249
999, Hálendi

Hálendistunga úr móbergi vestur frá Mýrdalsjökli (Merkurjökli), sundurskorin af smádölum, giljum og hvömmum. Krossá markar Þórsmörk bás að sunnan en Þröngá og Markarfljót að norðan. Birkiskógur er mikill í dölum og á hæðum og breiðist ört út. Uppblástur hefur verið allmikill, einkum að vestanverðu (á Merkurrana).

Ásbjörn Reyrketilsson nam land á Þórsmörk og helgaði landið Þór að sögn Landnámabókar. Þrjú bæjarstæði eru nú þekkt þar. “Á miðbænum” bjuggu Björn inn hvíti og Valgerður Þorbrandsdóttir að sögn Njáls sögu. Í Húsadal var síðast búið á árunum 1802-1803.

Afréttur á Þórsmörk var frá miðöldum að hálfu eign Oddakirkju og að hálfu bændaeign í Fljótshlíð. Margar kirkjur áttu þar skógarítök. Árið 1919 rituðu 40 bændur í Fljótshlíð skógræktarstjóra bréf þar sem farið var fram á að Skógrækt ríkisins tæki að sér vörslu Þórsmerkur og girti landið af því að það væri í stórhættu vegna uppblásturs. Var landið afhent Skógræktinni og Mörkin ásamt nálægum afréttum sunnan Krossár girt árið 1924. Við friðun hefur landið tekið miklum stakkaskiptum til bóta, uppblástur hefur verið haminn að mestu og gróðri hefur fleygt fram. Á Þórsmerkursvæðinu hafa fundist um 170 tegundir háplantna auk fjölmargra tegunda af mosum, fléttum og skófum.

Fjallasýn af Þórsmörk er mikil og fögur til Mýrdalsjökuls, Eyjafjallajökuls og Fljótshlíðar. Vandfundin er öllu fjölbreytilegri fegurð á Íslandi og minnir í ýmsu á Alpadali.

Þórsmörk er í röð vinsælustu helgardvalarstaða landsins. Þangað eru nú reglubundnar áætlunarferðir á sumrum á vegum Ferðafélags Íslands, Útivistar og Austurleiðar á Hvolsvelli. Ferðafélagið á sæluhús í Langadal, Skagfjörðsskála, Austurleið á nokkur hús vestan við Húsadal og Útivist tvö hús í Básum á Goðalandi. Farfuglar hafa helgað sér Slyppugil innan við Langadal og gróðursett þar allmikið af trjáplöntum. Leið inn í Þórsmörk er aðeins fær stórum, traustum og aflmiklum bílum og er einatt varasöm. Flugvöxtur í ám og sandbleytur hafa oft valdið ferðamönnum erfiðleikum og enda slys orðið í ferðum. Er því ávallt varúðar þörf. Nú er komin göngubrú yfir Krossá, byggð 1986.

Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1.0. Námsgagnastofnun 1995.