegna brimrofs og árið 1998 var hún varla meira en 500 m. Farvegur árinnar grefst stöðugt niður, þannig að það gætir sjávarfalla í lóninu. Það þýðir einfaldlega, að hlýrra vatn streymir inn í það á flóði og ísinn bráðnar mun hraðar en fyrrum. Bæði loðna og síld ganga inn í lónið og selurinn eltir ætið.

Víða má sjá æðarfugl syndandi milli jakanna. Það er ógleymanlegt að sigla með bátunum um lónið og virða fyrir sér litaskipti íssins og ótrúlegar höggmyndir náttúrunnar. Þar er rekin bátaútgerð fyrir ferðamenn og þar er lítið veitingahús. Áætlunarbifreiðar haf viðkomu við lónið á hverjum degi á sumrin, bæði í áætlun og dagsferðum tengdum Skálafellsjökli frá Höfn.

Jökulsárlón hefur verið hluti af Vatnajökulsþjóðgarði frá árinu 2017.

Heinaberg

Heinabergslón er aðgengilegt á bíl og er oftar en ekki skreytt stórum ísjökum sem brotnað hafa af Heinabergsjökli. Á svæðinu eru kjöraðstæður fyrir göngufólk þar sem þar eru margar áhugaverðar gönguleiðir þar sem bjóða gestum upp á að ganga fram á fram á fossa, gil, storkuberg, og jafnvel sjá hreindýr. 

Hoffell

Svæðið er varðveitt til útivistar, enda mikill gróður, dýralíf og ýmis jarðfræðileg undur. Það er úr mörgum gönguleiðum að velja sem leiða göngufólk um stórbrotið umhverfið.

Langjökull

Langjökull er næststærsti jökull landsins. Aðgengi að jöklinum er með því besta sem gerist, en þó ætti enginn að reyna að aka upp á jökul á eigin vegum. Ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á ferðir þar sem ekið er upp á jökulinn á sérútbúnum bílum og reyndir jöklaleiðsögumenn eru alltaf með í för. Í boði eru ökuferðir, gönguferðir og snjósleðaferðir.

Suðurland

Þéttbýliskjarnar

Á Suðurlandi eru allmargir þéttbýlisstaðir, hver með sínu sniði og sjarma og allir bjóða upp á einhverskonar afþreyingu. Selfoss er þeirra stærstur og þar má finna ýmsar verslanir, þjónustu og marga veitinga- og skyndibitastaði. Flestir bæir eru í alfaraleið og því bæði hentugt og skemmtilegt að eiga þar viðdvöl.

Skoða meira

Map Höfn Kirkjubæjarklaustur Vík Vestmannaeyjar Hvolsvöllur Flúðir Laugarvatn Reykholt Laugarás Borg Brautarholt Hveragerði Árnes Selfoss Hella Stokkseyri Eyrarbakki Þykkvibær Þórlákshöfn