Fara í efni

Á Gullna hrings svæðinu er landbúnaður stundaður mikið þar sem mikil hefð er fyrir mjólkurframleiðslu, grænmetisrækt þar sem jarðhitinn er nýttur og kjötframleiðsla, sjómennska er stunduð út frá Þorlákshöfn og veiði er í ám og vötnum.

Árborg, Flóinn og Ölfus 

Sjórinn og landbúnaður

Við Þorlákshöfn hefur ávallt verið besti náttúrulegi lendingarstaður á suðurströndinni og því ætíð verið útræði þaðan. Stutt er þaðan á fengsæl fiskimið og var oft róið á 30 – 40 skipum frá Þorlákshöfn og dvaldi margt aðkomufólk þar yfir vertíð. Enn þann dag í dag er höfnin í Þorlákshöfn mikilvægasti hlekkurinn í atvinnustarfsemi bæjarins. Þar er einnig veitinga- og verslunarrekstur sem bæði ferðamenn og heimamenn eru duglegir að nýta sér.

Rófur eru ræktaðar á Hrauni í Ölfusi og þar er einnig stunduð sölvatekja. Ásamt því að sölvatekja hefur verið í Ölfusinu hafa söl verið nytjuð í Flóanum frá aldaöðli þar sem margir höfðu atvinnu á sölvatínslu. Kom fólk meðal annars austur úr Skaftafellssýslum til að kaupa söl.

Eyrarbakki var mikilvægur verslunarstaður fyrir allt Suðurland á öldum áður og útgerðarstöð. Um tíma var Eyrarbakki stærsti bær landsins, stærri en Reykjavík, og leit lengi út fyrir að Eyrarbakki yrði höfuðborg Íslands. Nú hefur atvinnan þróast í þjónustustörf og iðnað. Mikil fiskvinnsla og útgerð hófst í byrjun síðustu aldar og störfuðu þrjú fiskvinnslufyrirtæki þar fram undir síðustu aldamót. Höfnin á Eyrarbakka var aflögð árið 1988 og síðan þá hefur mikilvægi sjávarútvegs fyrir afkomu íbúenda minnkað til muna.

Sama má segja um Stokkseyri, blómatími sjósóknar þar hófst rétt fyrir aldamótin 1900 með uppskipunarbryggju og almennilegri bryggju um miðja öldina. Vélbátar voru helsta atvinnutæki þorpsins. Eftir að Óseyrarbrú var tekin í notkun hefur höfnin verið lítið notuð eins og á Eyrarbakka. Hraðfrystihús Stokkseyrar, síðar þekkt sem Menningarverstöðin þegar hraðfrystihúsið var aflagt og húsið nýtt undi listir og menningu, setur stóran svip á ásýnd bæjarins.

Í og við Ölfusá voru stundaðar veiðar á ál. Suðurlandið hentar vel til veiða á ál og er hægt að veiða hann í gildrur. Álaveiðar eru bannaðar síðan sumarið 2019.  

Á síðustu öld hefur margt breyst í Sandvíkurhreppi og þá helst búskaparhættir. Sauðfjárræktin efldist undir lok 19. aldar. Um 1890 voru seldir sauðir á fæti til Englands en lagðist af eftir 6 ár. Eftir það voru búskaparárin erfið þangað til að bændur fóru að stofna rjómabú. Sláturfélag Suðurlands var stofnað 1907 og gerðust flestir bændur stofnendur. Eftir að rjómabúin hættu fóru menn að hafa mest út úr því að selja haustlömb til slátrunar. Eftir að Mjólkurbú Flóamanna var stofnað 1929 fóru bændur að selja kúamjólk þangað. Garðrækt var aðeins fyrir heimilið en gulrófnarækt var á nokkrum bæjum. Eins og á flestum stöðum hefur hefðbundinn landbúnaður verið á undanhaldi en þau bú sem eru eftir stækka. Flest eru kúabú, fjárbú eru á undanhaldi, einn er í kjúklingarækt, eitt svínabú og einn bóndi er með æðarvarp og laxveiði.

Í upphafi 20. aldar voru rjóma- og smjörbú mörg á Íslandi. Rjómabúið á Baugsstöðum var samvinnufélag og mikilvægur hluti af hagkerfi bænda í kring. Blómaskeið þess var frá aldamótum til 1920 og var starfrækt til 1952. Framleitt var smjör og ostar úr rjóma sem bændur komu með á hestum og var megnið af framleiðslunni selt til útlanda og til Reykjavíkur.

Á Selfossi eru öflugar afurðavinnslur sunnlensks landbúnaðar og þjónusta við hann. Þar er til dæmis stærsta mjólkurbú landsins og sláturhús, Sláturfélags Suðurlands með úrbeiningu og pökkunarstöð. Mikla nýsköpun og vöruþróun við vinnslu landbúnaðarafurða á Selfossi má eflaust þakka áratuga reynslu, þekkingar og fagmennsku á svæðinu.

Milli laxveiðiánna Hvítár og Þjórsá liggur sveitarfélagið Flóinn. Eitt af mikilvægustu framfaraskrefum Flóans á síðustu öld var Flóaáveitan. Hún náði yfir 12 þúsund hektara lands og boðaði mikil umskipti í búskap og atvinnuháttum á svæðinu. Landbúnaður er enn helsta atvinnugrein svæðisins með vaxandi ferðaþjónustu.

Hveragerði

Ylrækt

Um 1929 fór þorpið Hveragerði að myndast eftir að samvinnufélag um Mjólkurbú Ölfusinga var stofnað. Á sama tíma hófst ylrækt og eru fjölbreyttar tilraunir til nýtingar varmans einkennandi fyrir sögu bæjarins. Að hafa jarðhitasvæði í miðjum bænum er mjög einstakt á landsvísu og jafnvel þó víðar væri leitað. Dæmi um nýtingu jarðhitans má nefna Þangmjölsverksmiðju þar sem þangmjöl var framleitt og Garðyrkjuskóli ríkisins á Reykjum útskrifaði fyrstu nemendur árið 1941. Margar garðyrkjustöðvar risu á næstu árum og fóru Reykvíkingar að venja komu sínar til Hveragerðis til að kaupa afurðir garðyrkjubænda. Árið 1946 hóf Hverabakarí starfsemi sína sem heitir nú Almar bakari. Enn þann dag í dag er gufa nýtt til baksturs í Hveragerði.

Áður fyrr voru hverir litnir hornauga enda slysagildrur fyrir menn og fé. Erlendir garðyrkjumenn sáu þó möguleika í að nýta heita vatnið og upp úr 1900 voru einstaklingar og áhugafélög farin að gera ýmsar ræktunartilraunir. Stofnun Garðyrkjuskóla ríkisins hraðaði þróun garðyrkju á Íslandi, þar sem mikilvæg starfsemi er í gang, enda byggist meðal annars okkar framtíð á að nýta þær auðlindir sem landið hefur upp á að bjóða.

Garðyrkjuskóli ríkisins sem er nú undir Landbúnaðarháskóla Íslands er enn starfræktur á Reykjum. Hann er opinn almenningi sumardaginn fyrsta hvert ár og er þá hægt að skoða framandi hitabeltisgróður eins og kakóplöntur og bananaplöntur. Bananauppskeran er um tonn á ári sem má ekki selja og njóta því starfsmenn og nemendur góðs af henni. 

Skyrgerðin í Hveragerði var sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi þegar hún var reist 1930. Var skyr aðalframleiðsluvaran en einnig var fyrsta jógúrtin á Íslandi framleidd þar, nefndist heilsumjólk. Í dag er enn verið að framleiða þar skyr upp á gamla mátann og er það nýtt í matargerð, bakstur og í blöndun á drykkjum hjá veitingastaðnum Skyrgerðin.

Auk grænmetisframleiðslu og blómaframleiðslu er eitt stærsti ísframleiðandi landsins staðsettur í Hveragerði, fjölskyldufyrirtækið Kjörís sem hóf starfsemi 1969.

Uppsveitir Árnessýslu

Jarðhiti, landbúnaður og lífræn ræktun

Í uppsveitum er mikið um jarðhita og er hann forsenda helstu þéttbýliskjarna á svæðinu. Vitundarvakning um ylræktun á Íslandi og uppbyggingin á garðyrkjustöðvum hófust á 4. áratugi síðustu aldar og er garðyrkja stærst á Suðurlandi, eða um 67% ef horft er til rekstrartekna. Hekluvikur er einnig mikið notaður, jarðhitinn og vistvæn framleiðsla þar sem engin eiturefni eru notuð og býflugur frjóvga plöntur. Daglega eru sendar út ferskar vörur til neytenda.

Á árum áður voru hverir notaðir til eldamennsku og til að hita kaffi. Enn má sjá hleðslur við hveri þar sem var eldað og bakað og voru þá notuð sérhæfð áhöld til þess. Snemma fóru menn að nýta hitann til húshitunar, gróðurhúsa og til að baða sig, mikil baðmenning á svæðinu.

Flúðir hefur byggst upp vegna jarðhitans, þar er elsta sundlaug á Íslandi og var baðstaður í aldaraðir á undan. Flúðaskóli var stofnaður þar sem hægt var að nýta hveri til að elda fyrir skólabörn. Mesta svepparækt Íslands er á Flúðum. Flúðasveppir rækta lífræna sveppi úr íslensku hráefni. Margar garðyrkjustöðvar eru á Flúðum, fjölskyldufyrirtæki sem stunda bæði ylrækt og útiræktun á grænmeti.

Byggðakjarnarnir Laugarvatn, Laugarás og Reykholt byggðust einnig upp vegan jarðhitans. Héraðskólann var ákveðið að staðsetja á Laugarvatni vegna jarðhitans sem þar er, og þaðan þróaðist þorpið í menntasetur með öll skólastig. Hverabrauð er bakað í hvernum niður við vatnið. Einnig er veitt í ám og vötnum í nágrenninu. Í Reykholti var hver virkjaður og byggð reis upp í kringum hann, upp úr 1945 fóru garðyrkjustöðvar að rísa þar. Í Laugarási byrjaði einnig uppbygging um 1946 vegna jarðhitans. Við Laugarvatn er veiði í ám og vötnum mikil í grenndinni og einnig er jarðhiti. Þar er til dæmis bakað hverabrauð.  

Upphaf lífrænnar ræktunar á Íslandi hófst á Sólheimum í Grímsnesi og eru enn einn stærsti framleiðandi á lífrænu grænmeti í glerhúsi á Íslandi.

Í Skaftholti er einnig sjálfbær lífræn og lífefld ræktun þar sem einstaklingar með þroskahömlum búa. Þar er kúabú, hænsnabú og fjárbú. Einnig er fjölbreytt grænmetisræktun og unnar afurðir t.d. ostagerð og jurtavinnsla.

Í Þingvallavatni má finna urriða og 4 tegundir af bleikju. Vatnið er vinsælt til veiða og á marga fastagesti.

Í Skálholti er boðið upp á miðaldamálsverði: krydduð vín, grænmeti, gæsasúpa, svartfugl o.f. Þar sem fólk notaði ekki skeiðar á miðöldum er súpan drukkin úr skálum og þjónar klæða sig í miðaldastíl.

Rangárþing ytra og Ásahreppur

Veiði í ám og vötnum, hrossakjöt og kartöflur

Ásahreppur hefur fjölbreytta náttúru, mýrlent með ásum og holtum á milli þar sem bæjir standi í þyrpingum. Landbúnaður, verslun og þjónusta eru aðal atvinnuvegir og stærsta varpland grágæsa á Íslandi er við Frakkavatn.

Veiðivötn á Landmannaafrétti er vinsæll staður fyrir stangveiði. Þangað fara þúsundir veiðimanna árlega og eru vötnin gjöful af bleikju og urriða.

Hella er ungur kaupstaður sem var byggður í kringum þjónustu við landbúnað og verslun. Hella stendur við eina bestu laxveiðiá landsins, Ytri Rangá. Á Hellu eru nokkrar matvinnslur:

  • Reykjagarður/Holtakjúklingur framleiðir álegg, pylsur, eldaðar afurðir, heita rétti, frosinn og ferkan kjúkling.
  • Fiskás er fiskbúð og vinnsla á Hellu. Var stofnað árið 2010 og vinnur aðallega með afurðir úr lax enda milli tveggja mikilla laxáa, Ytri- og Eystri- Rangár. Fiskás þjónustar veiðimenn og kaupir einnig ferskan fisk á markaði fyrir fiskbúð sína.
  • Villt og alið er kjötvinnsla sem úrbeinar og pakkar kjöti af nautgripum, hrossum, lömbum og hreindýrum. Selja einnig vörur úr nágrenni, til dæmis svínakjöt frá Korngrís í Laxárdal
  • Sláturhúsið Hellu

Í kringum Gunnarsholt var mikill sandblástur hér áður fyrr. Eftir mikla baráttu við sandinn fór Gunnarsholt í eyði árið 1925. Sandgræðslan keypti bæinn ári seinna og fór strax í að girða og reyna að stöðva sandfok. Á fjórða áratug var búið að græða upp mela og sanda og hefur svæðið þungamiðja í landgræðslustarfi í Gunnarsholti. Nú eru þar stór og flöt tún með skjólbeltum og hægt að leiga þar land fyrir kornrækt. Í Gunnarsholti var fyrsta holdanautabú á Íslandi.

Þykkvibær

Þykkvibær er elsti þéttbýliskjarni á Íslandi og á sér mikla matarsögu og menningu. Þykkvabæjarþorpið mun hafa risið upp vegna þess, að útræði var gott úr Rangárósi og einnig hafa góð hlunnindi haft áhrif á sókn fólks þangað. Af hlunnindum má nefna sel, silungsveiði og reka. Þykkbæingar voru þekktir fyrir að borða hrossakjöt sem þótti hneykslanlegt og ókirkjuhæft en nágrannabændur ráku stóð til slátrunar í Þykkvabæ og fengu heimamenn að hirða kjötið. Oft var svo mikið af kjöti að ekki var nóg salt til að geyma það svo að ýldulykt var í kotunum en fólk át kjötið eins lengi og það hafði einhverja lyst á því.

Alltaf var erfitt að stunda sjó frá Þykkvabæ vegna opins hafsins en síðast var farið þaðan á árabát árið 1955. Þykkbæingar notuðu melinn og bjuggu til þykkan graut úr því sem þeir kölluðu deig. Það kom í staðinn fyrir brauð, var sett á disk og smjör yfir. Var talið ljúffengt, saðsamt og hollt.

Þykkvibær er nú þekktastur fyrir kartöfluræktunina. Hún hófst árið 1934 og tók seinna við af öðrum búskap. Bændur bjuggu sér til heimasmíðuð verkfæri til niðursetningar. Tunna var tekin og tréstautar festir á með jöfnu millibili og ekið um akurinn eins og með hjólbörur. Má segja að kartöfluræktunin sé helsti menningararfur Þykkbæinga. Sendni jarðvegurinn og flatlendið hentar vel til kartöfluræktunar. Einnig eru minni líkur á næturfrosti vegna hærri lofthita við strandlengjuna. Auk þess hentar vel að vera ekki fjarri höfuðborgarsvæðinu og helsta markaðnum. Kartöfluverksmiðja Þykkvabæjar var stofnuð 1981 og var leið til að nýta kartöflur sem annars hefði verið hent vegna offramleiðslu. Dreifing og sala fer fram í Garðabæ en verksmiðjan starfar enn í Þykkvabæ og er nú í eigu Sóma ehf. Í Þykkvabænum eru framleiddar skræður úr þurrkuðu hrossakjöti.

Álfur brugghús er staðsett í Kópavogi en bruggar bjór úr íslensku kartöfluhýði og byggi. Um helmingur hráefnisins er hýði frá Þykkvabæjarkartöflum.

Frá árinu 2005 hafa Þykkbæingar haldið Kartöfluballi sem kom til í kjölfar þess að fella varð niður þorrablót á staðnum vegna lítillar þátttöku.