LTG European Awards 2018: Outdoor activity destination of the year: South Iceland
Vestfirðir Vesturland Norðurland Austurland Suðurland Reykjanes Höfuðborgarsvæðið
Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Jöklaaðgengi

joklaadgengi_litil.jpg
Jöklaaðgengi

Jöklar landsins eru hluti af hinni kraftmiklu Móður náttúru og þeir geta verið hættulegir. Viðeigandi búnaður og fatnaður skal ávallt hafa forgang í skipulagningu ferða á jökla landsins. Við mælum eindregið með að ferðamenn hafa samband við ferðaskipuleggjendur og leiðsögumenn á svæðunum áður en lagt er af stað upp á jökul. 

Jökulís þekur um 10% af flatarmáli Íslands og rúma jöklar landsins vatn sem jafngildir um það bil 20 ára úrkomu á landið allt. Eitt megineinkenni jökla er að þeir hreyfast. Við skrið jökla, springur yfirborð þeirra ef ísrennslið er hratt. Þetta gerist vegna þess að efstu 20-30 metrar íssins brotna auðveldlega, en hann er þjálli á miklu dýpi. Þess vegna einkenna mikil sprungusvæði marga skriðjökla, en sprungurnar geta orðið allt að 30 metra djúpar. Breytilegt loftslag hefur áhrif á útbreiðslu og hreyfingu jöklanna. Í jöklunum eru margar virkar eldstöðvar, en eldgos og jarðhiti bræða ís og geta valdið jökulhlaupi. Um þriðjungur þess vatns sem fellur til sjávar af Íslandi, er jökulvatn. Aðgengi að íslenskum jöklum er nokkuð mismunandi, en þó er mögulegt að heimsækja flesta þeirra.

Langjökull er næststærsti jökull landsins. Aðgengi að jöklinum er með því besta sem gerist, en þó ætti enginn að reyna að aka upp á jökul á eigin vegum. Ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á ferðir þar sem ekið er upp á jökulinn á sérútbúnum bílum og reyndir jöklaleiðsögumenn eru alltaf með í för. Í boði eru ökuferðir, gönguferðir og snjósleðaferðir. Gígjökull er skriðjökull sem gengur norður úr Eyjafjallajökli. Eftir gosið 2010 er lítið eftir af jöklinum og engar skipulagðar ferðir þangað. Þó er hægt að virða jökulinn fyrir sér úr fjarlægð á leiðinni inn í Þórsmörk. Sólheimajökull tilheyrir Mýrdalsjökli. Hann er mjög aðgengilegur og mögulegt að aka venjulegum fólksbílum alla leið að honum, en þar er bílastæði. Boðið er upp á gönguferðir allt árið um kring. Jökullinn er tiltölulega auðveldur yfirferðar og ættu ferðirnar að henta flestum frá 10 ára aldri, með viðeigandi búnað meðferðis. Svínafellsjökull tilheyrir þjóðgarðinum í Skaftafelli, en þaðan er farið upp á jökulinn, ferðir eru í boði allan ársins hring og henta fólki frá 8 ára aldri.  Fjallsárjökull er hluti af Vatnajökli. Í boði eru ferðir þar sem ekið frá Skaftafelli og upp að Fjallsárlóni og þaðan er gengið á jökulinn. Jökulsárlón er rétt við þjóðveg 1 og þar er þjónustumiðstöð sem er opin allt árið. Boðið er upp á siglingar um lónið frá mars og fram í nóvember. Fláajökull er einn skriðjöklanna sem ganga suður úr Vatnajökli. Hægt er að ganga inn að Fláajökli frá þjóðvegi 1. Gönguleiðin hefst við Brunnhólsá og er um 6 km. Einnig er hægt að aka inn að Sandatúnum og stytta þannig leiðina. Heinabergsjökull er hluti af Vatnajökli. Heinabergssvæðið sem staðsett er milli Hafnar og Skaftafells, er vel aðgengilegt fólksbílum, en það er bílastæði við jökulinn. Hoffellsjökull er enn einn jökull sem tilheyrir Vatnajökli og hann fer ört hopandi. Í dældinni sem jökullinn hefur skilið eftir sig hefur myndast lón, sem mun með tímanum breytast í stöðuvatn. Hoffellsjökull er skammt frá Höfn í Hornafirði og það er hægt að aka að rótum hans á fjórhjóladrifnum jeppum.

Ferð upp á jökul getur verið ógleymanlegt ævintýri, en þó ber að hafa í huga að þeir geta verið stórhættulegir og því nauðsynlegt að vera í fylgd reyndra jöklaleiðsögumanna. Nokkur fyrirtæki sjá um skipulagðar jöklaferðir á Suðurlandi, en hægt er að nálgast upplýsingar um þær á netinu, í upplýsingamiðstöðvum ferðamála eða hjá starfsmönnum hótela. 

Jökulsárlón

Fyrir 1950 rann Jökulsá á Breiðamerkursandi beint undan jökli u.þ.b. 1½ km leið til sjávar. Síðan hefur jökullinn hörfað og sístækkandi lón myndast. Meðalrennsli árinnar er 250-300 m³/sek. og stórir ísjakar brotna af jökuljaðrinum og eru þeir á floti á vatninu. Lónið er feikidjúpt, a.m.k. 190 m. Áin styttist stöðugt vegna brimrofs og árið 1998 var hún varla meira en 500 m. Farvegur árinnar grefst stöðugt niður, þannig að það gætir sjávarfalla í lóninu. Það þýðir einfaldlega, að hlýrra vatn streymir inn í það á flóði og ísinn bráðnar mun hraðar en fyrrum. Bæði loðna og síld ganga inn í lónið og selurinn eltir ætið.

Víða má sjá æðarfugl syndandi milli jakanna. Það er ógleymanlegt að sigla með bátunum um lónið og virða fyrir sér litaskipti íssins og ótrúlegar höggmyndir náttúrunnar. Þar er rekin bátaútgerð fyrir ferðamenn og þar er lítið veitingahús. Áætlunarbifreiðar haf viðkomu við lónið á hverjum degi á sumrin, bæði í áætlun og dagsferðum tengdum Skálafellsjökli frá Höfn.

Jökulsárlón hefur verið hluti af Vatnajökulsþjóðgarði frá árinu 2017.

Hoffell

Svæðið er varðveitt til útivistar, enda mikill gróður, dýralíf og ýmis jarðfræðileg undur. Það er úr mörgum gönguleiðum að velja sem leiða göngufólk um stórbrotið umhverfið.

Eyjafjallajökull

Eyjafjallajökull er í röð hærri jökla landsins (1651 m y.s.). Eyjafjallajökull er eldkeila, gerð úr hraun- og gosmalarlögum á víxl og liggur norður af Eyjafjöllum. Fjalllendið eða eldkeilan, sem Eyjafjallajökull hvílir á, hefur verið að hlaðast upp frá miðri ísöld og fram á nútíma. Í toppi keilunnar er sigketill, 3-4 km í þvermál. Raðast hæstu tindar fjallsins á barma ketilsins sem opinn er til norðurs og þar flæðir Gígjökull fram úr katlinum allt niður á láglendi í dal Markarfljóts. Hæsti tindurinn er nefndur Hámundur. Goðasteinn heitir klettur á skálarbarminum sunnanverðum. Eyjafjallajökull er um 100 km² og því sjötti stærsti jökull hér á landi. Tveir skriðjöklar falla úr Eyjafjallajökli að norðanverðu, niður á jafnsléttu. Er hinn fremri (vestari) Gígjökull eða Falljökull en hinn innri nefnist Steinsholtsjökull. Lón eru við jökulsporðana og heitir Jökullón við Gígjökul en Steinsholtslón við Steinsholtsjökul. Eyjafjallajökull gaus 1821-1823. Þá braust flóð fram undan skriðjökli úr norðanverðum jöklinum. Það stóð aðeins yfir í þrjár klukkustundir en var ægilegt meðan á því stóð. Flæddi það yfir allt láglendi hlíða á milli þannig að hvergi örlaði á steini milli Eyjafjalla og Fljótshlíðar. Um miðjan janúar 1967 hrundi samfelld bergspilda úr austurhlið Innstahauss í Steinsholti niður á Steinsholtsjökul. Bergspildan var um 15 milljónir m³ og mesta hæð brotstálsi.

Megineldstöðin Eyjafjallajökull hefur verið tiltölulega virk á nútíma eða síðustu 8000 ár. Síðast gaus í eldstöðinni árið 2010 en þá mynduðust u.þ.b. 0,27 km3 af gjósku og 0,023 km3 af hrauni. Eyjafjallajökull er 1651 m hár og er hann á Austurgosbeltinu og telst megineldstöðin vera sjálfstætt eldstöðvakerfi. Efst í fjallinu er 2,5 km breið, ísfyllt askja. Efri hluti megineldstöðvarinnar er að mestu hulin jökli sem er allt að 200 m þykkur.

Gosmökkurinn í gosinu 2010 var úr svo fíngerðri ösku, að hann gat haft slæm áhrif á þotuhreyfla og var flugleiðum og flugvöllum um stóran hluta Evrópu lokað í um vikutíma uppúr miðjum apríl. Þó var flogið frá Keflavík til Ameríku á þessum tíma. Þetta voru mestu takmarkanir á flugi í heiminum frá seinna stríði.

Mýrdalsjökull og Katla

Jökulhvel (1493 m y.s.) norður af austasta hluta Rangárvallasýslu og vestasta hluta Vestur-Skaftafellssýslu. Mýrdalsjökull er um 595 km². Frá honum teygjast ýmsir skriðjöklar og sá sem gengur lengst niður og liggur syðst er Sólheimajökull en til austurs er Kötlujökull mestur. (Oft ranglega nefndur Höfðabrekkujökull). Undan Mýrdalsjökli falla ýmis meiri háttar jökulvötn, þar á meðal ýmsar þverár Markarfljóts, ennfremur Jökulsá á Sólheimasandi, Múlakvísl og Hólmsá (Leirá).
Í Mýrdalsjökli suðaustanverðum eru eldstöðvar Kötlu. Nýjustu rannsóknir þykja benda til að undir jöklinum hafi verið eldkeila sem fallið hefur í sjálfa sig og þá myndast geysimikið ketilsig, um 10 km í þvermál, líkt og Askja í Dyngjufjöllum. Talið er að Katla sé ekki ein gosstöð heldur séu fleiri gosstöðvar, jafnvel sprungur í sigkatlinum og að Kötlugjá sé dýpsta skarðið út úr katlinum.

Suðurland

Þéttbýliskjarnar

Á Suðurlandi eru allmargir þéttbýlisstaðir, hver með sínu sniði og sjarma og allir bjóða upp á einhverskonar afþreyingu. Selfoss er þeirra stærstur og þar má finna ýmsar verslanir, þjónustu og marga veitinga- og skyndibitastaði. Flestir bæir eru í alfaraleið og því bæði hentugt og skemmtilegt að eiga þar viðdvöl.

Skoða meira

Map Höfn Kirkjubæjarklaustur Vík Vestmannaeyjar Hvolsvöllur Flúðir Laugarvatn Reykholt Laugarás Borg Brautarholt Hveragerði Árnes Selfoss Hella Stokkseyri Eyrarbakki Þykkvibær Þórlákshöfn