225
999, Hálendi
Eldfjall (1491 m y.s., um 1500 m y.s. fyrir gosið 1980) upp af Rangárvöllum. Er það hlaðið upp á gossprungu og því ílangt frá suðvestri til norðausturs. Alls er Heklusprungan um 40 km á lengd en Heklugjá sjálf var í gosinu 1947 um 5 km á lengd. Rannsóknir á öskulögum hafa leitt í ljós að saga Heklu nær að minnsta kosti 6600 ár aftur í tímann. Á sögulegum tíma eru Heklugos sennilega að nálgast 20 en auk þess hefur gosið 5-8 sinnum í nágrenni fjallsins. Hekla er eitt af kunnustu eldfjöllum heims og höfðu rithöfundar miðalda snemma vitneskju um hana. Var hún á þeim tíma talin inngangur að helvíti og trúðu menn því að þar loguðu sálir fordæmdra í eilífum eldi. Gengu um fjallið hinar mestu furðusagnir. Elsta gos sem sögur greina frá og það mesta á sögulegum tíma var árið 1104. Í því gosi tók af byggð í Þjórsárdal og á Hrunamannaafrétti. Eitt af þeim gosum sem hæst ber í frásögnum er gos er varð árið 1300. Þá segja heimildir að fjallið hafi rifnað að endilöngu. Drunur og brestir heyrðust alla leið norður í land. Heil björg flugu gegnum loftið. Myrkur varð um miðjan dag svo svart sem á niðdimmri nótt og náði það norður yfir allt landið. Þorðu menn ekki einu sinni að fara á sjó sökum myrkurs. Landskjálftar fylgdu gosinu og bæir féllu. Hallæri hlaust af og manndauði. Þetta gos stóð samfellt í heilt ár. Árið 1693 varð eitt af mestu Heklugosum, steinar á stærð við hús þeyttust órahátt til lofts og féllu niður mílu vegar frá fjallinu segir í heimildum. 14 gígir sáust gjósa samtímis. Rúmlega 50 bæir spilltust í gosinu og lögðust í eyði um stundarsakir. Stórgos varð aftur 1766 og stóð með hvíldum í tvö ár. Það vann ýmisleg spjöll og spillti bæjum. Þá varð gos í Heklu 1845 og stóð í 7 mánuði. Þriðja síðasta gos í Heklu varð 1947 og stóð samfleytt í 13 mánuði. Þá mældist gosstrókurinn 30 km y.s. fyrstu mínúturnar eftir að gosið hófst. Í þessu gosi kom upp í fjallinu um einn km³ gosefna og hylja hraunin, sem þá runnu, um 40 km² lands. Í gosinu varð síðasta banaslys af völdum eldgoss hér á landi er Steinþór Sigurðsson (1904-1947) mag. scient. fórst við rannsóknarstörf. Næsta Heklugos varð 1970. Hófst það 5. maí og stóð fram í júlíbyrjun. Allmikið hraun rann og öskufall olli nokkru tjóni í uppsveitum Rangárvalla- og Árnessýslu, norður um Húnavatnssýslur og syðst í Strandasýslu. Spilltust hagar svo að víða varð að halda fé inni fram á sumar. Nokkuð bar á sjúkdómum í sauðfé (flúoreitrun) og hrossum. Gos hófst í Heklu 17. ágúst 1980. Fyrsta hrinan stóð í þrjá sólarhringa. Heklugjá opnaðist öll, um 6 km, og gaus hrauni og ösku sem barst til norðurs og olli nokkru tjóni, einkum í Skagafjarðardölum. Hraun, sem komu þá upp, þekja um 25 km² en þau eru þunn og efnismagn lítið, eða um 0,1 km³. Gosið tók sig upp að nýju 10. mars 1981 og stóð þá í tæpa viku. Þá kom aðeins upp hraun, fremur lítið að magni, og runnu taumar niður hlíðarnar norðan hátindsins. Smágos varð í Heklu 1991 og annað í febrúar árið 2000. Auk þess sem nú hefur verið talið hafa mörg minni gos orðið í Heklu en sum þeirra hafa þó valdið tjóni eða þá meiri og minni jarðskjálftar í sambandi við gosin. Að því er talið er gengu þeir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson fyrstir manna á Heklutind, aðfaranótt 20. júní 1750. Þó voru til eldri sagnir um uppgöngu á fjallið. Auðveldast er að ganga á Heklu að norðan eða norðvestan.
Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1995. Margir ganga á Heklu ár hvert. Að vetrinum hefur nokkrum tekist að keyra þar upp á bíl. Aðgengi hefur verið bætt til mikilla muna og gerður akfær vegur í 900 metra hæð. Hekla þú ert hlálegt fjall, að haga þér til svona. Einatt kemur öskufall, úr þér góða kona.