Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Matarauður Ríkis Vatnajökuls

Ríki Vatnajökuls nær frá hinum tignarlega Lómagnúp til vesturs að tilkomumiklu landslagi Hvalness til austurs. Svæðið býður upp á marga veitingastaði sem nýta margir hverjir hráefni frá svæðinu

Austur Skaftafellssýsla hefur ætíð verið landbúnaðarhérað. Það var heldur rýrt á árum áður en eftir 1980 var farið að auka ræktun og þá einkum á söndunum. Þó ekki hafi verið fjölmenni hér áður fyrr var landbúnaðurinn ekki nóg til að framfleyta íbúunum. Í allri sýslunni var sjósókn og átti hún það sameiginlegt að lendingarskilyrði voru slæm en fiskimið góð. Í Ferðabók Eggerts og Bjarna er sagt frá kolaveiðum í lónum innan við ósa í Lóni og Hornafirði og að í Öræfum og Suðursveit var þorskur veiddur.

Sveitarfélagið Hornafjörður og sjávarþorpið Höfn búa yfir miklu úrvali af mat úr héraði sem er framleiddur af bændum og veiddur af sjómönnum svæðisins. Höfn er sannkallað sjávarþorp þar sem einn af aðalatvinnuvegunum er sjávarútvegur og er humarinn sérgrein Hornfirðinga.

Í sveitarfélaginu Hornafirði eru hefðir og hlunnindi mismunandi eftir staðsetningu. Þar er lega landsins, veðurlag og náttúruöflin sem hafa haft mest áhrif. Sem dæmi þá eru í Öræfum vikurskaflar, sem eru mjög einangrandi, en Öræfingar nýttu sér þá til að geyma saltkjöt í tunnum þar til þeir gátu flutt það með skipum næsta sumar. Í Ingólfshöfða er mikið fuglalíf þar sem björgin eru þéttsetin fugli, langvíu, álku, fýl og lunda. Auk þess er fjöldi annarra fuglategunda sem verpa í höfðanum og umhverfis hann. Mikið var um fuglaveiðar og eggjatöku í höfðanum hér áður fyrr. Í Suðursveit hafa verið stundaðir sjóróðrar úr fjörunni, mögulega allt frá landnámsöld.

Á Mýrunum er stundaður mikill landbúnaður þar sem meðal annars er eitt stærsta kúabú landsins, hægt að gæða sér á jöklaís hjá ferðaþjónustubændum og brugghús er á svæðinu sem dæmi.