Umhverfisstofnun lokar Fjaðrárgljúfri
Mikið álag er á svæðinu við Fjaðrárgljúfur og hætta á umtalsverðum skemmdum á gróðri meðfram göngustígum vegna ágangs ferðamanna.
Veðurfar undanfarnar vikur, hlýindi og mikil rigningartíð, hefur orðið þess valdandi að göngustígur meðfram gljúfrinu liggur undir skemmdum og er illfær vegna aurbleytu og leðju. Þetta gerir það að verkum að gestir ganga utan við göngustíginn. Gróður er í dvala á þessum árstíma og svæðið sérstaklega viðkvæmt fyrir átroðningi. Það skemmist hratt með ágangi utan göngustígs auk þess sem nýir villustígar verða til. Mikill fjöldi ferðamanna heimsækir svæðið á degi hverjum og er álag á göngustíg og umhverfi hans gríðarlegt. Í sumar var lokið við endurgerð og uppbyggingu á hluta göngustígarins og er sá hluti í góðu ásigkomulagi. Búið er að hanna nýjan göngustíg meðfram öllu gljúfrinu sem mun þola umhleypinga eins og hafa verið undanfarnar vikur. Stefnt er á að hefja þær framkvæmdir við fyrsta tækifæri.
Umrætt náttúruverndarsvæði er nr. 703 á náttúruminjaskrá. Í ljósi framangreinds hefur Umhverfisstofnun gripið til þess ráðs að loka svæðinu frá og með morgundeginum, 09. janúar, uns aðstæður batna. Lokunin er gerð bæði af öryggisástæðum og til að koma í veg fyrir frekari gróðurskemmdir á svæðinu. Umhverfisstofnun biður ferðaþjónustuaðila að upplýsa viðskiptavini um að Fjaðrárgljúfur sé lokað og vísa ekki fólki þangað. Bílastæði er einnig lokað og ekki hægt að leggja bílum í næsta nágrenni við svæðið.
Stefnt er að því að endurskoða lokunina eigi síðar en innan tveggja vikna eða ef ástand breytist fyrir þann tíma. Lokunin er framkvæmd samkvæmt 25 gr. laga um náttúruvernd.