Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Jarðhiti er ein mikilvægasta orkulind Íslands. Til þess að jarðhiti verði til þarf jarðskorpan að vera nægilega heit og í henni nægar sprungur og vatnsgeng jarðlög til að vatn geti runnið þar um og flutt með sér varma neðan úr dýpri og heitari jarðlögum til yfirborðs. Vegna þess að neðri hluti jarðskorpu Íslands er að miklu leyti myndaður úr kvikuinnskotum sem ekki hafa náð til yfirborðs og storknað á leiðinni upp, er hún tiltölulega heit. Kvikuflæði upp í rætur háhitakerfa leiðir til varmainnspýtingar, en það getur valdið aukinni hveravirkni. Íslendingar hafa nýtt sér jarðvarmann frá því að land byggðist, fyrst og fremst til baða og þvotta, en einnig til þess að sjóða mat og baka. Fyrst var borað eftir heitu vatni við Þvottalaugarnar í Reykjavík árið 1928 og árið 1943 tók hitaveita Reykjavíkur til starfa. Í dag er fjöldi hitaveita um allt land og er heita vatnið meðal annars nýtt til húshitunar og til að hita upp sundlaugar landsins. Heita vatnið er einnig nýtt við raforkuframleiðslu, en í litlum mæli þó. Á jarðhitasvæðum er mikið um ylrækt, einkum sunnanlands, en þar eru fjölmörg gróðurhús, þar sem ræktað er grænmeti, ávextir og blóm. Jarðhitinn sér landsmönnum jafnframt fyrir fjöldanum öllum af heitum náttúrulaugum af ýmsum gerðum, sem hægt er að baða sig í allan ársins hring. Á Suðurlandi eru allmargar slíkar laugar og má þar nefna heita lækinn í Reykjadal fyrir ofan Hveragerði og Gömlu laugina á Flúðum. Flestar þessara lauga eru opnar öllum, allan ársins hring, en hafa ber í huga að sumar þeirra eru í einkaeigu og er aðgengi þá í höndum eigenda.

Sundlaugar

Um allt land er fjöldinn allur af sundlaugum, stórum og smáum og þær eru allar upphitaðar. Flestar eru útilaugar en þó er ein og ein innilaug. Íslenskar sundlaugar eru opnar allan ársins hring og eru gríðarlega vinsælar jafnt hjá heimamönnum sem ferðamönnum.

Heilsurækt og Spa

Hér geturu fundið staði til að stoppa við á ferðalaginu um landið og slaka á í heitum laugum og náttúrulegu gufubaði.

Náttúrulegir baðstaðir

Fátt er notalegra en að slaka á í heitri laug úti í náttúrunni.Ísland er ríkt af náttúrulaugum af ýmsum stærðum og gerðum og þær fyrirfinnast um allt land.