Fara í efni

Á svæði Kötlu jarðvangs og Vestmannaeyja er hefð fyrir landbúnað ýmiskonar, kornrækt, ræktun rótargrænmetis og sjávarútvegur sem dæmi. Helstu sérkenni svæðisins er nýting á fugli og eggjatínsla.

Rangárþing eystra

Hvolsvöllur er aðal þéttbýli Rangárþings eystra og byggðist upp sem miðstöð fyrir þjónustu við landbúnað á seinni hluta síðustu aldar. Þar búa nú um 1000 manns og eru aðal atvinnuvegir þjónusta við landbúnað, verslun og ferðaþjónusta. Einnig er Sláturfélag Suðurlands með eina af stærstu kjötvinnslu landsins þar. Hún var flutt austur úr Reykjavík árið 1991.

Smáratún í Fljótshlíð er eitt af stofnfélögum Beint frá býli. Ýmsar afurðir er þar unnar t.d. sultur úr ýmsum berjum og rabarbara, brauð og flakökur, kindakæfa, egg úr landnámshænum, lambakjöt, kartöflur og gulrófur og nautakjöt. Smáratún rekur einnig hótel og veitingastað sem eru svansmerkt og eru nú að fara af stað með “zero waste” prógram.

Vísi Gísli sem var uppi á 17. öld bjó í Fljótshlíð , var fyrstur Íslendinga til að stunda náttúrufræðinám í háskóla, frumkvöðull í garðækt á sinni öld og frá honum kemur kúmen sem nú vex villt í Fljótshlíð. Í Fljótshlíð var á tyllidögum sett kúmen í kaffi, pönnukökur og rabarbarasultu. Þar voru einnig ræktaðar gulrófur, sendinn og góður jarðvegur fyrir neðan veg.

Undir Eyjafjöllum hefur fýlaveiði verið stunduð. Sú veiði sem er stunduð í dag er frekar til að viðhalda gömlum venjum heldur en að fólk hafi fjárhagslega hagsmuni af henni. Áður fyrr sigu menn í björg en nú til dags fara menn gangandi eða keyrandi og rota fuglinn sem á sléttunum undir björgunum.

Kornrækt hefur verið stunduð á Íslandi frá landnámsöld og má finna um helming allra kornakra landins á Suðurlandi. Eyjafjöllin eru talin eitt besta svæðið til kornræktar auk láglendis Rangárvallasýslu. Á Þorvaldseyri hefur verið ræktað bygg, hveiti og repja síðustu ár, og úr repjunni hefur bæði verið gerð olía til manneldis sem og lífdísill.

Kálgarðar voru vinsælir á öldum áður og lengi voru aðeins gulrófur ræktaðar. Þær þóttu mjög of góðar fyrir almúgan. Gulrófufræ fengust frá útlöndum.

Vestmannaeyjar

Vestmannaeyjar og sjávarbjörgin í kring eru með töluvert fuglalíf, ein stærsta lundabyggð heims er í Vestmannaeyjum, gjöful fiskimið eru allt í kring og fjöldi hvala. Eyjarnar hafa myndast við gos í sjó og jarðvegur er víða grunnur og því ekki góður fyrir túnrækt, víða er grýttur jarðvegur og stutt í hraun. Nokkrar sjaldgæfar plöntur vaxa m.a. í Herjólfsdal.

Mataræði Vestmanneyinga var betra og fjölbreyttara en hjá öðrum sjávarþorpum hér áður fyrr þökk sé þeirri miklu matarkistu sem eyjarnar hafa upp á að bjóða. Mataræði var misjafn eftir árstíðum og varð einhliða á vertíð og vori.

Almennt matarhæfi á seinni hluta 19. aldar: Fyrst var kaffi drukkið eða grasavatn. Morgunmatur var kl. 10 og samanstóð af saltfiski, trosfiski, ýsu, keilu (söltuð og verkuð), löngu, ufsa eða skötu.

Miðdegismatur var kl 15, saltaður fugl eða nýr að sumri til, mjólkurgrautur, soðinn fiskur, súrt slátur og súr hvalur. Baunir heitar eða kaldar og bankabyggsgrautar. Mikið var borðað af harðfiski með smjöri.

Kvöldmatur var kl 19. Fuglasúpa með söltuðum lunda eða fýl, oftast fýl með söxuðum hvannablöðum.  Þunnur mjólkurgrautur og var malað bankabygg oft sett út á.

Á kvöldin var aftur drukkið kaffi. Söl voru borðuð og fjörugrös sett í brauð. Sauðakjöt og kaggar af söltuðum fýl og lunda voru vetarforðinn. Nýr fýll var soðinn í bútung (saltaður/þurrkaður óflattur), sjóða fuglinn með öllu innvolsi og þótti bestur þannig. Reyktur lundi og fýlsungi voru til hátíðarbrigða. Fýll var ekki mikið reyktur því þá nýttist ekki feitin af honum. Hausinn var einnig borðaður. Súlur voru einnig borðaðar, haus og vængir sviðnir og súlublóðmör úr lifrinni með rúsínum og kryddi.

Hvönn og hvannarætur voru mikið notaðar, margir voru með hvannagarða. Um 1850 hófst kartöflurækt með blárauðar kartöflur frá Skotlandi.

Smjörið kom af landi og var keypt með skreiðarvörum. Á sunnudögum var saltkjöt með kartöflum eða kjötsúpur, baunir og kjöt. Á haustin var nýtt kjöt, soðið eða steikt.

Einungis sjómenn fengu brauðbita með morgunkaffinu. Seint á 19. öld fóru sjómenn að hafa með sér sjóbita með sér á sjóinn, þykkar rúgbrauðssneiðar eða rúgkökur með kjöti eða öðru áleggi. Einungis voru kökur og sætabrauð á hátíðisdögum. Búðarbrauð: hagldabrauð (kringlur), skonrok (hart brauð sem geymist lengi) með sírópi var haft með kaffinu.

Fýlafeitarbræðingur var búinn til að feitinni sem rann af fýl við suðu, ekki mörinni sjálfri. Var einkum notað fyrir börn og unglinga.

Kútmagar: Mjöl- eða lifrarmagar með tómri lifur eða mjöli hnoðað saman. Hrogn, greppar og lifraðir hausar voru í miklu uppáhaldi, sérstaklega nýir lúðuhausar og rafabelti af lúðu.

Sundmagar voru súrsaðir og þorskhausar signir. Svil úr þorski voru notuð en þótti lélegur matur. Af fiski var yfirleitt nóg svo hver gat borðað af honum einsog hann vildi.

Mörgum þótti hanginn eða visaður fiskur betri en nýr. Þorskur var ekki notaður til matar þar sem hann var aðal útflutningsvaran.

Árstíðir

Á vertíð var nýr fiskur þ.á.m. lúða.

Á sumrin veiddist soðfiskur, stútungur og keila, lúða, skarkoli o.fl. Meðlæti voru gulrófur og kartöflur en þær var farið að rækta eftir miðja öld. Einnig soðkökur úr rúgi eða hveiti og hrognakökur sem voru gerðar úr hrognum og mjöli. Soðkökur voru einnig borðaðar með saltkjöti. Bræðingur var notaður sem viðbit (tólg og lýsi).

Egg voru til framan af sumri, voru sett í salt og skömmtuð til manna meðan nóg var til í morgun- eða miðdegisverð, 3-4 egg á mann. Einnig voru gerðar eggjakökur.

Veislur: Eftir fýlaferðir var veisla fyrir veiðimennina. Reyktur fýlsungi, rúsínugrautur með sírópi, kjötsúpa með nýju kjöti eða kindasteik. Óspart kaffi, brennivín og koníak út í.

Julsaveisla var svipuð eftir lundaveiðar haldin af sókningsmönnum sem ferjuðu veiðimenn í eyjarnar, og héldu veiðimennirnir sjálfir lundaveislu með góðum veitingum og víni.

Kæst skata á sumrin og lundi var saltaður í tunnu. Hundasúrur voru sem salat með fiski og jafnvel stráð púðursykri yfir.

Ekki þurfa Eyjamenn að gæða sér á súrsuðum eða reyktum mat í dag nema þá helst til að smakka á gamallri hefð. Í Vestmannaeyjum eru fjölmargir veitingastaðir þar sem boðið er upp á fiskmeti, kjöt, grænmeti og annað lostæti.

Slippurinn hefur verið í Magna húsinu síðan 2012. Þar fær fyrri starfsemi hússins að njóta sín. Vinna með smábirgjum og framleiðendum, sjómönnum og bændum í nærumhverfi. Tína jurtir og sjávargrös og rækta það sem erfitt er að fá annarsstaðar. Staðbundin og árstíðarbundin matargerð þar sem matseðilinn breytist í hverri viku eftir því hvaða hráefni eru til. Gamlar aðferðir eru tvinnaðar við nýjar og ferskar og vilja gera íslenskum hversdagslegum hráefnum hátt undir höfði.

GOTT er veitingarstaður sem leggur áherslu á heilsusamlegan mat þar sem allt er lagað frá grunni og notast er við ferskt og heilnæmt hráefni.

Einsi Kaldi er veitingastaður sem rómaður er fyrir ljúffenga sjávarrétti ásamt öðru staðbundnu hráefnum.

Mýrdalshreppur

Byggðin í Vík myndaðist í kringum verslun sem hófst 1884 þegar hófst útræði, upp- og útskipun. Flestir sem fluttu til Víkur á fyrstu árum voru bændur úr nágrenninu sem héldu til hluta af bústofninu sínum, sauðfé sem fékk beitiland í Vík sem og flest heimili áttu sína kú til mjólkurframleiðslu. Voru kýrnar reknar saman í og úr þorpi kvölds og morgna. Mýrdælingar voru háðir húsdýrum sínum þar sem flest öll matvælaframleiðsla var heima fyrir. Mjólk og mjólkurafurðir voru unnar heima og sauðakjöt verkað.

Bændur fóru í verstöð að hausti, til Reykjavíkur eða jafnvel á Snæfellsnes. Hlunnindi voru af því að vera staðsett við sjó og lífsnauðsynlega björg í bú. Mýrdælingar fóru að veiða fýl uppúr 1830 enda mikið af fýl í Mýrdalnum. Fyrst var háfur notaður eða reynt að skjóta fýlinn niður af færi. Einnig var reynt að klífa björgin sem var hættulegt enda menn með frumstæðan búnað við það. Fram á fyrsta áratug síðustu aldar var sigið eftir fugli, bæði vetrarfýl og ungum í lok sumars. Bjargsig var erfitt og mannfrekt. Oft voru svartfuglsegg tínd í leiðinni. Enn þann dag í dag er sigið eftir eggjum en nú eru einungis fýlsungar veiddi í lok sumars, 1 – 2 vikur. Þá eru ungarnir eltir og rotaðir. Fýllinn er reittur, sviðinn og saltaður í tunnur.

Lundi var veiddur í háf um margra ára skeið, fyrst var hann grafinn upp úr holum sínum en seinna notaður háfur.

Allt fram á 4. tug síðustu aldar var útræði stundað í Mýrdal. Róið var frá Dyrhólaey, Reynisfjöru, Pétursey og Maríuhliði við Jökulsá á Sólheimasandi. Útræðið var mikilvægt til að veita björg í bú. Engin höfn er á svæðinu og lendingarskilyrði voru erfið svo hættulegt og veiðar stopular. Veiðar voru mannfrekar því sex og áttæringarnir voru þungir og brimlendingarnar hættulegar.

Skaftárhreppur

Skaftárhreppur er staðsettur á suðurströnd Íslands milli tveggja sanda, Mýrdalssands og Skeiðarársands. Eini þéttbýlisstaður svæðisins er Kirkjubæjarklaustur. Af bæjum sem áttu land að sjó voru hlunnindi af sel, silungsveiði og reka. Eftir mikil brimveður fóru bændur oft á ströndina að ná í fisk sem brimið hafði kastað á land. Fiskinn þurfti að sækja áður en fugl komst í hann.

Margar jarðir í Vestur Skaftafellssýslu voru landmikilar og hentuðu því vel til sauðfjárræktar. Bændur tóku þátt í sauðasölunni til Bretlands í gegnum Stokkseyrarfélagið. Langt var að fara í verslun fyrir Skaftfellinga, annars vegar til Eyrarbakka eða á Papós til að sækja vörur. Eftir að verslun hófst í Vík styttis ferðalagið töluvert og árið 1908 var farið að flytja vörur að Skaftárósi.

Skaftártunguosturinn: Mjólk hituð svo verður nýmjólkurvolg og hleypir látinn í. Hrært í við hægan eld þegar búið er að hlaupa. Fyrst hægt en svo hratt þangað til að hlaupstykkin voru orðin smágerð líkt og mylsna. Þá var potturinn tekinn af eldinum og breitt yfir hann og látinn standa í 5 – 10 min. Osturinn hnoðaður saman og látinn í ílát í sólahring. Tekinn og saltaður og lagður í saltpækil og svo þurrkaður upp. Geymdur á þurrum og svölum stað án dragsúgs. Daglega snúið og nuddað af honum með deigum klút. Tungukonum fannst þær ekki fá almennilega osta eftir að hætt var að nota sauðamjólk.

Álaveiðar voru í Landbroti og Meðalland og þykir herramannsmatur víða um heim. Notaðar voru álagildrur við veiðarnar en þær voru mestar um 1960. Lengi var hægt að fá ál hjá Sægreifanum í Reykjavík enda var eigandinn Kjartan Meðallendingur. Állinn var saltaður eða reyktur og roðið notað í skóþvengi. Íslendingar voru ekki hrifnir af álnum og því var mest af honum flutt út. Ekki sést jafn mikið af ál nú einsog áður og lítil skipulögð veiði verið. Getur það verið vegna tilflutnings sands og framræslu á mýrum. Enn er þó hægt að sjá ál í Meðallandi og Landbroti ef vel er leitað. Melur var nýttur til matar í hreppnum og lengst af í Meðallandi og Álftaveri. Úr korninu var bakað brauð, kökur og grautur. Melur er nú til dags notaður í landgræðslu þar sem eru sandfok eða mikill uppblástur. Það væri gott að viðhalda gömlu skaftfellsku aðferðinni við vinna melinn og þróa aðferðir til að nýta hann til matar eða handverk í dag.

Í lummum var allskonar korn og grjónagrautsafgangar nýttir og steiktar á pönnum. Skaftfellingar gerðu lummur úr mélmjöli.

Skúmseggjaleit og fýll var veiddur í Álftaveri.

Mikið af sjóbirting er í fljótunum, Kúðafljóti, Tungufljóti, Eldvatni og Grenlæk. Á Klaustri er bleikjueldi, Klaustursbleikja.

Á Seglbúðum hefur verið handverkssláturhús og á Borgarfelli er kjötvinnsla. Lélegar upplýsingar eru til staðar um stöðu þeirra, hvort séu enn í gangi eða ekki.  

Á Sandhól í Meðallandi hafa ýmsar nytjajurtir verði ræktaðar undanfarið, til dæmis hafrar, bygg og repja. Hægt að er kaupa repjuolíu, bygg, hafra og nautakjöt frá þeim.   

Grasa Þórunn var grasalæknir og ljósmóðir, fædd í Skaftártungu og ljósmóðir í Fljótshverfi. Hún þekkti vel til plantna og hvaða plöntur var hægt að nota til ýmissa lækninga.

Á Maríubakka var ræktuð rófa sem var gjörólík örðum norrænum rófustofnum. Fræ var fengið frá Kálfafelli og hafði afbrigðið aldrei farið úr sveitinni.

Í Skaftafellssýslu var útbúin magálakæfa. Magálar voru soðnir með sem minnstu vatni og flotið tekið ofan af. Eitt lag lagt ofan á annað og salt á milli. Flotinu hellt yfir í lokin. Farg sett ofaná og geymt á köldum stað. Á þessum slóðum tíðkuðust rúllupylsur ekki.