Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Iðustreymi

5. júní - 29. ágúst
Iðustreymi
-----------
Gjörningaklúbburinn, Katrín Elvarsdóttir, Kristín Gunnlaugsdóttir, Sara Björnsdóttir og Elísabet Jökulsdóttir.
-----------
5. júní – 29. ágúst 2021
-----------
Aqua Maria - Gjörningaklúbburinn.
Í verkinu Aqua Maria er sópransöngkona í rými sem svipar til gufubaðs en eftir því sem á líður verður rýmið óræðara. Á meðan söngnum stendur myndast vatnsdropar á hári hennar og andliti, þéttast og þyngjast þangað til að þeir streyma niður andlitið.
Vídeóið hverfist um Aqua Maríu sem er táknmynd baráttuandans sem rís upp úr hafinu sem innblástur fyrir þá umbreytingu sem konur eru að upplifa í samtímanum, undir áhrifum byltingar- og baráttuanda gegn óréttlæti og ofbeldi, eins og má sjá um allan heim í herferðum eins og #metoo, Kvennagöngunni, Black Lives Matter, Druslugöngum og Free the Nipple sem eru skipulagðar á netinu.
Aqua Maria tekur einnig á brennandi umhverfismálum og hnattrænni hlýnun. Við eigum aðeins eina jörð og einn líkama, hvortveggja samanstendur af 70% vatni. Aqua Maria er í okkur öllum og byltingin er í okkur öllum, nafn hennar, María, felur bæði í sér hebreska orðið fyrir byltingu og íslenskt orð fyrir haf.
Aqua Maria vísar í sterka strauma samtímans: frá náttúrunni til femínisma, frá list til vistfræði. Verkið táknar mannlegt traust á innsæi í ljósi nýrrar tækni og streymi stafræna hafsins.
Myndlistarkonurnar Eirún Sigurðardóttir og Jóní Jónsdóttir eru starfandi meðlimir Gjörningaklúbbsins sem var stofnaður af þeim ásamt myndlistarkonunni Sigrúnu Hrólfsdóttur árið 1996. Sigrún starfaði með hópnum til ársins 2016 og grafíski hönnuðurinn Dóra Ísleifsdóttir frá 1996-2001.
Eirún og Jóní útskrifuðust báðar frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1996. Eirún stundaði framhaldsnám við Listaháskólann í Berlín 1996-1998 og útskrifaðist með viðbótardiplómu í hagnýtri jafnréttisfræði frá Háskóla Íslands 2014. Jóní stundaði framhaldsnám við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn 1997-1999 og útskrifaðist með mastersgráðu í kennslufræðum frá Listaháskóla Íslands 2011.
Hugmyndir Gjörningaklúbbsins tengjast oft félagslegum málefnum með feminískum áherslum í bland við glettni og hressandi einlægni. Gjörningaklúbburinn vinnur í þá miðla sem þjóna hugmyndum hans hverju sinni, svo sem gjörninga, ljósmyndir og innsetningar og nýtir sér gjarnan verkfræði ömmunar, handverk og útsjónarsemi í bland við glæsileika og nútímatækni.
Gjörningaklúbburinn vann með Björk Guðmundsdóttur fyrir Volta plötu hennar 2007 og hefur í gegnum árin unnið að fjölbreyttum verkefnum með listafólki á borð við GusGus, Ensamble Adapter, Ragnari Kjartanssyni og Kiyoshi Yamamoto.
Gjörningaklúbburinn á að baki fjölda einka- og samsýninga í söfnum og galleríum um allan heim þar á meðal ARoS listasafnið í Danmörku, Moma samtímalista-safninu í New York, Kunsthalle Vienna í Austurríki, Schirn Kunsthalle og samtíma-listasafninu Hamburger Bahnhof í Þýskalandi, Amos Anderson listasafninu í Helsinki og Lilith Performance Studio í Svíþjóð.
Gjörningaklúbburinn var einn þriggja listamanna/hópa sem voru valin til þess að útfæra hugmyndir sínar nánar fyrir Feneyjatvíæringinn 2017 og var valinn Listhópur Reykjavíkur 2018 af Menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur.
Gjörningaklúbburinn er kynntur af Pinksummer Contemporary Art
-----------
 
Margsaga – Katrín Elvarsdóttir
Við erum stödd innandyra og horfum út. Við erum stödd utandyra og horfum inn. Kona í rauðri kápu, hjólhýsi eftir miðnætti, gul gluggatjöld – allt eru þetta vísbendingar í brotakenndri frásögn sem vekja upp spurningar frekar en að gefa svör. Í myndaröðinni Margsaga verðum við vitni að óljósum atburðum sem við höfum óvart ratað inní. Eins og óboðnir gestir í sviðsmynd sem neitar að uppljóstra hvort hún sé raunveruleg eða skálduð. Brotin raðast saman og þröngva upp á okkur margræðri atburðarrás. Hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Katrín Elvarsdóttir (f. 1964) lagði stund á nám í myndlist og ljósmyndun í Bandaríkjunum. Ljósmyndaverk hennar einkennast af brotakenndum en jafnframt óræðum frásögnum, þar sem leikið er með hugmyndina um sameiginlega minningarsköpun. Verkin innihalda oft frásagnir af dularfullum atburðum sem áhorfandinn verður óafvitandi hluti af, þar sem ákveðnir hlutir eru sýnilegir en öðru er leyft að liggja á milli hluta, og það sem útaf stendur kallast fram í hugskotsjónum áhorfandans. Þannig gerast verkin innan óræðs tíma og sögusviðs, uppfull tilvísana og styðjast við kvikmyndalega aðferðarfræði, mjúkan fókus og snarpa notkun ljóss og skugga.
Á sama tíma og Katrín hafnar hefðbundinni heimildanotkun ljósmyndamiðilsins nýtir hún sér rannsóknarmöguleika hans og eðlislæga eiginleika til áleitinnar myndsköpunar og fagurfræðilegrar tjáningar innan samhengis samtímalista.
Verk hennar hafa verið sýnd víðsvegar hér á landi og erlendis, má þar meðal annars nefna Listasafn Reykjavíkur og Listasafn Íslands, Forum Box í Helsinki, Ljósmyndasafnið í Seoul, Martin Asbæk gallerí í Kaupmannahöfn, BERG Contemporary í Reykjavík og Frankfurter Kunstwerein í Frankfurt. Hún hefur hlotið verðskuldað lof fyrir verk sín og ýmis verðlaun, meðal annars hin virtu EIKON verðlaun, Deutsche Börse tilnefningu og Ridgefield Guild of Artists verðlaunin, auk þess sem hún er meðstjórnandi Ljósmyndahátíðar Íslands.
-----------
Saumaðar teikningar – Kristín Gunnlaugsdóttir
Saumuðu verkin kalla ég saumaðar teikningar þar sem ég styðst við skissur eða hraðteikningar.
Oftast eru þetta konur og ómeðvitaðar línur en stundum krass sem skapast í teiknihreyfingunni.
Ég teikna þær hratt og án umhugsunar og vildi stækka þær en varðveita um leið kraftinn og léttleikann sem býr í þeim. Saumurinn var niðurstaðan og síðan bætist litur þráðarins við, það verður eins og að mála með ullinni.
Textaverkin eru síendurteknar setningar með persónulegri handskrift. Setningarnar liggja í hversdagsleikanum og tengjast myndmáli teikninganna, en með sífeldri endurtekningu þyngist merking orðanna, breytist og magnast.
Kristín Gunnlaugsdóttir er fædd í Reykjavík 1963. Hún stundaði nám við Myndlista- og Handíðaskóla Íslands frá 1984-87, lærði íkonagerð í klaustri í Róm á Ítalíu 1987-88 og útskrifaðist frá Accademia di belle Arti í Flórens 1988-94.
Kristín hefur eingöngu starfað við myndlist, haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum, heima og erlendis. Verk hennar eru í eigu helstu opinberra safna landsins, ásamt fjölda fyrirtækja og einkaaðila. Kristín hefur einnig verið stundakennari við Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólann í Reykjavík frá 2016. Hún hefur fengið ýmsar viðurkenningar fyrir list sína og var veitt fálkaorðan árið 2018 fyrir framlag sitt til myndlistar.
Verk Kristínar eru fjölþætt í tækni en byggja á klassískri hefð málaralistarinnar. Hún vinnur með teikningu, málun á pappír og striga, eggtemperu á tré með blaðgulli og saumuð verk á striga.
Hugmyndaheimur Kristínar beinist að tilvistarspurningum manneskjunnar, ekki síst frá sjónarhóli konunnar og stöðu hennar í samtímanum. Á fyrstu árum ferilsins höfðu verk Kristínar yfir sér trúarlegan helgimyndablæ þar sem sýndu meðal annars samband manns og náttúru eða móður með barn. Í kringum 2011 breyttust verk hennar með tilkomu stórra saumaðra veggteppa þar sem myndmálið varð beitt og berort gagnvart kynhlutverkum, kvenlíkamanum og bælingu.
Þrátt fyrir að taka fyrir tabú og konuna sem kynveru má einnig greina ljóðrænan einfaldleika og húmor í verkum Kristínar, ekki síst undanfarin ár.
Í verkum sínum er hún óhrædd að kanna nýjar slóðir og breyta til innan myndmáls síns, gjarnan með að tefla saman andstæðum.
kristing.is
-----------
Between the lines / Milli línanna. Klippimyndir og textaverk 2011-2020 – Sara Björnsdóttir
„Undanfarin ár hef ég verið að vinna að texta-klippiverkum. Verkin bera titilinn Between the lines sem er lína/setning úr einu verkinu og tilvísun í að þó þetta sé mín hugarsmíð þá eru orðin klippt úr samhengi einhvers annars og liggja því milli línanna, í verkunum sjálfum liggur líka eitthvað milli línanna sem gefið er í skyn en þarf að hugsa um.“
„Textinn er oft á tíðum eins og lítil saga, ljóð eða pæling. Getur verið beittur, ljóðrænn, ádeila, húmor eða súrrealískur. Hann fjallar mikið um listina, að vera listamaður og manneskja. Stundum er ég að tala um fólk sem ég hef hitt á förnum vegi, vini og vandamenn þó það sé ekki vitað við lestur verkanna.“
Sara Björnsdóttir er fædd í Reykjavík 1962. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1991-1995 og MA Fine Art frá Chelsea College of Art & Design í London 1996-1997.
Frá útskrift hefur Sara verið áberandi á íslenskri listasenu og starfað ötullega að myndlist. Hún á að baki fjölda einka- og samsýninga og hefur sýnt á helstu söfnunum á Íslandi. Listasafn Íslands og Listasafn Reykjavíkur eiga verk eftir hana. Árið 2001 hlaut Sara viðurkenningu úr Minningarsjóði Dungals og ári síðar 2002 viðurkenningu úr listasjóði Guðmundu Andrésdóttur. Árið 2010 hlaut hún Alternative Routes verðlaunin fyrir myndband á 700IS Hreindýraland. Á árunum 2000-2015 var hún stundakennari við Myndlistaskólann í Reykjavík og við Listaháskóla Íslands. Sara var stjórnarmeðlimur og gjaldkeri í stjórn Myndhöggvarafélags Reykjavíkur 2010-2011. Einnig hefur hún verið í úthlutunarnefndum Myndlistarsjóðs, Kynningarmiðstöðvar íslenskar myndlistar og Muggs. Hún var einn af stofnendum Gallerí Kling & Bang í Reykjavík sem er í dag eitt virkasta og framsæknasta galleríið á Íslandi.
Árin 2015-2019 bjó Sara í London og stofnaði The Art Society sem er titillinn á verkefni sem voru tvær alþjóðlegar samsýningar með 20 listamönnum báðar haldnar í London. Ásamt því að stofna verkefnið, var hún skipuleggjandi, sýningarstjóri og einn sýnenda í báðum sýningum.
-----------
Elsku jörð.
Nú veit ég
hvað var svona
sorglegt.
Að vera.
Svo ég fór
en ég er komin.
Til að vera.
Og þá heyri ég hljóð
og heyri að þetta muni vera
rödd mín,
sem hefur sofið í líkamanum.
Hún kemur úr beinum mínum,
vöðvum, taugum og innyflum,
rödd úr eldgömlu myrkri,
rödd úr ókomnu ljósi.
Hugsa sér. Rödd,
Hún kemur úr frumunum,
úr hverri einustu frumu
hvíslandi,
þróttmikil ,
segjandi:
Ég er til.
Viltu hafa hljóð.
Hljóð.
Og gefa það frá þér.
 
Elísabet Jökulsdóttir (f.16. apríl 1958) er rithöfundur og skáld í Reykjavík. Fyrsta bók hennar kom út árið 1989 en það var ljóðabókin Dans í lokuðu herbergi. Hún hefur gefið út
fjölda bóka, boðið sig fram í forsetaframboði árið 2016 og nú síðast vann hún Íslensku bókmenntaverðlaunin.

GPS punktar

N63° 59' 46.710" W21° 11' 6.720"

Staðsetning

Listasafn Árnesinga, Reykjamörk, Hveragerði