Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Þú ert kveikjan - Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir

5. febrúar - 22. maí

Sýningarstjóri: Erin Honeycutt

Á sýningunni Þú ert kveikjan kannar Ingunn Fjóla spennuna á milli reiðu og óreiðu á leikrænan hátt. Innsetningin er fyrst og fremst malerísk, að því gefnu að hægt sé að líta á kerfi mynstra sem malerískt fyrirbæri. Upplifun sýningargesta er hluti af alltumlykjandi kerfi verksins; kerfi sem gestir hafa áhrif þegar þeir ferðast um rýmið og bregðast við þeim vísbendingum sem Ingunn Fjóla hefur byggt inn í verkið. Ætlast er til þess að hreyft sé við innsetningunni, en hvernig sú tilfærsla fer fram veltir upp spurningum um sambandið milli röskunar og myndbyggingar verksins.

Fyrri verk Ingunnar Fjólu hafa að mestu verið málverk og innsetningar. Með því að nota ólík efni, sem á ófyrirsjáanlegan hátt ögra fagurfræðilegri upplifun áhorfenda og hvernig þeir skynja sýningarrýmið, fellir hún saman fyrirframgefnar upplýsingar sem augað nemur við hugmyndafræði sem talar til áþreifanleika líkamans. Áhorfandinn tekur þátt í abstrakt frásögn sem verður til úr ýmiskonar flötum og sjónarhornum. Málaðir fletir í höfundarverki Ingunnar Fjólu vísa í ýmsar áttir – stundum minna þeir á skilrúm eða göngupall en öðrum stundum á merki, svið eða skjá.

Á sýningunni Þú ert kveikjan geta gestir fært til hluti verksins þannig að kerfið kann að rofna eða breytast, allt eftir því hvernig maður skynjar mörkin milli reglu og óreglu. Allt rúmast innan þeirra hreyfinga sem áhorfendur leggja til. Í lok dags er verkið núllstillt með því að raða öllu aftur í sitt í upprunalega horf svo leikurinn geti hafist að nýju næsta dag og þannig dvelur innsetningin í stöðugu flæði milli reiðu og óreiðu.

Þú ert kveikjan er ný útgáfa af samnefndri innsetningu eftir Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur sem sýnd var í Galerie Herold í Bremen, Þýskalandi 13. september – 13. október 2019. Völdum hlutum verksins hefur verið breytt til að aðlaga rýminu í Listasafni Árnesinga.

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir (1976) útskrifaðist með MA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2017 og BA gráðu í myndlist frá sömu stofnun árið 2007. Hún er einnig með BA gráðu í listasögu frá háskólanum í Árósum frá 2002. Ingunn Fjóla fæst aðallega við málverk og innsetningar. Í listsköpun sinni byggir hún gjarnan á sögu naumhyggjunnar og abstraktmálverksins. Verk hennar fela oft í sér gagnvirkni eða beina þátttöku og teygir hún þannig svið málverksins inn í opið kerfi þar sem verkin lifna við fyrir tilstilli áhorfenda og rýmisins. Verk Ingunnar hafa verið sýnd víða í galleríum og söfnum á Íslandi, þar á meðal í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur og í Hafnarborg. Ingunn hefur einnig tekið þátt í sýningum erlendis, má þar m.a. nefna tvíæringinn Prag 5 í Tékklandi, Cluj safnið í Rumeníu og Kunstverein Springhornhof í Þýskalandi. Af nýlegum sýningum má nefna Efnisgerð augnablik / Moments Unfolding (Nýlistasafnið, 2021), Listþræðir / Threads of Art (Listasafn Íslands, 2021) og Mynd eftirmynd Image afterimage (Kompan- Alþýðuhúsið, Siglufjörður, 2020).

www.ingunnfjola.net

Erin Honeycutt (1989) er rithöfundur, bóksali og sýningarstjóri sem býr og starfar í Berlín. Hún er með MA-gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands auk MA-gráðu í trúarbragðafræðum frá Universiteit van Amsterdam. Hún skrifar ljóð, sýningarrýni og margvíslegan texta í samvinnu við listamenn. Erin var tilnefnd til Broken Dimanche Press verðlaunanna fyrir skrif um list og textar hennar hafa meðal annars verið birtir í SAND Journal, BARAKUNAN og Neptún Magazin.

erinhoneycutt.persona.co

Staðsetning

Austurmörk 21, Hveragerði

Sími